fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Er hún svo frábær, þessi íslenska sveifla?

Eyjan
Fimmtudaginn 7. desember 2023 12:12

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska efnahagskerfið er leiksvið öfga. Kaupmáttur er stundum í hæstu hæðum en aldrei lengi. Fasteignamarkaðurinn er ýmist á yfirsnúningi eða við frostmark. Gengi krónunnar sveiflast upp og niður. Verðbólga og vaxtakostnaður heimilanna sömuleiðis. En jafnvel þegar vextir voru hvað lægstir hér þá voru þeir samt tvöfalt hærri en í nágrannalöndum okkar. Þessi óstöðugleiki er ofboðslega dýr. Þessi óstöðugleiki er helsta meinsemd íslensks samfélags. Fyrir vikið er hlutverk opinberra fjármála í sveiflujöfnun mikilvægara hér en í öðrum löndum.

Yfirdráttarlán ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin ber ríka ábyrgð á því að tryggja hér stöðugleika. Það gæti hún gert með því að halda jafnvægi milli tekna og gjalda. Með því að haga útgjöldum í samræmi við tekjur og auka ekki á þensluna. Á milli ára hafa tekjur ríkisins aukist um 200 milljarða króna, meðal annars vegna verðbólgu. Það sturtast inn tekjur en samt er ríkið rekið með halla. Þessar tekjur munu hverfa með verðbólgunni og þess vegna er hættulegt að nota þær í ný útgjöld. Betra væri ef ríkisstjórnin myndi forgangsraða þeim í að minnka yfirdráttinn sinn. Nota óvæntar tekjur til að búa í haginn og greiða niður skuldir. Vextir einir og sér munu kosta ríkissjóð 117 milljarða króna á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta eru sturlaðar upphæðir sem hafa veruleg áhrif á getu stjórnvalda til að efla grunnstoðir samfélagsins, eins og samgöngur, heilbrigði og löggæslu. Ekkert Evrópuríki borgar jafn hátt hlutfall í vexti og Ísland.

Fórnarkostnaðurinn

Ríkisstjórnin hefur sýnt litla tilburði í viðureign sinni við verðbólgu og fyrir vikið hafa vaxtaákvarðanir Seðlabankans verið mun harkalegri en þær hefðu annars þurft að vera. Heimilunum svíður. Ung hjón sem ég heyrði í sögðu mér að afborganir af húsnæðisláni þeirra hefðu hækkað úr 180 þúsund krónum á mánuði í 365 þúsund, sem setur heimilisbókhaldið og líf fjölskyldunnar að sjálfsögðu í fullkomið uppnám. Þau hafa flúið yfir í séríslenskt verðtryggt lán og sjá nú verðbólguna í leggjast ofan á höfuðstól lánsins. Fjölskyldur í sömu stöðu og þessi hjón eru taldar í tugum þúsunda. Þetta er fórnarkostnaðurinn af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni, sem hefur aukist mun meira hér en annars staðar í Evrópu. Þessi íslenski veruleiki hefur einnig þau áhrif að kjarasamningar verða flóknari hér á landi.

Má ekki segja það upphátt?

Á sama tíma og ráðherrar ríkisstjórnarinnar keppast við að gagnrýna umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um íslensku krónuna þá fá þeir sjálfir að finna fyrir henni. Bara frá fyrstu umræðu fjárlaga hefur áætlaður vaxtakostnaður ríkisins hækkað um 7 milljarða króna. Spáin breyttist frá því í september. Þegar allt fer reglulega á hliðina reynir ríkisstjórnin að sannfæra almenning um að það séu miklir kostir við þennan sveigjanleika. En það þarf að segja upphátt hvað það kostar heimilin að vera með örgjaldmiðil. Hvað það kostar fyrir venjulegt fólk. Það þarf að losa um meðvirknina og rausið sem byrjar um að það megi ekki tala krónuna niður. Gjaldmiðill sem ekki þolir að um hann sé rætt upphátt, er hann svo burðugur?

Val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat. Heimilin, bændur, byggingarverktakar, sveitarfélögin og stofnanir borga brúsann. Þetta er stórt réttlætismál. Um 250 fyrirtæki hafa yfirgefið krónuna og njóta því mun hagstæðari lánskjara en heimilin og fyrirtækin sem eru bundin í vaxtaumhverfi krónunnar. Það er enginn að gagnrýna það heldur viljum við að þessi kjör bjóðist öllum.

Hvað er til ráða?

Í bullandi verðbólgu með svimandi háa vexti skiptir máli að stjórnvöld séu skýr um markmið og sýni það í verki. Þau sýni forystu og fari í það verkefni að ná niður verðbólgu af metnaði og skynsemi. Fólk hefði búist við öðru og meira en flötum niðurskurði. Ábyrg ríkisstjórn hefði tekið hvern málaflokk fyrir og forgangsraðað verkefnum. Tekið afstöðu til þess um hver þeirra þurfi að standa vörð og hver mættu missa sín. Hún hefði til dæmis getað byrjað á því að fækka ráðuneytum og gefið þannig skýr skilaboð um að hún taki hlutverki sínu alvarlega. Hún hefði nýtt óvæntar tekjur til að greiða niður skuldir. Gott samspil fjármála- og peningastefnu skiptir sérstaklega máli á tíma þenslu í hagkerfinu. Rangar ákvarðanir verða þess valdandi að glíman við verðbólgu tapast. Ábyrg ríkisstjórn hefði líka staðið vörð um millistéttina, sem greiðir háa skatta og hefur tekið á sig mestan þunga vaxtahækkananna. Það gæti hún gert með tímabundinni ákvörðun um að vaxtabætur, barnabætur og húsnæðisbætur nái hærra upp tekjustigann á meðan við náum tökum á verðbólgunni. Þannig yrði byrðinni dreift með sanngjarnari hætti. Til lengri tíma litið er síðan nauðsynlegt að komast út úr þeirri stöðu að ríkið þurfi að niðurgreiða vaxtakostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?