Elín Hirst er komin til starfa hjá Forsætisráðuneytinu, þar sem hún mun undirbúa fundaherferð og koma að gerð grænbókar og stefnumörkunar í sjálfbærnimálum. Elín greinir frá tímamótunum í færslu á Facebook.
„Ég hef fengið það frábæra verkefni hjá forsætisráðuneytinu að undirbúa fundaherferð um landið með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og verkefnateymi Sjálfbærs Íslands. Einnig mun ég hjálpa til við gerð grænbókar og stefnumörkunar í sjálfbærnimálum, þar sem ég get vonandi nýtt langa reynslu mína af þáttagerð í sjónvarpi um loftslag- og sjálfbærnimál með Sagafilm og RÚV. Ráðningin er verktakaráðning til 3 mánaða.
Ég er mjög hreykin af þessum tímamótum á starfsferlinum. Hér með forsætisráðherra og Sóleyju Smáradóttur á Hringbraut, nýlega.“
Elín sem er fjölmiðlafræðingur og sagnfræðingur að mennt var síðast hjá Torgi ehf. sem rekur Fréttablaðið, frettabladid.is, dv.is og Hringbraut. Hún hóf feril sinn í fjölmiðlum árið 1984 og hefur meðal annars stýrt fréttastofum Stöðvar 2 og Bylgjunnar og fréttastofu Sjónvarpsins (RÚV). Elín vann í fjögur ár við framleiðslu sjónvarpsefnis hjá Sagafilm ehf og var um um tíma þingmaður Sjálfstæðisflokksins.