Alþjóðlega tæknifyrirtækið Itera og Fjártækniklasinn stóðu fyrir morgunverðarfundi á Hótel Nordica í gær þar sem fjallað var um notkun gervigreindar í fjártæknilausnum og hvernig gervigreind getur aukið afköst og getu fyrirtækja í fjármálaumhverfinu. Aðilar frá Grid, Lucinity, Verna og Itera fjölluðu um málefnið og í kjölfarið voru tækifærin rædd í pallborðsumræðum. Um 130 manns sóttu fundinn sem þótti heppnast afar vel.
„Fjármálaþjónustan er í stöðugri þróun, knúin áfram af nýrri tækni, breytingum á væntingum viðskiptavina, mikilli samkeppni og ströngu regluverki. Til að ná árangri verða fyrirtækin stöðugt að búa til nýjar og endurbættar lausnir. Á morgunverðarfundinum var lögð áhersla á þróun og þátttakendur sem stöðugt þrýsta á landamæri stafrænnar nýsköpunar í fjármálaþjónustugeiranum,“ segir Snæbjörn Ingi Ingólfsson, framkvæmdastjóri Itera á Íslandi.
Á fundinum kom fram að margir hafi unnið að gervigreindarverkefnum hægt og rólega og án mikillar athygli og nú sé kominn tími til að varpa sviðsljósinu á ótrúlegan árangur þeirra. Sýnd voru dæmi um notkun gervigreindar í fjármálaþjónustu með góðum árangri.