Nú er það ekki svo – og næsta langur vegur frá því – að sá sem hér lemur löngum fingrum á lyklaborðið, fylgi formanni Sjálfstæðisflokksins að málum. Og mun svo vera um fleiri landsmenn.
En það er vegna þess að skoðanir eru skiptar.
Og nefnilega svo. Skoðanir eiga að vera skiptar. Það er meginkosturinn í lýðræðissamfélagi að geta viðrað ólík sjónarmið án þess að eiga á hættu að vera handtekinn og fangelsaður fyrir hugsanir sínar og orðfæri. Og án þess líka að verða fyrir árásum og hranalegu aðkasti.
Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur þennan rétt. Og formenn allra annarra pólitískra afla í landinu. Ásamt náttúrlega almennum kjósendum, hringinn í kringum eyjuna fögru.
Fólk má hafa sína skoðun.
Og stóra spurningin er hvort við ætlum að virða það sjónarmið, ellegar að færast á sveif með þeim öflum sem vilja fækka skoðunum í landinu – og jafnvel standa uppi með þá einu réttu sem öllum – sérhverri einustu sálu – ber að trúa á.
„Það er hlaupin óðaverðbólga í ummæli fólks um aðrar manneskjur.“
Augljóst er af áhrifamætti samfélagsmiðla á síðustu árum að óþol vex gegn skoðunum annarra. Láti maður eitthvert misjafnt út úr sér er hann umsvifalaust veginn á síðum vefmiðlanna og í besta falli skráður þar til eilífðar sem fífl og fáviti. Einmitt, fyrir það eitt að hafa viðrað skoðanir sínar. Og þær geta verið um utanríkismál eða innanríkismál, hernað og frið, eða hvað eina annað sem menn eiga til að vera ekki endilega sammála um.
En það er akkúrat þetta orð – sammála – sem er farið að vefjast fyrir æ fleira fólki. Því nýleg árátta er sú í samfélagsrausinu að ef menn eru ekki sammála síðasta ræðumanni þá skulu þeir heita andstæðingar hans, jafnvel óvinir, fyrir nú utan hitt – eins og umræðan getur verið – að vera jafnvel með ógeðslegar og hættulegar skoðanir. Litunum hefur fækkað niður í svart og hvítt.
Það er hlaupin óðaverðbólga í ummæli fólks um aðrar manneskjur.
Fyrir það eitt að hafa skoðanir. Sitt persónulega viðhorf.
Sjálfur nýt ég enn þá þeirra forréttinda að eiga perluvini í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, Vinstri grænum, Viðreisn, Pírötum, Samfylkingunni, Flokki fólksins, Miðflokknum og Sósíalistaflokknum. Ég elska samvistir við þetta fólk og kem gjarnan fróðari af fundum þess, þótt ég sé ekki alltaf sammála því. Og það truflar mig bara ekki sekúndubrot.
En mér verður stundum hugsað til þess á svona mannamótum hvað það eru mikil mannréttindi fólgin í því að geta hlustað á aðra skoðun en manns eigin. Látið skoðanamuninn liggja í loftinu. Og notið þess að víkka sjóndeildarhringinn. Opnað umræðuna. En stundum verður það til þess að maður fer að efast um eigin skoðanir, en þess á milli styrkist maður og eflist í eigin sannfæringu.
Svona er þetta.
Og mér finnst að við eigum að hafa þetta svona áfram. Jafnvel líka þannig að formaður Sjálfstæðisflokksins geti mætt á fundi og tjáð þar hug sinn allan.
Án þess að veist sé að honum. Út af skoðanamun.