Mikilvægt er að rjúfa þann vítahring sem útgáfa á þýddum erlendum bókum er komin í hér á landi. Þýðingar eru mikilvægur þáttur í því að viðhalda tungumálinu. Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir ljóst að bókmenntastefna þurfi að taka á þeirri alvarlegu stöðu sem komin er upp varðandi bókmenntaþýðingar. Hann setur fram þá hugmynd að efla styrki til þýðinga á erlendum bókum geta verið mótvægisaðgerð með hliðstæðu í endurgreiðslunni sem nú hefur verið við lýði í almennri bókaútgáfu í fimm ár og gefið góða raun. Heiðar Ingi er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
Þú nefndir þýðingar áðan, að mjög hefði dregið úr þýðingum. Hér áður fyrr komu út fyrir jólin innbundnar, þýddar bækur en þetta er nánast horfið. Eiga þýðingar undir högg að sækja, hefurðu áhyggjur af þessu?
„Já, ég hef áhyggjur af þessu. Ég hef talað um að almennt séum við ekki komin að krossgötum þó að við séum farin að nálgast það. Í þýðingunum erum við klárlega stödd þar. Á því verður bókmenntastefnan að taka með einhverjum hætti,“ segir Heiðar Ingi.
„Ef við ætlum að viðhalda tungumálinu verðum við að gera eitthvað varðandi þýðingar. Það er ljóst að sala á kiljum, sem mikið til voru þýðingar, hefur dregist verulega saman og er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem var. Áhugi fólks sem vill lesa bækur hefur ekkert breyst og ef þær eru ekki þýddar lengur þá bara lestu þær á frummálinu og það er ákveðin ógn við tungumálið.“ Heiðar Ingi segist ekki hafa einhverja patent lausn á þessu vandamáli en algerlega sé ljóst að bókmenntastefna þurfi að taka á þessu.
„Við breytum kannski ekki þróuninni en það þarf að spyrna við fæti. Ef við getum einhvern veginn – eins og endurgreiðslan var á sínum tíma og hefur verið – þá er hún svona mótvægisaðgerð til þess einhvern veginn að styðja við þennan bransa á þessum tíma. Nú er staðan á þýðingunum þannig að það þarf eitthvað að gera í því, það þurfa einhverjar mótvægisaðgerðir að koma til,“ segir hann.
„Það mætti hugsa sér að hvetja til þess með hærri styrkjum eða öflugri þýðingarsjóði, þannig að það væri meiri hvati hjá útgefendum til að gefa út þýðingar og þeir myndu gera það á þeirri forsendu að með því að fá meiri styrki þá skipti salan ekki eins miklu máli. Þetta er nefnilega þannig að þegar salan minnkar þá minnkar framboðið, þetta er vítahringur. Ef það væri einhver viðspyrna þannig að hægt yrði að gefa út fleiri þýðingar, myndi það hafa áhrif á sölu. Það þarf einhvern veginn að rjúfa vítahringinn, markaðurinn mun ekki leysa úr því,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.