„Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við sameinuðu ráðuneyti umhverfis- orku- og loftslagsmála var sett í stjórnarsáttmála að forsætisráðherra og umhverfisráðherra skyldu saman fara með framkvæmd og eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum og hugmyndafræði réttlátra umskipta, samkeppnishæfni og tæknibreytinga.
Pólitískt frumkvæðisvald fagráðherra hefur ekki áður verið stýft þannig í stjórnarsáttmála,“ skrifar Þorsteinn Pálsson af kögunarhóli á Eyjunni í dag. Með öðrum orðum: Bjarni Benediktsson færði Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, sérstakt neitunarvald í loftslagsmálum við myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.
Í pistlinum fjallar hann um þá staðreynd að orkuskortur er hér á landi vegna úrræða- og dáðleysis þeirra sem farið hafa með pólitíska stjórn orkumála. Hann bendir á að síðasta áratuginn hafa þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins borið ábyrgð á orkumálum samfellt. Síðustu sex árin hafa athafnaleysi í málaflokknum verið skýrt með neitunarvaldi VG og veltir upp þeirri spurningu hvort það sé gild málsvörn. Þingmenn flokksins hafi vitað mætavel þegar gengið var til samstarfs við VG í ríkisstjórn að niðurstaðan yrði raforkuskömmtun og að olíunotkun yrði ríkari þáttur í nýsköpun atvinnulífsins eftir því sem stjórnarsamstarfið héldi lengur áfram.
„Kjarni málsins er sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einfaldlega valið að setja aðra hagsmuni í forgang. Hagsmuni, sem þeir ná ekki að mynda meirihluta um nema í samstarfi við VG.
Sterkir hagsmunaaðilar ætlast til þess að þeir komi í veg fyrir að auðlindagjöld hækki og að almenningur og minni fyrirtæki geti notið hagræðis af því að starfa utan krónuhagkerfisins.“
Af kögunarhóli í heild má lesa hér.