Í lok mars hætti Halldór Benjamín Þorbergsson, nokkuð óvænt, sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og réð sig í starf forstjóra fasteignafélagsins Regins hf. Síðan þá hafa miklar vangaveltur verið um hver muni taka við starfinu og eru sum nöfn sögð líklegri en önnur.
Tvær konur hafa verið mest í umræðunni varðandi starfið en það eru annars vegar Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Skyldi engan undra að þær stöllur séu orðaðar við starfið. Þær eru báðar lögfræðimenntaðar, hafa reynslu af störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og afar sjóaðar í samskiptum við fjölmiðla sem geta orðið stór hluti starfsins eins og sannast hefur þegar kjarasamningsviðræður fara í hnút. Í glímunni fyrir framan myndavélarnar geta hver mistök orðið dýrkeypt.
Önnur sem nefnd hefur verið til sögunnar er Anna Hrefna Ingimundardóttir, starfandi aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna. Anna Hrefna hefur mikla reynslu og þekkingu á störfum SA en í pistli Ólafs Arnarsonar á Hringbraut á dögunum var því velt upp að ættartengsl hennar gætu skipt máli í baráttunni um stólinn. Vísaði Ólafur þar í að Anna Hrefna er náfrænka Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins en þau eru bræðrabörn. Aðrir séu þó á því að slík tengsl geti flækt málin í hatrömmum samningaviðræðum.
Annað nafn sem var nefnt til sögunnar í frétt Hringbrautar í dag er nafn Jens Garðars Helgasonar, framkvæmdastjóra fiskeldisfyrirtækisins Laxa. Jens Garðar situr í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en hann var um langt skeið formaður samtakanna. Þá hefur hann reynslu af því að gegna embætti varaformanns SA. Þá segir í fréttinni að miklu máli skipti að Jens Garðar sé mannasættir og hafi ýmislegt til brunns að bera sem geti nýst vel í hinu róstursama starfi.