„Það er falskur tónn í þessu öllu saman,“ sagði Tómas Ellert Tómasson, fyrrverandi formaður bæjarráðs Árborgar og fulltrúi Miðflokksins, í fréttum RÚV í gærkvöldi.
Tómas skrifaði grein á vef Sunnlenska í vikunni þar sem hann rifjaði upp ríflega launahækkun sem formaður bæjarráðs Árborgar fékk í fyrra. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu, en Árborg skuldar um 25 milljarða króna og þarf að óbreyttu að grípa til róttækra aðgerða.
Tómas sagði meðal annars í grein sinni að formaður bæjarráðs Árborgar og oddviti Sjálfstæðisflokksins, Bragi Bjarnason, hefði hækkað ríflega í launum.
RÚV fjallaði um málið í gærkvöldi og benti á að launahlutfall formanns bæjarráðs hefði verið hækkað úr 21 prósent í í 65 prósent í júní í fyrra. Bætist það ofan á föst laun bæjarfulltrúans sem taka mið af þingfararkaupi. Er formaður bæjarráðs nú með um 1,2 milljónir í heildarlaun en var áður með 619 þúsund krónur og hafa launin því hækkað um 90% á einu ári.
Tómas Ellert er ómyrkur í máli og segir að meirihlutinn ætti að ganga fram með betra fordæmi. „Það er bara verið að misfara með fé,“ sagði hann við RÚV.