fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Samfélagið sekt í kynferðisbrotamálum

Eyjan
Miðvikudaginn 13. desember 2023 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlegar fréttir af viðbrögðum lögreglustjóraembættis Reykjavíkur við ásökunum um kynferðislega áreitni yfirmanns gagnvart undirmanni sínum vöktu mig til umhugsunar um bók sem ég las nýlega, Truth and Repair. Höfundur hennar er bandaríski mannfræðingurinn Judith Herman. Í bókinni fjallar hún um rannsóknir sínar á þolendum kynferðisofbeldis og viðhorf þeirra til gerenda sinna. Hún beitti aðferðum mannfræðinga við rannsóknir sínar og tók djúpviðtöl við heimildarmenn sína, eins og hún kallar fólkið sem tók þátt í rannsókninni. Niðurstaðan var sú að sárafáir finna til hefndarþorsta eða löngunar til að hefna sín á gerendum.

Lengi hefur verið viðloðandi sú trú að konur þrái að hefna sín á karlmönnum sem annað hvort hafna þeim eða beita þær ofbeldi og að undanförnu hafa bækur, kvikmyndir og sjónvarpsþættir verið gerðir um konur sem leita hefnda vegna misgjörða gegn þeim. Ef marka má Judith er þetta þema eða þessi plot ekki í neinu samræmi við raunveruleikann. Til að mynda má nefna að ung kvikmyndagerðarkona, einn heimildarmanna í bókinni, segir að hún hafi fundið til meiri reiði í garð móður sinnar sem ekki trúði henni þegar hún fyrst sagði henni frá því að móðurafi sinn væri að misnota sig. Móðirin bað barnið líka að segja aldrei neitt við ömmu sína því það myndi ganga af henni dauðri.

Viðburðastjórnandi á vegum hins opinbera segir einnig frá því að þegar fyrrverandi kærasti hennar nauðgaði henni og ógnaði með hnífi hafi foreldrar hans hafið bréfaskriftir honum til stuðnings eftir að hún kærði hann. Meðan á sambandi parsins stóð tók þetta fólk vel á móti henni og sýndi henni mikla hlýju. Karlmaður sem var misnotaður af presti í barnæsku var sömuleiðis reiðari yfirmönnum biskupsdæmisins í Boston fyrir viðbrögð þeirra við ásökunum um kynferðisofbeldi en geranda sínum. Hann sagðist geta hugsað sér að kýla þá en almennt væri hann ekki ofbeldishneigður og tryði ekki á að leysa mál með ofbeldi.  Síðan dregur hann fram kjarnann eða ástæðu þess að einmitt svona líður þolendum: „Þeir hefðu átt að vita betur.“

Einangra sig og finnst enginn trúa þeim

Að verða fyrir kynferðisofbeldi er áfall og skömmin og vanlíðanin gera það oft að verkum að fólk leitar sér ekki hjálpar fyrr en mörgum árum eftir atburðinn. Þegar það gerist er mikilvægt að sá sem tekur á móti þeim bregðist rétt við. Eitt það allra versta fyrir þolendur er að mæta vantrú og réttarkerfið er beinlínis byggt upp á efa. Þess vegna tala margir um að hafa upplifað ofbeldi af hálfu kerfisins og þaðan sé einskis réttlætis að vænta. Þolendur hafa nefnilega þörf fyrir viðurkenningu á að brotið hafi verið gegn þeim og að gerendur séu látnir taka afleiðingum gerða sinna en það er ekki það sama og að ná fram hefndum.

Sú staðreynd að fólk, jafnt fagfólk sem og fjölskylda, vinir og kunningjar þolenda, efist um upplifun þeirra gerir það að verkum að þeim finnst þeir standa einir. Þeir einangra sig þá gjarnan frá þeim sem ekki trúa þeim og geta fyllst mikilli reiði því efinn er að þeirra mati áframhaldandi ofbeldi. Fordómar nærsamfélagsins og ranghugmyndir gera það einnig oft að verkum að gerendur þurfa aldrei að axla ábyrgð og geta í flestum tilfellum haldið lífi sínu áfram lítt eða algerlega óbreyttu.

Víða um heim hafa menn því reynt að fara aðrar leiðir til að ná fram einhvers konar lokum í kynferðisbrotamálum, meðal annars sáttaleið. Þar er grundvallaratriði að gerandinn gangist við broti sínu og sýni iðrun í verki. Miklar umræður hafa skapast um hvernig það sé gert og hvernig raunveruleg og einlæg afsökunarbeiðni er borin fram. Þess vegna tíðkast núna að þolandi og gerandi ræði fyrst við eigin stuðningshóp. Sá fyrri til að meitla í huga sér hvað hann vill fá út úr ferlinu og gerandinn fær ráð og stuðning við að móta fyrirgefningarbón sína og leiðbeiningar um hvernig hann axlar ábyrgð. Kosturinn við þessa aðferð er sá að báðir aðilar fá tækifæri til að tjá sig og gerendur eru líklegri til að vera hreinskilnir þegar óttinn við refsingu er ekki lengur til staðar. Þetta er langt ferli og kostnaðarsamt en betra en að mál velkist um innan réttarkerfisins mánuðum saman án þess að nokkur niðurstaða fáist.

Eitt af því sem menn eru einnig sammála um að taka inn í sáttaferli er ábyrgð samfélagsins. Fordómar þess gagnvart þolendum kynferðisofbeldis orsaka slæleg viðbrögð í allt of mörgum tilfellum. Enn eimir líka eftir af því að ekki megi ganga of hart að gerendum vegna aðstandenda þeirra eða vegna þess að þeir séu nú bestu skinn að öðru leyti. Í bók sinni segist Judith Herman ekki hafa svör við öllum vandamálum hvað þessa tegund afbrota varðar en efni hennar sé innlegg í umræðuna um hvernig við endurhugsum hugtakið réttlæti í viðleitni við að sýna þolendum sanngirni og gefa þeim tækifæri til að hefja bata og úrvinnslu áfallsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?