Það kemur Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, ekki á óvart að fólk skuli hafa mismunandi skoðanir á fyrirhugaðri skipun Svanhildar Hólm í embætti sendiherra Íslands í Washington. Hún telur þó valið gott hjá Bjarna Benediktssyni og segir að ekki megi vanmeta dýrmæta reynslu Svanhildar sem aðstoðarmanns ráðherra í mörg ár, auk annarrar reynslu hennar, meðal annars úr fjölmiðlum. Hún efast ekki um að Svanhildur muni gera Íslandi gagn sem sendiherra, en ýmsir hafa orðið til að gagnrýna skipunina sem pólitíska spillingu. Þórdís Kolbrún er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar núna um jólin.
„Ég veit nú ekki hvernig félögum mínum í utanríkisþjónustunni, finnst þetta. Þau hafa örugglega misjafnar skoðanir …“
Nú er enginn að fella neinn áfellisdóm yfir því fólki sem varð fyrir valinu …
„Nei, nei, það er auðvitað margt í þessu. Það sem ég held að skipti máli í þessu er að lögunum var breytt á síðasta kjörtímabili og þessi heimild sett inn að það sé hægt að taka fólk utan kerfis inn tímabundið sem sendiherra og þú sért þá ekki með þennan sendiherratitil einhvern veginn út þína starfsævi. Þetta er bara tímabundið starf. Þú kemur inn í fimm ár og sinnir þínum pósti og ferð svo út aftur,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún segir það ekki koma á óvart að fólk skuli hafa á þessu ýmsar skoðanir. „Sum sem hafa á þessu sterkar skoðanir segja að þetta snúist ekki um persónur og leikendur en það skiptir máli, ef við tökum Svanhildi sem dæmi sem þú ert helst að vísa til, þá er hún framúrskarandi manneskja, bæði með góða menntun og mikla reynslu og mér finnst dálítið áhugavert, því það er nú er ýmislegt sagt um aðstoðarmenn og ég var aðstoðarmaður sjálf …“
Ég þekki það líka.
„Já, þú þekkir það líka. Það er stundum svolítið eins og þeir séu svona bastarðar í kerfinu. Eru ekki embættismenn, ekki kjörin og eitthvað svoleiðis. Þetta er svo mikilvægt fólk og þess vegna skiptir svo miklu máli að í þessi störf sé ráðið almennilegt fólk, framúrskarandi fólk, vegna þess að áhrif þess eru mikil,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Mér finnst það að taka manneskju sem hefur áratuga reynslu úr þeirri litlu stétt, sem fólk hefur ýmsar skoðanir á, ofan á það auðvitað að hafa verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, reynslu úr fjölmiðlum og annað. Grundvallarspurningin fyrir mér er mun hún sem sendiherra gera gagn fyrir Ísland, ég held að svarið við því sé klárt já, ég veit hún mun gera það,“ segir Þórdís Kolbrún. „Auðvitað heyri ég að fólk hefur á þessu ýmsar skoðanir og utanríkisráðherra er fullfær um að svara fyrir það. En ég segi bara: þessi heimild í lögunum – að taka manneskju utan kerfis, og við þekkjum það auðvitað úr fortíðinni – það voru menn teknir úr atvinnulífinu og settir á pósta …“
Ég man eftir dæmi, þegar Ingimundur Sigfússon var gerður að sendiherra í Þýskalandi með mikil tengsl til Þýskalands, það er kannski erfiðara að sýna fram á mikil tengsl Svanhildar við Bandaríkin.
„Einmitt, ég held að Svanhildur muni sinna góðu starfi, gera gagn fyrir Ísland. Sendiherrastarfið er mjög áhugavert starf. Sendiherrar eru eins ólíkir og þeir eru margir og póstarnir mjög, misþungir og áherslurnar misjafnar eftir póstum. En það mun mikið ganga á í Bandaríkjunum á næstu misserum og það mun reyna á bæði mannleg samskipti og hæfni til að stýra teymi, mynda tengsl og vera á réttu stöðunum. Það er alltaf þessi þungi á íslenskt viðskiptalíf og slík tækifæri en líka bara húrrandi pólitík. Guð einn veit hvernig allt þetta fer en það mun alla vega reyna á að vera vel mönnuð,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Mér finnst líka skipta máli og maður finnur svo vel þegar maður fer í utanríkisráðuneytið – það er alltaf ákveðin umræða um utanríkisráðuneytið og utanríkisþjónustuna, hvaða gagn sé af þessu og svona. En þjóð, sem vill láta taka sig alvarlega, hún er með almennilega utanríkisþjónustu. Þjóð sem lítur svo á að það sé ekki sjálfsagt að vera fullvalda eða sjálfstæð, hún sinnir þessu almennilega og við erum ótrúlega vel mönnuð í utanríkisþjónustu á Íslandi. Það er svo margt framúrskarandi fólk í utanríkisþjónustunni sem leggur sig allt fram. Það er ákveðinn lífsstíll að vakna á morgnana og spyrja sig: hvernig get ég gert gagn fyrir Ísland,“ Segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.