fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Tímamót

Eyjan
Föstudaginn 29. desember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við áramót er hefð að strengja áramótaheit. Mér hefur gengið heldur illa í þeim leik og reyndar löngu aflagt slíkt með öllu þar sem ég á hreinlega í fullu fangi með að vera sæmileg manneskja frá degi til dags. Ég er sennilega orðin frekar meðvituð um takmarkanir mínar hvað áform snertir og enga sigra langar mig að vinna. Við skrif þessa pistils leitaði ég samt logandi ljósi að takmarki sem mig langar að ná. Engar heimtur.

Ég varði jóladegi í vatnsrennibrautagarði á Tenerife í félagsskap barnanna minna og ferðalanga alls staðar að úr heiminum. Þeir sem til þekkja vita að í þeim garði er manngerð strönd með hvítum skeljasandi og við ströndina, öldusundlaug á stærð við tvo fótboltavelli þar sem á klukkutíma fresti eru framkallaðar háar öldur til að skemmta fólki.

Og þar varð uppljómunin, og það mér ljóst, hvað mannkyninu er ætlað að gera hér á jörðinni. Meðan börnin mín steyptu sér fram af fossum og renndu sér í gegnum rör í vatnsflauminum fylgdist ég með ærslunum í öldulauginni og gat ekki stillt mig um að rífa mig upp úr miðaldra makindunum og hlaupa út í laugina þegar eftirvæntingin magnaðist upp og ljóst var að nú myndu öldurnar ríða yfir.

Stuðið!

Í aðdraganda öldugangsins dró fólk alls staðar að úr garðinum, fólk henti frá sér símum, sólgleraugum, fleygði hálfétnum ísum í ruslafötur, boraði bjórana ofan í sandinn, allra þjóða kvikindi, ungir, aldnir, heilu fjölskyldurnar, ástfangin pör, strákahópar, vinkonuhópar og furðufuglar af öllum gerðum og þustu út í laugina eins og til að fagna elskanda sínum.

Allir auðvitað á baðfötum og þess vegna blessunarlega lausir við einkennisbúninga lífsins sem við höfum valið okkur. Ómögulegt að giska á veraldlega stöðu fólks enda allir hálfberir.

 Og fjörið þegar öldurnar riðu yfir! Gleðin sem skein úr öllum augum, skælbrosandi andlit hvert sem litið var og allir eins og krakkar, í óhjákvæmilegum árekstrum í vatnsflauminum, skríkjandi af gleði, spennu og óumræðanlegri kátínu. Þvílík orka og gleði!

Þetta er það sem mannkynið á að vera gera hér á jörðinni, hugsaði ég. Þarna var hann tilgangurinn. Hvert sem litið var! Við eigum að vera að leika okkur saman! Kasta frá okkur þessum leikbúningum sem við klæðumst dagsdaglega til að verja okkur nándinni við hvert annað. Þeim hlutverkum sem við leikum í störfum okkar dag hvern. Allir svo fjandi uppteknir við að leika ábyrgt fullorðið fólk þegar manneskjan þráir ekkert meira en að vera í innilegum og gjöfulum samskiptum við aðrar manneskjur. Og alveg sérstaklega þeir sem segjast ekki vilja neitt samneyti við aðra.

Ég er ekki að leggja til að við örkum allsber út í snjóinn og göngum skælbrosandi til vinnu, svo það sé sagt, og það er fáránlegt að ég sé að taka það fram, en engu að síður, því miður nauðsynlegt, því öllu er tekið svo fjári bókstaflega á vorum dögum. Það eru allir svo uppteknir við að vera alvarlegir og teknir alvarlega og svo meðvitaðir um það að þeir gætu verið að segja einhverja vitleysu og svo kappsamir við að hafa aðra undir í rétttrúnaðinum, að það er allt að drepa! Æ, ég verð bara að vona að þið skiljið hvert ég er að fara.

Ég er sumsé að leggja til að árið 2024 verði ár galsa og gleði í þessum heimshluta þar sem raunverulega ekkert amar að þegar að er gáð.

Munið líka að gleðin, yfir stóru og smáu, er bætiefni sem á sér enga hliðstæðu. Og fátt hræðir hrædda meira en gleðin.

Allt öðru máli gegnir um ýmsa aðra staði á jarðkúlunni. Á meðan smávegis þverskurður mannkyns lék sér á Tenerife var Jesúsi úthýst af fæðingarstað sínum þar sem jólahátíð kristinna manna var aflýst.

Og það er alvörumál! Hvort við vorum ein um jólin, erum of feit eða of mjó, eignumst stærra hús eða ekki, erum í ,,réttu“ kreðsunni, eða höfum ævinlega rétt fyrir okkur, skiptir engu máli raunverulega.

Flótta- og Palestínubarnið Jesús er alvörumál. Jesúbarnið sem hinn rómverski Heródes hrakti frá Nazaret og hefur endurtekið í gegnum sögu mannkyns verið svívirt hrakið og myrt.

Zionistar eru í fjarska séð eins og veikt fólk, blint af forræðishyggju, yfirgangi og hreinu ofstæki í nafni trúarvillu sem engu eirir. Zionistarnir í guðhræðslu sinni halda sér í miskunnarlausan Guð sem geysar, hefnir, refsar og maður verður að finna til með því fólki sem situr fast í krumlu hins miskunnarlausa alvaldar. Þvílík áþján og rugl!

Peningaöfl heimsins sem ásælast náttúruauðæfi Gaza sem Palestínumönnum hefur verið ókleift að nýta sér sökum vanmáttar undir ofríki Ísraelsstjórnar nýta sér nú geðveiki Zionista sér til framdráttar. Þetta borðspil er ógeðslegt. Þetta er ekki leikurinn sem mannkyninu er ætlað að leika. Í þessum leik tapa allir.

Ég hef áhyggjur af félaga Jesú, þessum fremur kynlausa gaur og samnefnara mennskunnar og alltaf þeirra, sem eru á flótta, en aldrei hafa jafn margar manneskjur í veröldinni verið á hrakhólum og nú. Hann Jesú okkar sem leit alla jöfnum augum, hughreysti glæpamenn, verndaði vændiskonur og gaf sig sérstaklega að þeim sem aðrir smættuðu og hæddu. Kenndi okkur að deila okkar með öðrum, sem sagt, að standa með öllum manneskjum og sérstaklega þeim sem minna mega sín og já, bara vera eins og fólk á að vera! Jesús var verulega kúl náungi.

Ég ætla því að að gefa Zionistanum sem býr innra með mér, frí á nýju ári, því innra með okkur öllum býr trúarofstækismaður sem verndar og ver eitthvað í hálfgerðri blindni í heimskulegri trú um að hann hafi rétt fyrir sér og þurfi með öllum ráðum að leiða heiminn í sanninn um það og sýna með því yfirburði sína. Ég ætla í það minnsta að leita uppi þær hugsjónir og rétttrúnað sem ég hef viljandi eða óafvitandi gert að mínum innri boðskap og taka það allt saman til gagngerrar rannsóknar. Sjáiði, ég er farin að strengja áramótaheit þvert á fyrirætlanir mínar!

Einhver deildi á Facebook hollráðum fyrir komandi ár og eftir minni og í fljótaþýðingu úr ensku var þar skrifað eitthvað á þessa leið:

„Árið 2024 langar mig að vera meira eins og Jesú:

Hanga með syndugum.

Velja mér óvinsæla vini.

Segja sögur sem vekja fólk til umhugsunar

Reita rétttrúnaðarfólk til reiði

Vera góð, elskandi og sáttfús

Leggja mig um borð í bátum.“

Ég hafði gaman af þessari hugleiðingu og langar mig að bæta við þennan lista og þar með kannski enn fleiri áramótaheitum sem ég í upphafi pistils sagðist ekki ætla að strengja, en við skrif þessa pistils, hef ég skipt um skoðun, sem er uppáhaldsiðja mín þessa dagana og hér kemur það:

Langar gönguferðir einsömul

Bjóða fólki oftar í mat og treysta því að tveir fiskar dugi.

Kvíða ekki morgundeginum, heldur láta hverjum degi nægja sína þjáningu og þar með auðvitað gleði!

Gleðilegt ár! Og ég meina það, þetta er ekki bara einhver frasasetning, ég óska öllum, innilega gleðilegs árs og hvet alla til að finna með sér gleðina yfir því, að fá að lifa og vera til!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!