Dagfari á Hringbraut segir flugumferðarstjóra nýta sér það að Ísland er eyja og háð flugsamgöngum. Hann vill að tafarlaust verði sett lög til að stöðva ósvífin verkföll þeirra, sem séu ekkert annað en skemmdarverkastarfsemi af hálfu fámenns hóps með 1,5-2 milljónir í laun á mánuði.
Það er Ólafur Arnarson sem skrifar Dagfara sem birtist á Hringbraut í gær. Hann segist ekki vera að mæla með því að stjórnvöld grípi almennt inn í kjaradeilur enda hafi það ekki tíðkast nema í algerum neyðartilvikum, eins og hér sé um að ræða.
Þá telur Ólafur það ósvífni af hálfu flugumferðarstjóra að miða kröfur sínar við starfskjör flugmanna og flugstjóra. Það taki flugmenn mörg ár að fullmennta sig í sinni grein með gríðarlegum kostnaði sem fellur á þá sjálfa á meðan flugumferðarstjórar með ríflega tveggja ára nám að baki, að verulegu leyti launað starfsnám.
Hann segist telja að allir flokkar á Alþingi ættu að sýna lagasetningu í þessu máli skilning og að það myndi flokkast undir pólitískt ábyrgðarleysi ef stjórnarandstaðan gerði ágreining í málinu
„Það eru viðkvæmir tímar í þjóðfélaginu. Mörg fyrirtæki freista þess að rétta hlut sinn eftir hörmungar tveggja veiruára sem skemmdu mikið fyrir. Það á ekki síst við í ferðaþjónustunni sem er sú atvinnugrein sem aflar þjóðinni langmestra gjaldeyristekna og hefur breytt atvinnuástandi í landinu til hins betra og knúið hagvöxt áfram. Allar atvinnugreinar og almenningur líða fyrir okurvexti og hækkaða verðbólgu sem flestir virðast skilja að þurfi að ráðast gegn. Það gerist ekki með skemmdarverkum af því tagi sem fámenn stétt flugumferðarstjóra hefur boðið upp á. Ferðaþjónustan hér á landi þarf nú að fá vinnufrið og menn þurfa að virða mikilvægi þess að vernda orðspor Íslands,“ skrifar Ólafur
Hann kallar eftir því að Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins geri sig gildandi í þessu máli. „Ekki dugar að talsmenn samtakanna slái um sig með aulahúmor og fimmaurabröndurum og tali á kjánalegan hátt um „kartöflur í skóinn“ þegar fjallað er um risastórt viðfangsefni sem krefst fullrar alvöru og ábyrgrar framkomu.“
Þetta mál minnir að mati Ólafs á nauðsyn þess að láta ekki dragast lengur að Alþingi endurskoði lög um kjarasamninga og vinnudeilur, sem séu nær aldar gömul og löngu úrelt. Auka þurfi hlutverk og vald ríkissáttasemjara og tryggja faglegri vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Dagfara í heild má lesa hér.