Þrátt fyrir að stríð hafi geisað í Úkraínu í nær tvö ár er internet nánast óskert þannig að vandkvæðalaust er fyrir íslensk fyrirtæki að nýta sér þjónustu á sviði upplýsingatækni frá landinu. Mörg íslensk fyrirtæki nýta sér þjónustu sérfræðinga á sviði upplýsingatækni sem eru staðsettir í Úkraínu, Póllandi, Serbíu, Króatíu, Moldavíu og Rúmeníu. Snæbjörn Ingi Ingólfsson, framkvæmdastjóri Itera á Íslandi, sem hefur milligöngu um slíkt, segir mun hagstæðara fyrir íslensk fyrirtæki að nýta sér þjónustu á borð við þá sem Itera veitir en að opna eigin skrifstofur í þessum löndum. Snæbjörn Ingi er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Maður veltir fyrir sér að í stríðshrjáðu landi hljóti allir innviðir að vera í lamasessi. Eru rafræn samskipti það traust, eru engin vandræði að vera í rafrænu sambandi við þessa aðila?
„Það er von að þú spyrjir en, nei, þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel. Jú, jú, það var rafmagnsleysi og fleira sem varð á fyrstu vikum og mánuðum en það hefur verið til friðs undanfarið,“ segir Snæbjörn Ingi.
„Við erum með tvær skrifstofur í Úkraínu, í Kyiv og Lviv, þar sem við erum búin að útbúa mjög flotta aðstöðu. Við erum með dísilrafstöðvar á báðum stöðum. Við erum með Starlink, sem hefur verið dreift víða um Úkraínu, og svo þarf bara að hafa í huga að Rússarnir þurfa líka að nota þessa innviði að einhverju marki. Það hefur ekki verið ráðist af hörku gegn fjarskiptakerfinu. Internetsamband hefur nánast verið óskert þennan tíma,“ Segir hann.
Starlink er svona backup kerfi …
„Já, Starlink er gervihnatta internet sem Elon Musk hefur verið með.“
En ef við horfum á markaðinn hér á Íslandi, eru margir um hituna í þessu?
„Þetta eru ekki mörg fyrirtæki. Þetta eru kannski 2-4 fyrirtæki sem eru með viðveru á Íslandi. Svo hafa fyrirtæki verið að koma frá Póllandi – það er gríðarlega gott að ferðast milli Íslands og Póllands. Ég veit að það er eitt fyrirtæki frá Póllandi sem er mjög sterkt á íslenskum markaði. Ég veit ekki hverju þessi hluti upplýsingatækni er að velta hérna, en það eru talsverðar fjárhæðir,“ segir Snæbjörn Ingi.
„Mikið af þessum stóru fyrirtækjum eru að kaupa þjónustu á einn eða annan hátt í gegnum svonaeiningar. Svo hafa mörg af þessu fyrirtækjum farið þá leið að stofna sínar eigin skrifstofur í Serbíu, Króatíu, Moldavíu, Póllandi og Rúmeníu.“
Það eru þá íslensk fyrirtæki?
„Já, íslensk fyrirtæki stofna skrifstofur þar og ráða inn fólk en þá ertu náttúrlega kominn með alls konar yfirbyggingu sjálfur sem þú ert laus við með því að leita til Itera við að við erum með þessa yfirbyggingu. Og, eins og ég sagði áðan, þú ert að kaupa þetta sem þjónustu og þú þarft ekki að taka þá erfiðu ákvörðun, ef eitthvað breytist hjá þér, að segja upp starfsfólki. Þú segir bara upp þjónustusamningi. Það er mitt að koma fólkinu í vinnu aftur.“