Framsóknarflokkurinn tapaði þremur milljónum á árinu 2022. Eigið fé flokksins var neikvætt um tæpar 28 milljónir króna í lok ársins.
Þetta kemur fram í sameiginlegum reikningsskilum Framsóknarflokksins og 31 kjördæmisráða og undirfélaga. Sem og Skúlagarðs, fasteignafélagsins utan um Framsóknarhúsið við Hverfisgötu.
Tekjur flokksins jukust verulega á milli ára, það er úr 155 milljónum króna í 214. Skiptu þar mestu framlög úr ríkissjóði sem hækkuðu úr 85 milljónum í 122. Framlögin eru í takt við gengi í kosningum og Framsóknarflokkurinn bætti verulega við sig í síðustu alþingiskosningum.
Þá hækkuðu fjárframlög lögaðila, einstaklinga og sveitarfélaga sem og leigutekjur.
Gjöld flokksins hækkuðu einnig umtalsvert. Það er úr 175 milljónum króna í 202. Kostnaður í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar var svipaður og við alþingiskosningarnar árið áður, það er vel á níunda tug milljóna. Stóra breytan er hins vegar að kostnaður við rekstur aðalskrifstofu hækkaði úr 56 milljónum í 91.
Alls er því rekstrarhagnaður tæpar 12 milljónir króna en það sem kemur Framsóknarflokknum í mínus eru fjármagnsgjöld upp á 14 milljónir.
Fjárframlög frá lögaðilum námu tæpum 25 milljónum á árinu. Hið umdeilda útgerðarfélag Hvalur hf var á meðal þeirra félaga sem gáfu stærstu upphæðirnar til flokksins.
Á meðal annarra stórra bakhjarla má nefna útgerðarfélagið Eskju, Frumherja, Heklu, Kviku banka, Landleiðir, fasteignafélagið Mókoll, Samherja, Síldarvinnsluna og Þorbjörn.
Stærstu framlög einstaklinga komu frá Orra Hlöðverssyni bæjarfulltrúa í Kópavogi og þingmönnunum Líneik Önnu Sævarsdóttur, Þórarni Péturssyni og Ingibjörgu Isaksen.