Eftir því sem einkareknum og ritstýrðum fjölmiðlum fækkar á Íslandi – og líklega sér ekki fyrir endann á því – minnkar ekki aðeins aðhaldið sem þeim ber að sýna stofnunum og athafnalífi í landinu, heldur veikist lýðræðið – og umræðan um mannréttindi verður snautlegri.
Þessi ískyggilega þróun færir þeim fréttamiðlum sem eftir standa aukna ábyrgð, en samfélagið má ekki við því að gagnrýnisraddirnar og skoðanaskiptin heyrist og sjáist í minna mæli en verið hefur um árabil. En það er hætt við því að blaðamennskan linist, en hún á, vel að merkja, alltaf að vera í liði með almúganum og neytandanum og þeim sem höllum fæti standa gagnvart óréttlátu og ómennskulegu kerfi, frekar en að geðjast ríkjandi öflum og stunda skefjalausa þjónkun við þá sem vilja ráða í krafti auðs, aflsmunar – og þöggunar.
Það eru ekki eftir margir fjölmiðlar á Íslandi sem teystandi er til að rækja þetta hlutverk af metnaði og heilindum. Þar koma þó upp í hugann fréttamiðlar á borð við Ríkisútvarpið – og þó það nú væri – og klárlega Heimildin sem hefur sýnt það og sannað að hún er reiðubúin að rannsaka það sem út af ber í samfélaginu af festu og þrótti. Óskandi er að vefur DV þori líka áfram á meðan aðrir þegja – og leggi aukinn þunga í afhjúpandi fréttaskrif.
En aðrir fréttamiðlar sem mega teljast ágætlega mannaðir hafa ýmist lokað fyrir óruglaðan aðgang að efni sínu, sakir æ minni efna, eða eru afvegaleiddir í hagsmunagæslu og áróðri. Þetta mun leiða til þess að óritstýrðir samfélagsmiðlar munu verða veigameiri í umræðunni á Íslandi í allri sinni upplýsingaóreiðu, svo og öllu sína miskunnarlausa orðfæri.
Fyrir vikið verða mörkin á milli blaðamennsku og bábilju sífellt óljósari – og það mun auðvitað skemmta áróðursmeisturum og samsæriskenningasmiðum eins og púkanum á fjósbitanum – og hleypa þeim kappi í kinn. Og sakir æ færri fagmannlega skrifaðra fréttamiðla verður æ erfiðara að hrekja þvætting þeirra og þvoglið.
Enn ein afleiðing þessa er að umburðarlyndið gagnvart skoðanaskiptum – en ólíkar skoðanir eru hverju lýðræðissamfélagi lífsnauðsynlegar – mun að öllum líkindum minnka að mun, en í stað þess mun absalútskoðuninni verða hampað í ríkari mæli, en öll önnur álitin talin hættuleg og ógnandi.
Þetta merkir að samfélagið verður einsleitnara á ný og þorir minna að tjá sig í ræðu og riti.
Og það vita allir hvurslags gróðrarstía það er fyrir spillingaröflin í landinu.