Í grein sinni fer Óli Björn yfir fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og bendir á að því miður sé ekki sérlega bjart yfir höfuðborginni. Borgarsjóður sé í fjárhagslegri kreppu og standi veikt.
„Afleiðingin er aukinn vanmáttur borgarinnar til að veita borgarbúum þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Nú er því miður svo komið að Reykjavíkurborg er helsti óvissuþátturinn í þróun opinberra fjármála og þar með ógn við stöðugleika á næstu árum,“ segir hann og bætir við að útgjöldin hjá borginni virðist stjórnlítil.
„Frá árinu 2014, þegar Dagur B. Eggertsson settist í stól borgarstjóra, til 2021 hækkuðu rekstrargjöldin um liðlega 39 milljarða króna á föstu verðlagi. Sé litið yfir valdatíma Samfylkingarinnar í borginni frá 2010 þá hafa rekstrargjöld A-hluta hækkað um rúma 53 milljarða,“ segir hann en bendir á að heildartekjur borgarsjóðs hafi numið alls 142 milljörðum króna árið 2021 sem er 42 milljarða raunhækkun frá 2014. Borgin glími ekki við neinn tekjuvanda því vandamálið séu útgjöldin.
Óli Björn fer svo yfir nokkrar staðreyndir um þróun borgarsjóðs frá 2014 til 2021 og bendir til dæmis á að fasteignagjöld hafi skilað borginni 7,5 milljörðum króna meira 2021 en árið 2014. Þá bendir hann á að uppsafnaður halli á borgarsjóði í tíð Dags B. Eggertssonar sem borgarstjóra sé tæplega 14 milljarðar.
„Í byrjun maí verður ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir liðið ár birtur. Því miður má reikna með því að myndin sem þá blasir við sé enn dekkri en hér hefur verið dregið upp. Búist er við að hallinn verði um og yfir 15 milljarðar króna,“ segir Óli Björn sem bendir á að auðvitað verði reynt að fegra myndina eitthvað.
„Það hefur áður verið gert í samstæðuuppgjöri borgarinnar. Tekjufært endurmat á eignum Félagsbústaða hefur numið tugum milljarða króna á síðustu árum. Slíkt endurmat kemur ekkert við undirliggjandi rekstur borgarinnar og tengdra fyrirtækja. En þótt borgarbúar njóti í engu slíkra bókhaldsæfinga lina þær kannski samvisku meirihluta borgarstjórnar sem hefur misst tökin á rekstrinum,“ segir Óli Björn sem segir að tvennt sé öruggt.
„Reykjavíkurborg verður að ráðast í róttækan uppskurð og endurskipulagningu á rekstrinum. Og borgarbúar geta, að óbreyttu, hætt að gera sér vonir um að álögur verði lækkaðar á komandi árum – hvorki skattar né gjaldskrár borgarfyrirtækja. Það er nöturleg staðreynd að Reykvíkingar njóta í engu hagkvæmni stærðarinnar. Þvert á móti. Og það er áhyggjuefni fyrir okkur öll, hvort sem við búum í Reykjavík eða í öðrum sveitarfélögum, að afrek Samfylkingarinnar við stjórn borgarinnar skuli ekki síst birtast í því að fjárhagsstaða borgarinnar er helsta áhyggjuefnið þegar opinber fjármál eru annars vegar.“