Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi að leggja niður Héraðsskjalasafn bæjarins. Allir fulltrúar meirihlutans samþykktu tillögu þess efnis frá Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra, en fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti tillögunni og gagnrýndu að hún hefði ekki verið nægjanlega kynnt fyrir fundinn.
Tillagan byggðist á úttekt ráðgjafarfyrirtækisins KPMG en svipuð frá fyrirtækinu var til grundvallar þegar borgarstjórn ákvað að leggja niður Borgarskjalasafn á dögunum og leita til Þjóðskjalasafnsins varðandi varðveitingu gagna.
Þessar ákvarðanir hafa valdið talsverðri úlfúð og einn þeirra sem lagði orð í belg er sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason en hann telur að kúltúrsleysi megi um að kenna.
„Kópavogur fylgir fordæmi Reykjavíkur, lokar héraðsskjalasafninu, og vísar til hina miklu ráðgjafa frá KPMG. Hvaða kúltúrleysi hefur gripið um sig? Bæirnir gátu haldið úti sínum skjalasöfnum þegar þeir voru miklu fátækari og þótti alveg sjálfsagt. Þetta eru heldur ekki stórar fjárhæðir. Góð skjalavarsla er einn af hornsteinum samfélagsins – og hefur verið frá örófi alda. Er hægt að koma viti fyrir þetta fólk?,“ segir sjónvarpsmaðurinn og taka margir undir orð hans.