Síðar í dag fer fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um fjárlög ríkisins fyrir næsta ár.
Á meðan mikil verðbólga og ævintýralega háir vextir á lánum bíta heimili og fyrirtæki er mantra ríkisstjórnarinnar að hér sé allt í miklum sóma. Við bara sjáum það ekki.
Stærsta viðfangsefnið er að ná tökum á verðbólgunni. Ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera í því sambandi. Hún ætlar heldur ekkert að gera til að takast á við afleiðingar þessa aðgerðaleysis. Hún skilur heimilin einfaldlega eftir. Og ég get ekki skilið hvernig ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa farið í gegnum haustið og séð birtingarmyndir vaxtahækkana og ætli í kjölfarið að draga úr stuðningi við heimilin.
Þingflokkur Viðreisnar getur ekki stutt þetta frumvarp. Styður ekki þessi vinnubrögð eða svona pólitík.
Þetta gerist á sama tíma og yfirdráttarlán heimila hafa ekki verið meiri síðan í hruninu. Svar ríkisstjórnarflokkanna er alltaf: Við búum við öfundsverða stöðu því hér er svo mikill hagvöxtur. En hagvöxtur á hvern íbúa árin 2017 til 2022 var samt enginn. Þess vegna finnur fólk ekki fyrir hagvextinum því vöxturinn byggir fyrst og fremst á því að fólki fjölgar í landinu.
Tekjur ríkissjóðs jukust um einhverja 200 milljarða frá því í fyrra en samt skilar ríkisstjórnin 47 milljarða halla. Þrátt fyrir að tekjur sturtist inn í ríkissjóð fyrst og fremst vegna verðbólgunnar verður niðurstaðan mikill halli. Á næsta ári mun íslenskur ríkissjóður borga 117 milljarða í vaxtakostnað. Ríkissjóður er að sprengja sig á vaxtakostnaði. Verulegar lántökur eru áfram boðaðar og engin merki sjást um að komast eigi undan þessum vaxtakostnaði. Umfjöllun fjölmiðla um kostnað af íslenskri krónu kalla ráðherrar svo hneyksli.
Húsnæðisverð hefur tvöfaldast
Nú blasir við að kaupmáttur ráðstöfunartekna er að dragast saman, ekki síst hjá millistéttinni sem greiðir háa skatta en finnur um leið mjög fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Þetta er mesta lækkun síðan á hrunsárunum. Raunverð húsnæðis hefur tvöfaldast á Íslandi síðustu 10 ár en helsta skýringin þar að baki er sprenging í fólksfjölda. Þegar íbúum fjölgar þetta mikið og hratt hefur það veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði. Markaðurinn ræður sem stendur ekki við að mæta þörfinni um húsnæði. Þess vegna þarf að setja takmarkanir á Airbnb og setja mörk á byggingu fyrir gistirými í þéttbýli til að tryggja húsnæðisöryggi fólks. Eftirspurnin er einfaldlega umfram það sem markaðurinn þolir, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Að baki fólksfjölguninni er vinnuafl sem hefur þurft að flytja inn. Í nýlegri skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf kemur fram að hlutfallslegur fjöldi starfandi í ferðaþjónustu er sá mesti hér í OECD samanburði fyrir utan Möltu. Fjöldi ferðamanna á hvern íbúa er sá mesti í OECD. Birtingarmyndirnar eru verðbólga og að ferðamenn búa íbúðum sem annars væru í búsetu heimafólks og að erlent verkafólk býr við óboðlegar aðstæður.
Almenningur greiðir háa skatta en fær ekki þjónustu
Þrátt fyrir að almenningur á Íslandi greiði háa skatta í alþjóðlegum samanburði er þjónusta ekki í samræmi við það. Það er innviðaskuld víða í samfélaginu, sem sést á biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu og lítilli fjárfestingu í samgöngum. Ríkið er raunar ekki einu sinni að fjármagna grundvallarskyldu sína eins og löggæslu og fangelsi. Svört skýrsla Ríkisendurskoðunar um fangelsi landsins sýnir þetta svart á hvítu. Fangelsin standa á engan hátt undir því að vera betrunarstofnanir og eru raunar svo fjársvelt að menn sem hlotið hafa dóma fyrir alvarleg afbrot, eins og ofbeldisbrot og kynferðisbrot, afplána ekki allir dóma sína. Getur þetta gengið upp? Dæmt fólk kemst ekki að í fangelsum vegna fjársveltis fangelsa landsins.
Læsi barna í landi tækifæranna
Í landi tækifæranna sýna niðurstöður PISA núna að 40% 15 ára barna geta ekki lesið sér til gagns. Þar skrapar Ísland botninn í alþjóðlegum samanburði. Þetta er verulega vond framtíðarmúsík. Afstaða stjórnvalda er sú að skólar eigi samt ekkert að fá að vita af niðurstöðum PISA prófa. Aðgengi að þessum niðurstöðum er algjört fyrsta skref og forsenda þess að geta brugðist við þessum sláandi niðurstöðum. Á sama tíma birtist lítil áhersla á menntun í því að ávinningur fólks á Íslandi af háskólamenntun er hvað minnstur á Íslandi. Þar birtist lítil áhersla á háskólamenntun og að Íslendingar í námi erlendis skili sér aftur heim.
En þetta þarf ekki að vera svona. Allt eru þetta afleiðingar pólitískra ákvarðana. Skynsamleg velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingu í þágu almannahagsmuna og að sýna hófsemi í skattlagningu almennings. Kerfin eiga að vera til staðar fyrir fólkið í landinu en ekki öfugt þannig að fólkið sé að vinna í þágu kerfisins. Grunntakturinn í þessu fjárlagafrumvarpi er pólitískur rangur. Það vantar upp á ábyrgð og það vantar upp á réttlæti í þessum fjárlögum. Af þessari stefnu er að verða mikill og alvarlegur fórnarkostnaður í íslensku samfélagi.