fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Fýlan lekur af Birni Bjarnasyni vegna bókar Sigmundar Ernis

Eyjan
Laugardaginn 23. desember 2023 20:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í bráðskemmtilegri bók Sigmundar Ernis Rúnarssonar, sem kom út fyrir þessi jól og fjallar um langan feril hans í blaðamennsku og umhverfi fjölmiðla á Íslandi síðustu 40 árin, gerir hann meðal annars grín að ýmsu vandræðalegu hjá Morgunblaðinu og rekur staðreyndir sem greinilega hafa hitt Moggamenn illa fyrir.

Orðið á götunni er að Sigmundi hafi tekist vel að reka ryðgaða títuprjóna á viðkvæma staði þeirra og náð þannig að koma á framfæri mikilvægum staðreyndum varðandi blaðið sem bakhjarlar Morgunblaðsins hefðu viljað láta liggja í þagnargildi.

Erfitt er að svara þegar fram koma óþægilegar staðreyndir sem ekki er unnt að hrekja. Aðstandendur blaðsins hafa jafnan getað reitt sig á hjálparkokka úti í bæ sem ávallt eru tilbúnir að stíga fram og dreifa skít um meinta andstæðinga, að ekki sé talað um pólitíska óvildarmenn. Björn Bjarnason fer þar fremstur í litlum og illa þokkuðum hópi. Hann bregður ekki af vana sínum og reynir að gera lítið úr bók Sigmundar í umfjöllun sem Morgunblaðið birtir í dag, Þorláksmessu. Greinilega er beðið alveg fram að jólum með þessa níðgrein til að veita bók Sigmundar ekki óþarfa auglýsingu og kynningu í jólabókavertíðinni.

Sigmundur á magnaðan feril að baki og hefur sent frá sér 30 bækur af ýmsum toga samhliða erilsömum störfum blaðamanns, fréttastjóra, sjónvarpsstjóra og ritstjóra í meira en fjörutíu ár. Auk þess sat hann á Alþingi eitt kjörtímabil –og er vonandi á leið þangað að nýju.

Orðið á götunni er að vandi Björns og fleiri Moggamanna sé sá að þeim svíði undan nokkrum staðreyndum sem Sigmundur getur um í bók sinni. En þar sem um staðreyndir er að ræða er svo sem fátt um varnir annað en þá lágkúrulegu vörn þess sem reynir að svara fyrir sig með ómarktæku skítkasti. Þar er Björn Bjarnason á heimavelli.

Þeim svíður greinilega undan þeirri nöturlegu stöðu sem kom upp eftir hrunið haustið 2008. Strax í desember það ár átti Mogginn ekki fyrir launum. Þetta gerðist áður en sægreifarnir frá Vestmannaeyjum og Sauðárkróki keyptu blaðið til að tryggja hollustu þess við stefnumál sín. Vandi blaðsins barst inn á ríkisstjórnarfund. Það er staðfest af þremur ráðherrum úr báðum stjórnarflokkum. Björn Bjarnason frétti aldrei af þessari umræðu, ef marka má skrif hans um bók Sigmundar. Ef til vill hefur hann þurft að víkja af fundi vegna vanhæfi enda markaður af blaðinu frá fyrri tíð.

Ríkisbankinn, sem þá var Íslandsbanki, lánaði til rekstrarins bæði þá og á öðrum tíma. Þessi ríkisbanki afskrifaði svo skuldir Árvakurs, sem gefur Morgunblaðið út, nokkru síðar. Á núverandi verðlagi nema þessar afskriftir ríkisbankans 9,5 milljörðum króna – níuþúsundogfimmhundruð milljónum króna. Vitanlega gleður það Moggamenn ekki að staðreyndir af þessu tagi séu nú til á bók. Með þessum gríðarlegu afskriftum ríkisbankans má segja að Morgunblaðið hafi verið ríkisrekið, sé það jafnvel í dag. Svo geta menn velt fyrir sér samkeppnisstöðunni á fjölmiðlamarkaði.

Orðið á götunni er að Moggamönnum svíði ekki síður undan þeirri staðreynd sem Sigmundur nefnir í bók sinni, að um síðustu aldamót var staðfest upplag Morgunblaðsins 55 þúsund eintök. Svo kom Fréttablaðið fram á völlinn með miklu meiri dreifingu og þá byrjaði upplag Morgunblaðsins að hrynja. Rétt eins og auglýsingasalan og auglýsingaverðið. Samhliða lak rekstrargrundvöllur blaðsins niður sem og öll sú þægilega einokunarstaða sem ríkt hafði um tíma.

Þegar nýir eigendur, sægreifar, komu til bjargar árið 2009 og réðu Davíð Oddsson í stöðu ritstjóra var upplag blaðsins komið niður í 35 þúsund. Við ráðningu Davíðs hrundi það niður um ein tíu þúsund eintök og hefur svo haldið áfram að dragast saman. Áskrifendur Morgunblaðsins í dag munu vera um tíu þúsund á virkum dögum. Hrunið er algert og sá sem bendir á staðreyndir af þessu tagi er vitanlega óvinur Moggaklíkunnar. Að sjálfsögðu. Sigmundur Ernir hefur alveg nógu breitt bak til að þola það.

Sitthvað fleira mætti nefna en orðið á götunni er að ekki komi á óvart þótt Björn Bjarnason hafi stigið fram í hlutverki mykjudreifarans. Það hefur hann áður gert fyrir sömu hagsmunaöfl. Það var einungis spurning um tíma. Hann valdi Þorláksmessu sem réttan tíma fyrir fýluleg viðbrögð sín. Sannur jólaandi þar, myndi sennilega Skröggur úr Jólasögu Dickens taka undir með Birni Bjarnasyni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Í gær

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Össur sendir morgunkveðju til „Engeyings“ – „Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali“

Össur sendir morgunkveðju til „Engeyings“ – „Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali“