fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bjartsýni í skugga stjórnarkreppu

Eyjan
Fimmtudaginn 28. desember 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjóðarsátt var sameiginlegur boðskapur SA og talsmanna þorra félaga í ASÍ nú fyrir jólahátíðina.

Það er stórt orð Hákot. En hitt er líka staðreynd að samningaviðræður á almennum vinnumarkaði hafa ekki byrjað á jafn jákvæðum nótum í langan tíma.

Að þessu leyti kveður gamla árið með bjartsýni.

Stjórnarkreppa

Kjarasamningar hafa mikið að segja um gang þjóðarbúsins, en alls ekki allt.

Kerfislegir brestir í umgjörð þjóðarbúsins fela í sér að gæðum er misskipt. Þeir veikja samkeppnisstöðu landsins. Og þeir hamla framleiðnivexti og þar með raunverulegri verðmætasköpun, sem ekki byggist á froðu eða verðbólgu.

Á sama tíma er ríkisstjórnin í dvala og kemur sér ekki saman um lausn á grundvallar viðfangsefnum í búskap þjóðarinnar. Andrés Magnússon fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins gengur svo langt að staðhæfa að hér ríki stjórnarkreppa.

Engin langtímamarkmið

Aðilar almenna vinnumarkaðarins munu koma málefnalega vel undirbúnir til viðræðna við ríkisstjórnina.

Þjóðarsáttareiningin milli ASÍ og SA byggist mest á þeim ásetningi forystu beggja að láta ríkissjóð bera þyngstu baggana.

Ríkisstjórnin kemur hins vegar til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins án þess að fyrir liggi skýr stefna um langtímamarkmið og leiðir að þeim.

Skattborgararnir bera bagga ríkissjóðs. En við ríkisstjórnarborðið er ekki samstaða um hvaða skattborgarar eigi að borga brúsann.

Þeir sem vita hvað þeir vilja ráða svo gjarnan för.

Óleyst spenna

Kjarasamningar fyrir allan vinnumarkaðinn verða snúnari. Í því sambandi er vert að horfa á tvennt: Spennuna vegna kaupmáttarstöðnunar og vaxandi skattbyrði millistéttarinnar og mögulegan samdrátt í verðmætasköpun.

Kolbrún Halldórsdóttir formaður BHM og fyrrum ráðherra VG bendir á fyrra atriðið í nýlegri grein. Þar segir hún:

„Þó krónutöluhækkanir hafi framkallað nauðsynlega og réttláta kjaraleiðréttingu hjá hluta launafólks á tíma lífskjarasamningsins hefur hann átt þátt í kaupmáttarrýrnun hjá stórum hluta millistéttarinnar.“

Hún segir jafnframt að hugrekki þurfi til að horfast í augu við þessa staðreynd. Flest bendir því til að þessi óleysta spenna á vinnumarkaðnum verði flutt yfir á næstu ríkisstjórn.

Þess er líka að gæta að tekjuskattslækkun á lág laun, sem fylgt hefur síðustu kjarasamningum, hefur leitt til þess að millistéttin axlar þyngri byrðar margs konar annarra opinberra gjalda.

Samdráttur

Undanfarin ár hefur hagvöxtur í heild verið meiri hér en í mörgum grannlöndum.

Kaldi veruleikinn er hins vegar sá að vegna mikillar fólksfjölgunar hefur hagvöxtur á hvern landsmann verið minni hér en annars staðar. Það er mælikvarði á þau raunverulegu verðmæti, sem eru til skiptanna.

Þessar hagtölur líta verr út núna. Heildar hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi þessa árs var aðeins rúmt eitt prósent. Tölurnar um hagvöxt á hvern landsmann líta enn verr út. Þar sjáum við fram á samdrátt.

Bjarta hliðin á þessum hagtölum er lækkandi verðbólga. Hún verður þó, þrátt fyrir hófsama kjarasamninga, langt yfir verðbólgu grannlandanna. Það viðheldur slakri samkeppnisstöðu landsins.

Vandinn er að við ríkisstjórnarborðið og á Alþingi er grundvallar ágreiningur um leiðir til að auka raunverulega verðmætasköpun.

Leiðir til að auka sköpun verðmæta

Hér þarf að horfa á tvö veigamikil viðfangsefni, sem eru föst í stjórnarkreppunni.

Annað þessara atriða lýtur að lokaskrefinu til fullrar aðildar að Evrópusambandinu og upptöku evru.

Fyrri skref til að dýpka efnahags- og viðskiptasamvinnu við Evrópuríki skiluðu í bæði skiptin verulega auknum hagvexti. Engin ástæða er til að ætla annað en að lokaskrefið muni skila sama árangri.

Stjórnarkreppusamstarfið kemur nú í veg fyrir að þjóðin fái sjálf að taka þessa ákvörðun.

Orkumálin eru hitt stóra viðfangsefnið. Þar er gerist lítið við stjórnarkreppuborðið.

Vöntun á framtíðarsýn á nýju ári

Að þessu leyti hanga efnahagslegar undirstöður væntanlegra kjarasamninga til tveggja ára í lausu lofti.

Kosningabarátta um forsendur hagvaxtar til lengri framtíðar er þegar hafin og mun standa allan  fyrirsjáanlegan samningstíma á vinnumarkaðnum.

Þar hafa stjórnarflokkarnir ólíka sýn og stjórnarandstöðuflokkarnir mismunandi skoðanir.

Á nýju ári blasir við skortur á skýrri og heildstæðri stjórnarstefnu um verðmætasköpun og velferð eða vöntun á framtíðarsýn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!