Nú fyrir jólin kom út 32. bókin í ritröðinni Sýnisbækur íslenskrar alþýðumenningar hjá Háskólaútgáfunni. Þessi ritröð er falinn fjársjóður – menning okkar er meira en aðeins það sem ratar í sali Listasafns Íslands og Ríkisútvarpið og í ritröðinni er gægst bak við tjöldin.
Nýjasta bókin heitir Listasaga leikmanns eftir Aðalstein Ingólfsson, listfræðing, og birtir myndlistaannál póststarfsmannsins Kristjáns Sigurðssonar á árunum 1941–1968. Margir telja þessa bók vera senuþjóf jólabókaflóðsins í ár.
Kristján, sem var starfsmaður Póstsins alla sína tíð, sótti myndlistarsýningar á þessu tímabili og skrifaði um þær allar, auk þess að greina frá því hvað hinir fjölmörgu gagnrýnendur dagblaðanna (og þau voru ein fimm eða sex á þessu tímabili) höfðu að segja um sýningarnar. Og ekki skorti álitsgjafana þegar kom að myndlist á þessum umbrotatímum í íslensku menningarlífi.
Bókin er sannkallaður fjársjóður fyrir áhugafólk um menningu og listir og veitir einstakt sjónarhorn á þetta mikilvæga svið mannlífsins. Haft hefur verið á orði að nú þurfi að skrifa myndlistarsöguna upp á nýtt – og það er ekki fjarri sanni.