fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Óviðeigandi

Eyjan
Föstudaginn 8. desember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum árum bað ég Fjölni Bragason heitinn, húðflúrara, að flúra á handlegginn á mér orðið „óviðeigandi“. Ég hef dálæti á orðinu, því bæði getur það lýst hegðun sem stangast á við það sem sómasamlegt þykir og einnig er hægt að hafa það um manneskjur sem kannski erfitt er að tjónka við. Báðar skilgreiningar orðsins get ég hermt upp á sjálfa mig. Flúrið tengist hugmynd minni um persónufrelsi sem ég met mikils. Orðið, óviðeigandi, er mér því hvatning til sjálfstæðrar hugsunar, áminning um að forðast ofstækisfullt hópastarf og varnaðarorð gegn gönugöngum sem stýrt er af öðrum. Fjölnir þurfti auðvitað engar skýringar á þessari beiðni minni enda annálaður og merkur óþekktarormur.

Ég hef sumsé valið að rekast hjálparlaust á veggi af óstýrilætinu einu saman og finnst það dýrmætt og tek núorðið fulla ábyrgð á afleiðingunum. Ég segi og skrifa, að ég ét frekar nagla, en lifa eftir eða samþykkja reglur sem mér finnast stríða gegn heilbrigðri skynsemi, hvað þá sjálfri mannúðinni.

Mér finnst ég lánsöm að tilheyra þeirri tegund fólks á jörðinni sem kalla mætti hirðfífl og í þann hóp set ég alla listamenn og alla þá sem svo lánsamir eru að starfa við skapandi og óhefðbundin störf sama hvaða nöfnum þau nefnast. Ég bið fyrir fram þær skapandi verur sem taka sig mjög hátíðlega innilegrar afsökunar og vil jafnframt nota tækifærið og hvetja þær til að að hætta því snarlega.

Það er hefð fyrir því að skapandi einstaklingum sé gefinn meiri slaki en öðrum til orðs og æðis í samfélögum og þannig, ef allt er eðlilegt, og engin er ógnarstjórnin, á það líka að vera.

Samfélög umfaðma svo ýmist skapandi einstaklinga eða hafna þeim að því er virðist eftir hentugleikum hverju sinni, eftir því hversu þekkileg eða afhjúpandi verk þeirra birtast okkur og þannig á það líka að vera.

Ófyrirsjáanleiki skapandi fólks hefur mikinn náttúrlegan galdramátt.

Erindi og hlutverk skapandi fólks er margþætt og mikilvægt í samfélögum. Ísland hefur marga skapandi einstaklinga alið, við eigum margt listafólk að fyrirmyndum, sem hefur neitað að beygja sig undir hið viðtekna og hefur speglað, hneykslað og afhjúpað skuggahliðar samfélags okkar, sýnt okkur hliðar þess sem nauðsynlega þurftu upp á yfirborðið. Margt af slíku fólki lætur til sín taka við ýmis tilefni, óhrætt við afleiðingarnar og við stöndum í þakkarskuld við það fólk þótt við getum stundum verið ósammála um aðferðirnar sem það beitir. En við eigum, okkar vegna, að þakka slíku fólki fyrir þegar það stendur vörð um mannréttindi sem eru öllum viðkomandi því mannkynið erum, jú, við sjálf.

Nýlegt dæmi er ungur rithöfundur sem afþakkaði að vera skrautfjöður í boði stjórnarráðsins. Þar stóð hún með sínum líkum, mannkyninu, og gerði skýra grein fyrir afstöðu sinni. Skilyrðislausri samstöðu sinni með mannúðinni.

Við eigum líka þá, sem kalla sig skapandi einstaklinga, en sem halla sér að regluverki annara, misgáfulegu, í þeirri von um að framganga þeirra sjálfra sé þá tryggð eða í það minnsta fái það þá líklegar örugga vist við háborðin. En það fólk er augljóslega ófrjálst þótt það í yfirlætislegri værð telji sig á frjálsu flugi með himinskautum.

Við höfum öll val. Að fylgja lögmálum náttúrunnar eða stríða gegn henni eftir reglum sem stangast á við sólarganginn. Þú velur hvort þú aðeins skarar eld að eigin köku eða hvort verk þín eru öðrum til góða á beinan eða óbeinan hátt.

Margur skilur hugtakið einstaklingsfrelsi á þann hátt að það sé ósvikið leyfisbréf til að vinna einungis að eiginhagsmunum en einstaklingsfrelsi er auðvitað að láta engan segja sér fyrir verkum og vera eins og náttúran, sem er eini marktæki yfirboðarinn á jörðinni. Náttúran er yfirvaldið eina. Hvergi á byggðu bóli er að finna valdafólk sem getur til dæmis afstýrt eldgosum. Menn steypa plön og stéttir, en fífillinn og njólinn finna sér leið. Þurfiði frekari vitna við?

Ég sem er félagsdýrafræðingur í sjálfsnámi tók ákvörðun um að hætta í leiknum, með eða á móti. Ég er bara að prófa mig áfram. Ég hef einsett mér að aflæra það regluverk sem ég eins og aðrir hef alist upp við að væri óumdeilanlegt, sem mér hefur verið innrætt og jafnvel misviturlega tileinkað mér sjálf. Ég hef sumsé afsalað mér réttinum til að taka þátt í flokkadrætti. Þetta er tilraun, hversu lengi eða hvert hún leiðir mig, veit ég ekki. Þessi ákvörðun var tekin af hreinni vanlíðan yfir því að finna til valda- og getuleysis í mörgum málum þar sem mér finnast aðrar manneskjur órétti beittar og lífinu á jörðinni ógnað.

Hver er munurinn á fullyrðingum Ísraelsmanna um rétt þeirra til þjóðarmorðs og fullyrðingum íslenskra stjórnvalda um getuleysi þjóðar okkar til að sína mannúð í verki í þessu djöfullega stríði? Báðar fullyrðingarnar eru ósannar. Í báðum dæmum erum við að sjá valdafólk í hugarfarslegum fangelsum, hvaðan þau stýra heiminum í voða með hugmyndum sínum um með eða á móti, trú, vald og rétt til að taka fram fyrir náttúrunnar gang og ráðskast með manneskjur, líf þeirra og heill.

Þótt ég sé hætt í leiknum með eða á móti, þá er ég viss um að mér beri að standa með lífinu á jörðinni. Annars væri ég að hafna tilvist sjálfrar mín og mér þykir svo ósköp vænt um lífið.

Ég trúi því að allar manneskjur á jörðinni séu jafn réttháar, að enginn sé öðrum fremri, að af öllum, líka þeim, sem okkur finnast vera mestu skepnurnar, megi lærdóm draga, þótt erfiður sé. Ég trúi þess vegna að allir hafi eitthvað fram að færa í þessum leik sem lífið er.

Og þá að fréttaskoti dagsins!

Fréttin er sú, að leikvöllurinn, lífið, þar sem náttúran ræður ríkjum með sínum ófyrirsjáanleika og kenjum, stendur öllum til boða og kennslan fer fram með beinum hætti alla daga. Leikinn lærum við best með því að taka okkur náttúruna, veðrið eða skýjafarið til fyrirmyndar. Horfið bara út um glugga stutta stund og sjáið hvernig skýin leika sér!

Fréttin er líka sú að þessi leikur er ekkert sérsvið þeirra sem starfa við skapandi greinar og ekkert bara fyrir útvalda. Náttúran lætur ekki að stjórn og við sem erum auðvitað bara hluti af náttúrunni, þó sum okkar þykjumst henni æðri, ættum í ríkara mæli að fylgja hinu fullkomna regluleysi náttúrunnar, þar sem ekkert er fyllilega fyrirsjáanlegt, þar sem allt getur gerst og eins og hendi sé veifað, allt er breytt.

Með náttúruna sem aðalkennara, því náttúran er, eins og áður sagði, óumdeilanlega aðalstjórnandi tilveru fólks á jörðinni er til dæmis upplagt að æfa sig í því, að skipta um skoðun, jafnvel oft á dag og æfa sig í að segja nýju skoðunina upphátt og sjá hvert hún leiðir mann.

Einnig má feta nýja slóða til að reyna að skilja annað fólk. Reyna að nálgast viðhorf annarra af undrun og forvitni en ekki af fordómum, fyrirframgefnum hugmyndum sem byggja á vana, uppeldi eða því sem vinsælast eða rétt þykir hverju sinni. Þeir sem eru manni mest ósammála eða maður skilur lítt, eru oft bestu skólaliðarnir í leikskóla náttúrunnar, lífinu.

Hin sjálfstæða hugsun er vannýttur partur af mannlegu eðli og og mikilvægur þáttur í leiknum, sem ég vil svo kalla, tilverunni á jörðinni, og mér finnst allt of margir neita sér um að taka virkilega þátt í. Ekki missa af þessu!

Leikurinn, sem er æsispennandi, gengur út á að láta engan segja þér hvað þú átt að hugsa eða gera. Hann gengur jafnframt út á að grandskoða það sem sagt er og finna með sjálfum sér hvað rétt er og rangt, og segja það upphátt, kannski bara í fyrstu einn með sjálfum þér.

Við vitum, ekki bara með vitsmununum, heldur öllum líkamanum, hvað rétt er og rangt, ef við gefum okkur tíma til að staldra við og hlusta eftir svarinu sem innra er.

Hvað er það versta sem getur gerst ef þú stígur út úr halarófunni, hættir að fylgja straumnum og þar með fylgja skoðunum og reglum annara í blindni? Hvað er það versta sem getur komið fyrir ef þú yfirleitt tjáir þig um eitthvað sem þú hefur aðra skoðun á en aðrir? Ef þú leyfir þér að orða það sem þér býr í brjósti?

Hvað getur gerst? Að einhver sé þér ósammála eða gargi á þig? Leyfum því að garga! Þangað til það er blátt í framan. Þetta er þinn leikur og þitt líf! Notum tækifærið og leikum okkur, með fullri þátttöku í lífinu!

Að vera uppburðarlítill uppvakningur er spennandi en það reynum við eftilvill í eftirlífinu og fyrir þá, sem slíku vilja trúa, er til nokkurs að hlakka. Verum lifandi á meðan við fáum að vera hér af fullum þrótti.

Í lífsleiknum er óviturlegt að fylgja reglum sem okkur finnast fáránlegar eða stríða gegn skynsemi okkar og brjóstviti. Látum aldrei beisla okkur á þann hátt. Það er slævandi, deyfandi og sorgarvekjandi. Látum ekki hræða okkur til hlýðni við hugmyndir sem aðrir setja fram í brjóstumkennanlegri tilraun til að halda völdum og það sem broslegast er, stjórna sjálfum sólarganginum.

Ef þátttaka í lífsleiknum verður til breytinga, nýrra áskoranna, persónulegs viðsnúnings og verður jafnvel til þess að fólki finnst þú hafa breyst, hvort sem er til hins betra eða verra, þá er það gjörsamlega frábært!

Þú ert þó að smakka á því, lífinu!

Allir ekki bara mega, heldur eiga að leyfa sér að breiða út vængina, prófa eitthvað alveg nýtt, stíga óvissuskref og taka stökk. Vera eins og náttúran, finna út í logni hver maður er í raun og veru og standa í hávaðaroki með hugsjónum sínum ef manni sýnist svo, láta regnið knýja fram tárin og samkenndina og leyfa sér að verða að íshröngli, hugnist manni það stutta stund, til að geta virkilega lifað. Allt þetta má!

Við sjáum þessa dagana íslenskt stjórnmálafólk reyna að fela sig á bak við regluverk, sem það hefur sjálft búið til, en heldur ekki vatni og er að auki beinlínis mannfjandsamlegt. Sú framandgerving sem á sér stað og speglast í orðræðu íslensks valdafólks um styrjaldir heimsins er varhugaverð. Við höfum öll verið í þeirri stöðu að verja glataðan málstað þegar við höfum málað okkur út í horn eða okkur finnst okkur jafnvel ógnað. Við skulum því líka reyna að setja okkur í þeirra spor og hjálpa þeim úr sjálfheldunni með forystu um að hafna hjarðhegðun að óhugsuðu máli.

Manneskjur geta aldrei verið ólöglegar. Það er ekki ólöglegt að fæðast í þennan heim, það er gangur náttúrunnar að fæðast til lífs og sameinast náttúrunni aftur. Allt lifnar og deyr af sjálfu sér ef við fylgjum náttúrunni að máli. Við getum ekki brotið lög með tilveru okkar. Lög sem halda slíku fram eru auðvitað ólög.

Framkoma Íslendinga gagnvart manneskjum, sem hingað leita og geta enga björg sér veitt, verður eðli málsins samkvæmt til þess að útlendingaandúð mun enn aukast og ekki gleyma, átök okkar innbyrðis jafnframt. Það er, eins og sagt er, þjóðhagslega afskaplega óhagkvæmt. Og slík framkoma stríðir GEGN þjóðarsátt, svo maður leyfi sér að nota þunnildislega orðræðu stjórnlyndra.

Þegar við leyfum öðrum, hvort sem er með þögn eða ósjálfráðri hlýðni, að færa mörkin, sem eðli okkar kennir okkur að sé rangt eða rétt í framkomu við aðrar manneskjur, þá erum við í vanda stödd því þegar þau mörk hafa verið færð og innprentuð, eira þau engu.

Ísland er veðurfarslega með ákjósanlegustu stöðum í heiminum til að læra að vera til. Veðrabrigðin óútreiknanlegu eru samofin tilveru okkar. Verum veðrið sem enginn stýrir, verum óútreiknanleg, leikum okkur og ég hvet ykkur til að vera, óviðeigandi þegar þörf krefur eða bara þegar sá gállinn er á ykkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim