fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur ekki fyrir almenning en stendur dyggan vörð um tiltekna hagsmuni tiltekinna aðila, segir Þorgerður Katrín

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 4. desember 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðisflokkurinn vinnur fyrir tiltekna hagsmuni tiltekinna aðila og vinnur ekki að almannahagsmunum. Hann lætur Vinstri græna vaða uppi með biðlistastefnu í heilbrigðiskerfinu, kyngir hverju sem er, en rís upp á afturlappirnar um leið og á að banna hvalveiðar eða snerta með flísatöng á sjávarútveginum, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hún segir að fyrsta verk Viðreisnar í ríkisstjórn verði að fækka ráðuneytum og sýna aðhald sem byrjar á toppnum. Þorgerður Katrín er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Ja, fyrsta sem við gerum, það er að sameina ráðuneyti, spara í yfirstjórn og senda þannig út mjög skýr skilaboð um það hvernig við ætlum að taka til í ríkisfjármálunum og það mun fara niður allan stigann,“ segir Þorgerður Katrín.

Ýmsir reynsluboltar í pólitík hafa sagt: Ekki gefa frá þér þetta, það þarf alltaf að „víla og díla“ um ráðherrastóla, eins og kom svo berlega i ljós hjá þessari ríkisstjórn, en við getum ekki leyft okkur það,“ segir Þorgerður ákveðin. „Fyrir utan að við erum bara með veikari ráðuneyti í dag þá höfum við ekkert að gera með fleiri en 10, Í mesta lagi 11, ráðuneyti þannig að mér finnst skipta máli, og það er þannig sem Viðreisn myndi gera það, til að sýna fram á að aðhald í ríkisrekstri verður að ganga í gegnum allan stigann og við byrjum á sjálfum okkur, byrjum á því að fækka ráðuneytum.“

Þorgerður Katrín segir að við myndun þessarar ríkisstjórnar hafi blasað við að Framsókn þyrfti að fá eitthvað fyrir sinn kosningasigur og Vinstri græn hefðu ekki verið tilbúin til að gefa eftir eitt ráðuneyti. „Þá er það hinn kaldi veruleiki, þá fjölgum við ráðuneytum. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt. Það sem þessari ríkisstjórn hefur tekist er að flækja kerfið og gera skattgreiðendum mjög erfitt um vik með að veita ríkisstjórninni þetta heilbrigða aðhald sem þörf er á. Þetta hefði ekki komið mér á óvart í harðkjarna vinstristjórn – að verið væri að flækja kerfið, verið að auka álögur, verið að hækka skatta, verið að fara í þessa hefðbundnu vinstrimennsku sem við því miður þekkjum allt of vel …“

Þú ert að lýsa þessari ríkisstjórn!

Já, ég er að lýsa þessari ríkisstjórn – með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs – og ég næ þessu bara ekki, hvernig hann hefur gefið eftir linnulaust í efnahagsmálum, í orkumálum, í því meðal annars hvernig við byggjum upp í heilbrigðismálum. Í fjögur ár máttu Vinstri græn gera það sem þau vildu í heilbrigðismálum. Þau bættu á biðlista, sem reyndar hefur haldið áfram. En það mátti ekki nýta fjármunina betur, það mátti ekki nýta krafta einkaframtaksins þannig að það myndi styrkja heilbrigðiskerfið í heild, létta til dæmis álagi af Landspítalanum sem er algerlega lykilatriði, enda er gríðarlegt álag á heilbrigðisstarfsfólki þar. Út af einhverjum kreddum var komið í veg fyrir að fækkað væri á biðlistum af því að það hefði þýtt að sjálfstætt starfandi heilbrigðisfólk þyrfti að koma að málum,“ segir Þorgerður Katrín og bætir því við að sér hafi fundist það með algerum ólíkindum að sjálfstæðismenn skyldu hafa látið þetta yfir sig ganga.

Síðan þegar kemur að því að banna hvalveiðar eða snerta með flísatöng á sjávarútveginum þá rís Sjálfstæðisflokkurinn upp á afturlappirnar. Hann sýndi á spilin sín, sýndi sitt rétta andlit í þá veru að mér fannst áhugavert hvað hann hefur kyngt miklu en þegar kemur að tilteknum hagsmunum tiltekinna aðila þá segir hann: Stopp! Hingað og ekki lengra! Það sjá það auðvitað allir að það er ekki verið að berjast fyrir almannahagsmunum þegar svona er unnið,“ segir Þorgerður Katrín af þunga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt