Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, er svo heppin að vera gift listakokki sem galdrar fram gómsæta rétti á jólunum. Þau eru ekki bundin í gamlar hefðir þegar kemur að jólamat og prófa sig gjarnan áfram en hún segir humar í miklu smjöri, hvítlauk og salti í forrétt vera uppáhald og svo væri hún til í að fara beint í eftirréttinn. Hún vonast til að ná að hvíla sig um jólin til að safna kröftum fyrir árið fram undan, njóta þess að lesa og rabba við fjölskylduna. Þórdís Kolbrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar um jólin.
Ég veit að það er beðið eftir þér annars staðar þannig að við förum að slá botninn í þetta núna. Bara svona rétt í lokin, hlakkarðu til jólanna?
„Já, ég hlakka til jólanna. Ég held ég sé ekki svona brjálað jólabarn. Mér líður vel á jólunum og mér finnst aðventan skemmtileg. Mér finnst svolítið mikil pressa á aðventunni, þú átt að vera mamma ársins og maki ársins og vinur ársins og það er einhvern veginn ansi mikið að gera, en ég hlakka til jólanna og ég vona að það komi nokkrir dagar þar sem ég næ aðeins að hvíla mig. Mig langar það nú eiginlega fyrst og fremst, lesa bækur og spila við börnin mín, spjalla við mömmu og pabba og manninn minn.“
En að borða góðan mat?
„Já, borða góðan mat og svoleiðis.“
Hver er uppáhaldsjólamaturinn?
„Ég ólst upp við lambahamborgarhrygg af því að amma Dísa, fædd 1915, var alltaf hjá okkur á jólunum og vildi ekki borða svín. Maðurinn minn ólst upp við rjúpu og ég er búin að reyna á hverju ári síðan við kynntumst að smakka rjúpu og ég veit að fólk sem elskar rjúpu skilur þetta ekki en ég á enn þá svolítið erfitt með þetta mikla villibráðarbragð. Þannig að við erum dálítið í því að prófa okkur áfram á hverjum jólum og erum ekkert alltaf með sama matinn á jólunum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Er það ekki bara gott, að vera ekki fangi hefðarinnar?
„Jú, mér finnst það. Maðurinn minn er hreint ótrúlega góður kokkur þannig að hann bara sér um þetta. Mér finnst humar með rosalega miklu smjöri, miklum hvítlauk og miklu salti mjög gott og ég væri eiginlega góð með það sem forrétt og fá svo bara góðan eftirrétt – það þyrfti ekkert endilega eitthvert kjöt – þannig að hann ræður meira um það, en við erum ekkert með þetta í föstum skorðum og mér finnst það notalegt,“ segir Þórdís Kolbrún. „Aðalatriðið er að þetta sé áreynslulaust og notalegt þannig að fólki líði vel þessa daga. Þannig að ég hlakka til jólanna og hlakka til að safna kröftum fyrir stórt ár, sem ég veit ekkert hvernig verður en ég veit að ég mun þurfa á kröftunum að halda.“