fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Vond og lítið uppbyggileg jólakveðja frá Ísrael

Eyjan
Þriðjudaginn 26. desember 2023 16:09

Ole Anton Bieltvedt

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá 17. til 21. desember framkvæmdi Prósent netkönnun, þar sem rúmlega 1.100 manns brugðust við og svöruðu. Spurningarnar, sem lagðar voru fyrir könnunarhópinn voru, þessar:

  •  Hversu sammála eða ósammála ertu því, að útiloka eigi Ísrael frá þátttöku í Eurovision í ár?
  • Hversu sammála eða ósammála ertu því, að Ísland eigi að draga sig úr Eurovision í ár, ef Ísrael verður ekki útilokað frá þátttöku?

76 prósent þeirra, sem svöruðu, telja að meina beri Ísrael þátttöku í Eurovision í Gautaborg í maí á næsta ári. Og 60% hópsins telja að ef Ísrael fær að taka þátt, beri Íslandi að draga sig úr keppni í mótmælaskyni.

Telja verður að þessar niðurstöður sýni, með marktækum hætti, hug og afstöðu þjóðarinnar til málsins, en andstaða við þátttöku Ísrael hefur líka komið fram í margvíslegri annarri mynd.

Þessi atburðarás og afstaða barst auðvitað til eyrna manna í Ísrael, og átti ísraelsk sjónvarpsstöð viðtal við Yzhar Cohen í framhaldinu, en hann vann keppnina fyrir hönd Ísrael 1978.

Hann byrjar á því að ásaka Íslendinga um Gyðingahatur. Síðan sagði hann þetta nokkurn veginn orðrétt:

„Það er mikið af ís á Íslandi, er það ekki? Fáið ykkur (Íslendingar) þá kjaftfylli af klökum og þegið þið svo! Ísrael tólf stig, Ísland núll stig“.

Ef þessi ágæti maður hefði sagt að hann skildi að blóðbað Ísraelshers á Gaza leggðist illa í alla góða menn en að annars vegar teldi ríkisstjórn landsins þessar illvígu árásir, jafnvel með drápum á þúsundum barna, kvenna og gamalmenna, óhjákvæmilegar til að „útrýma“ Hamas-liðum og, hins vegar, að við værum hér að ræða um friðsaman tónlistarviðburð, þar sem þátttakendur Ísraels hefðu ekkert með árásirnar á Gaza að gera og gætu ekki haft áhrif á þær, þá hefði mátt hugleiða það sem sæmilega gott og viðunandi svar.

En svarið, sem Cohen gaf var sem sagt allt annað. Að mér finnst í svipuðum anda og með svipaðri afstöðu – tónninn var svipaður – og hjá  ríkisstjórn Ísraels og Ísraelshers gagnvart Palestínumönnum þó að sökudólgarnir, sem þeir eru að eltast við, séu skæruliðasamtök eða hefndarverkasamtök, Hamas-liðar (Norðmenn kalla Hamas ekki hefndaverkasamtök).

Það er í tízku hjá Ísraelsmönnum að kalla menn Gyðingahatara ef þeir gagnrýna þá. „Gyðingahatari“ á að vera skammaryrði. Sýna að menn séu lágkúrulegir og öfgafullir, kunni ekki að meta gott fólk, góða þjóð.

Mín tilfinning er að Íslendingar hafi ekki verið Gyðingahatarar, heldur hafi Íslendingum verið fremur vel við Ísrael og þjóðina, sem það land byggir.

Það hefur þó auðvitað farið fyrir brjóstið, og það oft illilega, á mönnum, bæði hér og víða annars staðar í Evrópu, hvernig Ísraelsmenn, landtökumenn þar, hafa vaðið yfir Palestínumenn, ekki sízt á Vesturbakkanum, hirt af þeim hús, lendur og aðrar eigur og sært þá svo eða drepið ef Palestínumenn hafa reynt að bera hönd fyrir höfuð sér. Margir hér hafa þó ekki fylgzt mikið með þessu, eða leitt það hjá sér. Það hefur því ekki komið mikið inn í skoðanamyndunina á Ísrael hér.

Það, sem nú er að gerast á Gaza, og reyndar líka á Vesturbakkanum, þó að Hamas-liðar hafi þar litla stöðu eða enga, þar sem Ísraelsher hefur nú drepið allt að tuttugufallt þann mannfjölda á Gaza, sem Hamas-liðar felldu 7. október, alls ekki með skárri hætti, nema síður sé, og velvopnaðir landtökumenn, studdir af Ísraelsher, hafa sært og drepið þúsundir óvopnaðra Palestínumanna, sem hafa lítið eða ekkert að gera með Hamas, gæti hins vegar sett af stað bylgju Gyðingahaturs, ekki bara hér, heldur víða um heim.

Kynni sú hatursbylgja, sem Ísraelsmenn bera þá sjálfir sök á, að verða meiri, öflugri og lengur viðvarandi, en aðrar bylgjur Gyðingahaturs seinni tíma.

Rússar fengu þau skilaboð, sem afleiðingu árásarstríðs þeirra gegn Úkraínu, að þeirra fólk væru ekki velkomið til þátttöku í alþjóða íþróttamótum, menningarlífi eða skemmtanahaldi. Mótast þessi afstaða auðvitað af því að alþjóðasamfélagið er ekki sátt við þetta framferði Pútíns og að það telur vert að rússneskir borgarar sjái þessa höfnun og finni fyrir henni.

Ísraelsmenn, sem eru ekki einu sinni í Evrópu, heldur liggur land þeirra í Asíu, eiga svo sannarlega skilið að fá og finna fyrir sömu skilaboðum alþjóðasamfélagsins. Þeir gera meira að segja ekkert með síðustu kröfu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykkt án mótatkvæða, um tafarlausa og stóraukna hjálp við Gazabúa, sem lifa í algjörum hörmungum og neyð, vatnslausir, matarlausir, lyfjalausir, á flestan hátt alveg hjálparlausir, margir veikir eða særðir, ef þeir eru þá í lifanda tölu, líka lítil börn sem hafa misst foreldra og aðra ættingja, jafnvel fót eða handlegg líka, þó þau tóri.

Jólagrið, virðing við fæðingu og boðskap Jesú Krists, þó að ekki væri nema í 1 dag eða 2, fyrir 2 milljónir saklausra og kvalinna borgara á Gaza, komu heldur ekki til greina hjá Ísraelsmönnum. Það er hryllilegt og mannskemmandi að horfa upp á þetta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna

Jóhann Páll: Níu prósent stýrivextir jafngilda ofurskattheimtu á almenning á Íslandi í þágu bankanna
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt

Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður: Dagur hefur komið inn í kosningabaráttuna af ákveðinni auðmýkt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“

Baldur segir að áralöng herferð Morgunblaðsins hafi borið árangur – „Skála líklega í sérpöntuðu kampavíni af fögnuði“