fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þrír olíuráðherrar

Eyjan
Fimmtudaginn 14. desember 2023 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Al Jaber er iðnaðarráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Jafnframt er hann forstjóri stærsta ríkisolíufyrirtækis þeirra og forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Hann hefur verið varfærinn í því að skrifa hlýnun jarðar á reikning olíunotkunar.

Minni alþjóðlega athygli hefur vakið að hann er líka bakhjarl alþjóðlegu einkastofnunarinnar Hringborðs norðurslóða. Hliðarstofnun Hringborðsins, Norðurslóð, er skilgreind sem óaðskiljanlegur þáttur í norðurslóðastefnu Íslands.

Skrúfstykki

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við sameinuðu ráðuneyti umhverfis- orku- og loftslagsmála var sett í stjórnarsáttmála að forsætisráðherra og umhverfisráðherra skyldu saman fara með framkvæmd og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og hugmyndafræði réttlátra umskipta, samkeppnishæfni og tæknibreytinga.

Pólitískt frumkvæðisvald fagráðherra hefur ekki áður verið stýft þannig í stjórnarsáttmála.

Þessir tveir ráðherrar bera því sameiginlega pólitíska ábyrgð á því að Alþingi er nú á jólaföstu 2023 sett í það skrúfstykki að samþykkja skömmtun á raforku.

Eins og málum er komið eru slík skömmtunarlög óhjákvæmileg.

Þáttaskil

Hitt er að skömmtunin markar þau þáttaskil að ríkisstjórnin er formlega að stíga stórt skref aftur á bak frá markmiðum um grænan hagvöxt og orkuskipti.

Skömmtunin er augljóst fráhvarf frá helsta grundvallarsjónarmiði grænu skýrslu sérfræðinga ríkisstjórnarinnar.

Eitt er að ríkisstjórnin hefur strandsiglt orkuskiptunum. Annað er að hagvöxtur þarf nú í ríkari mæli að byggjast á olíu í stað endurnýjanlegrar orku.

Nafngiftin olíuinnkauparáðherra gæti því sem best orðið samheiti fyrir raforkuskömmtunarráðherra.

Ætla má að áttatíu fulltrúar Íslands hafi haft tök á að flytja forseta loftslagsráðstefnunnar, olíuforstjóranum, ráðherranum og sérlegum ráðgjafa Íslands í málefnum norðurslóða tíðindin um þessi miklu þáttaskil.

Engar sögur fara af því að hann hafi gagnrýnt Ísland fyrir að sveigja af leið.

Baksvið

En hvert er pólitískt baksvið nýs skömmtunarkerfis í orkumálum?

Þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa borið ábyrgð á orkumálunum samfellt í áratug. Síðustu sex ár hefur athafnaleysið verið skýrt með neitunarvaldi VG. Er það gild málsvörn?

Í fyrsta lagi er á það að líta að þessi staða kemur þingmönnum sjálfstæðismanna ekki í opna skjöldu nú. Þeir vissu þegar til samstarfsins var stofnað að raforkuskömmtun yrði niðurstaðan.

Og þeir vita að raforkuskömmtun og olíunotkun verður ríkari þáttur í nýsköpun atvinnulífsins eftir því sem stjórnarsamstarfinu er haldið lengur áfram.

Skýring

Kjarni málsins er sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einfaldlega valið að setja aðra hagsmuni í forgang. Hagsmuni, sem þeir ná ekki að mynda meirihluta um nema í samstarfi við VG.

Sterkir hagsmunaaðilar ætlast til þess að þeir komi í veg fyrir að auðlindagjöld hækki og að almenningur og minni fyrirtæki geti notið hagræðis af því að starfa utan krónuhagkerfisins.

Þó að olíukostnaður margra þessara hagsmunaðila stórhækki með skömmtunarstefnunni sýnast þeir fremur vilja að samstarfinu við VG verði framhaldið en að opnað verði á möguleika til meirihlutamyndunar um frjálslynda framfarasinnaða miðjupólitík.

Þetta sýnist vera helsta orsök þess að þingmenn sjálfstæðismanna kyngja skömmtunarstefnunni.

Trúverðugleiki

Ekkert bendir enn til að annað hagsmunamat muni ráða afstöðu þingflokks sjálfstæðismanna í verki eftir næstu kosningar.

Skoðanakannanir sýna að flokkarnir lengst til vinstri geti fengið hreinan meirihluta að kosningum loknum. Einsýnt er að slík stjórn mun lenda í sömu blindgötu með orkumálin og núverandi stjórn.

Eins og sakir standa eru það helst flokkarnir næst miðju, Viðreisn og Framsókn, sem hafa trúverðugleika til að knýja á um stefnubreytingu með framtíðarsýn á orkuskipti og grænan hagvöxt.

Það verður svo kjósenda að forgangsraða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?