fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Vindlareykur á ríkisstjórnarfundum

Eyjan
Sunnudaginn 5. mars 2023 19:00

Albert Guðmundsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir jólin komu út endurminningar Júlíusar Sólnes verkfræðiprófessors, Út um víðan völl. Þetta er stærðarbók, 729 blaðsíður með smáu letri. Þarna kennir ýmissa grasa enda Júlíus átt langan og margbreytilegan feril en hann sat m.a. á Alþingi kjörtímabilið 1987–1991 og gegndi fyrstur manna embætti umhverfisráðherra. Þingmennska Júlíusar átti sér skamman aðdraganda en hann lýsir því í bókinni þegar hann hitti kollega sinn, Jónas Elíasson, í leikfimi háskólamanna hjá Valdimar Örnólfssyni íþróttakennara vorið 1987. Jónas var þá aðstoðarmaður Alberts Guðmundssonar iðnaðarráðherra (en þetta var á þeim tímum þegar aðstoðarmenn ráðherra áttu að hafa sérþekkingu sem gæti vegið upp á móti vanþekkingu ráðherrans á viðkomandi málaflokki). Jónas lagði til að Júlíus hitti Albert næsta morgun í „smáspjall yfir kaffisopa“. Þartilkynnti Albert Júlíusi að þetta væri hans síðasti dagur í ráðuneytinu. Daginn eftir myndi hann tilkynna afsögn sína sem ráðherra og líklega byði hann þvínæst fram í öllumkjördæmum. En svo það tækist yrði að hafa hraðar hendur. Kominn var þriðjudagsmorgunn og framboðsfrestur rynni út á miðnætti næsta föstudag. Júlíus slóst með í för.

Borgaraflokkurinn vinnur stórsigur

Eftirleikurinn er vel kunnur úr stjórnmálasögunni. Flokkur Alberts, Borgaraflokkurinn, hlaut 10,86% atkvæða á landsvísu. Aldrei fyrr hafði nýtt framboð fengið viðlíka fylgi í alþingiskosningum en þingmennirnir urðu sjö. Metið var slegið með naumindum 2017 er Miðflokkurinn hlaut 10,87% atkvæða. Í Reykjavíkurkjördæmi varð Borgarflokkurinn þriðji stærsti flokkurinn með 15% atkvæða sem var litlu minna fylgi en Alþýðuflokkurinn hlaut í kjördæminu, eða um 16%. Úrslit kosninganna voru athyglisverð í meira lagi en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var fallin.

Meðal þeirra sem náðu kjöri á þing var Júlíus Sólnes en hann var þó áfram í hálfu starfi sem kennari við Háskólann (enda sá ósiður ekki alveg orðinn almennur þá að menn séu þingmenn í fullu starfi). Hann lýsir því í bókinni að hann hefði fyrir tilviljun verið staddur á skíðum í Bláfjöllum í byrjun maí og samferða Steingrími Hermannssyni, sitjandi forsætisráðherra, í lyftunni upp brekkuna. Steingrímur gaf ekki mikið uppi en kvaðst telja að það tæki tvo til þrjá mánuði að berja saman stjórn.

Bók Júlíusar er vel unnin og hann styðst við ýmis skrifleg gögn. Hann greinir meðal annars frá því að á þingflokksfundi Borgararflokksins 18. maí hefði Albert lagt til að gengið yrði til viðræðna við fráfarandi stjórnarflokka, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Sú tillaga var samþykkt og fóru þeir Júlíus og Albert til fundar við Þorstein Pálsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Friðrik Sophusson varaformann. Þeir ræddust við í um hálfa klukkustund án árangurs.

Stjórnarmyndunarviðræður gengu hægt líkt og Steingrímur hafði spáð í skíðalyftunni í Bláfjöllum en eftir því sem Júlíus lýsir gat forysta Sjálfstæðisflokks ekki hugsað sér samstarf við klofningsframboð Alberts. Svo fór loks að Þorsteinn Pálsson myndaði ríkisstjórn 8. júlí, samstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.

Borgaraflokkurinn álitinn of hægrisinnaður

Júlíus sótti við þingstörfin mjög ráðleggingar til Alberts sem hefði verið fljótari en margir að sjá kjarna máls og sömuleiðisskynjað betur hug almennings en flestir. Albert hefði á margan hátt verið

„ótrúlegur maður. Fæstir gerðu sér grein fyrir feikilegum vinsældum hans í Frakklandi, þar sem enn var litið á hann sem þjóðhetju. Einhvern tímann barst franska söngkonan Édith Piaf í tal. Albert sagðist hafa þekkt hana vel á Frakklandsárum sínum. Hún hefði ávallt kallað hann „mon petit viking“.“

Júlíus rekur ýmis þingmál frá vetrinum 1987 til 1988 en loks kemur að fréttaskýringarþættinum 19:19 á Stöð 2 miðvikudagskvöldið 16. september þar sem þeir Steingrímur Hermannsson utanríkisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson fjármálaráðherra voru mættir til viðtals hjá fréttamönnunum Ólafi E. Friðrikssyni og Helga Péturssyni. Þar opinberaðist djúpstæður klofningur innan ríkisstjórnarinnar og öllum mátti ljóst vera að stjórnin væri svo gott sem fallin.

Júlíus lýsir því að Albert hefði hringt til sín eftir sjónvarpsþáttinn og beðið sig að koma strax heim til sín á Laufásveginn. Steingrímur var þá mættur heim í stofu til Alberts og ræddu þeir þremenningar lengi. Ekki væri hægt að mynda trausta meirihlutastjórn nema með fjórum flokkum og hafði Steingrímur þá í huga að Borgaraflokkurinn gengi til stjórnarmyndunarviðræðna við Framsóknarflokk, Alþýðuflokk og Alþýðubandalag en þrír síðastnefndu flokkarnir voru með samtals 31 þingmann. Með því að semja við Stefán Valgeirsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokks sem náð hafði kjöri á sérlista, gætu flokkarnir þrír náð minnsta mögulega meirihluta — 32 mönnum.

Svo fór að Borgaraflokknum var ekki boðið að taka þátt í viðræðunum. Júlíus segir andstöðu Alþýðubandalagsins hafa ráðið mestu þar um — þeir töldu Borgaraflokkinn of hægrisinnaðan fyrir vinstristjórn.

Mikilsvert innlegg í stjórnmálasöguna

Kvöldið áður eða tveimur dögum áður en gengið var frá myndun ríkisstjórnarinnar bauð Steingrímur fulltrúum Borgarflokksins að hitta sig á skrifstofu utanríkisráðuneytisins. Þangað mættu þeir Albert, Júlíus og Óli Þ. Guðbjartsson. Með Steingrími var Páll Pétursson, þingflokksformaður framsóknarmanna. Júlíus segir Steingrím hafa ítrekað að Borgaraflokkurinn gæti fengið tvö ráðuneyti. Steingrímur hefði að lokum beðið Albert um að bíða aðeins —hann vildi ræða við hann einslega.

Strax að loknu spjallinu í utanríkisráðuneytinu héldu Júlíus og Óli til fundar við þingflokk Borgaraflokksins sem beið eftir þeim í Kirkjuhvoli. Albert birtist skömmu síðar

„mjög þungur á brún, greinilega í vondu skapi, settist í stól formanns við fundarborðið og kveikti í stórum vindli. Ásgeir Hannes [Eiríksson] stóð upp og færði sig út að dyrum, sagðist þola vindlareyk illa. Albert sagði okkur, að allt útlit væri fyrir að ekki tækist að ná samkomulagi um þátttöku Borgaraflokksins í stjórninni.“

Það var ekki fyrr en löngu síðar sem Steingrímur tjáði Júlíusi hvers vegna Albert hefði mætt svo brúnaþungur á fundinn. Borgaraflokkurinn hefði sannarlega átt kost á tveimur ráðherrasætum en ekki komið til greina að Albert fengi ráðherrastól. Steingrímur hefði reynt að setja á reykingabann á fundum ríkisstjórnar 1983–1987 en Albert ekki tekið það í mál og „púað vindla sína við ríkisstjórnarborðið, öllum öðrum ráðherrum til ama“.

Af tillitssemi við þá sem eiga eftir að lesa bók Júlíusar ætla ég ekki að ljóstra meiru upp en eins og flestir muna gekk Borgaraflokkurinn loks til liðs við stjórnina en Albert varð aldrei aftur ráðherra.

Það er fengur í bók Júlíusar og hvað þingmennsku hans og ráðherradóm varðar þá er frásögnin mikilsvert innlegg í stjórnmálasögu þessara ára.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
27.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?