fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Evran hefur reynst okkur vel

Eyjan
Þriðjudaginn 5. desember 2023 11:06

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið er 2032. Sjö ár eru liðin frá því að ný ríkisstjórn með þátttöku Viðreisnar tók við að loknum kosningunum 2025. Í sömu kosningum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Mikill meirihluti landsmanna var hlynntur viðræðum við ESB sem lauk sama ár. Strax í kjölfarið var önnur þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem kosið var um aðildina. Þjóðin kaus aðild.

Samningurinn við ESB var okkur mjög hagstæður og var evra tekin upp sem gjaldmiðill stuttu síðar enda uppfyllti Ísland öll skilyrði um upptöku evru.

Miklar breytingar hafa átt sér stað

Við höfum nú verið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu í 6 ár og notað evru í um 4 ár.

Miklar jákvæðar breytingar hafa orðið í kjölfarið hjá okkur. Tökum nokkur dæmi.

Með fullri aðild Íslands að ESB hefur þjóðin aukið sitt stjórnunarlega sjálfstæði en landið á nú 6 þingmenn á Evrópuþinginu, aðild að ráðherraráði ESB, auk fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB og öllum öðrum stofnunum Evrópusambandsins.

Við höfum nú áhrif á ákvörðunartöku Evrópuþingsins og höfum þannig styrkt fullveldi landsins umtalsvert. Áður tókum við sem EES þjóð upp reglugerðir og lög án þess að hafa nægileg áhrif á gerð þeirra.

Efnahagslegt sjálfstæði hefur einnig aukist verulega, þar sem mikill vaxtakostnaður krónunnar heyrði sögunni til og lækkaði verulega. Vextir á Íslandi eru í dag aðeins um þriðjungur af því sem áður var.

Við höfum skipað okkur í hóp frjálslyndra lýðræðisflokka á Evrópuþinginu sem aðhyllast jafnrétti, velferðarstefnu, neytendahagsmuni og umhverfisvernd. Þannig eru við Íslendingar í raun í meirihlutahópi þingsins.

Þjóðarsátt á vinnumarkaði

Þjóðarsátt náðist á vinnumarkaði fljótlega eftir upptöku evru, en þjóðarsáttin 1990 byggðist einmitt á stefnubreytingu í gengismálum. Vegna aukins stöðugleika á vinnumarkaði hefur kaupmáttur launa aukist aftur vegna verulegra lækkunar á fjármagnskostnaði heimilanna og vegna lækkunar á verði matvæla. Verðbólgan er nú lág eins og í nágrannalöndunum.

Vextir á lánum til íbúðarkaupa, til fyrirtækja, ríkisins og sveitarfélaga hafa lækkað mikið og leitt til um 300 milljarða sparnaðar á ársgrundvelli eða tæplega 10% af þjóðarframleiðslu

Bara hjá ríkissjóði hafa um 65 milljarðar sparast árlega í vaxtakostnað. Þeim peningum er nú er varið í velferðarmálin og í lækkun á skuldum ríkissjóðs í stað vaxtagreiðslna.

Verðtrygging lána heyrir nú sögunni til enda er hún óþörf eftir að við fengum evruna.

Millifærslukostnaður á gjaldeyrisviðskipti er nú óþarfur og greiðslukortafyrirtækin geta ekki lengur lagt skiptigjald á erlendar úttektir Íslendinga enda eru þær nú flestar í okkar eigin gjaldmiðli, evru.

Fjöldi erlendra banka og tryggingarfélaga hafa opnað útibú á Íslandi. Samkeppni hefur aukist í bankaþjónustu og tryggingum. Þjónustugjöld bankanna og tryggingakostnaður lækkað verulega í kjölfarið.

Verslunarkeðjan KRÓNAN heitir nú EVRAN.

Tökum nokkur dæmi um mikinn ávinning af evru og ESB

Komið hafa fram  hugmyndir um að taka upp krónuna aftur og kalla hana NÝKRÓNU.

Greiðslukortafyrirtækin hafa fagnað þessari hugmynd enda myndu þau aftur fá skiptigjald af öllum kortafærslum landsmanna á ferðalögum í evrulöndum.

Allir aðrir hagsmunaaðilar á Íslandi munu mótmæla hugmyndum um nýkrónu.

Skoðum hugsanleg viðbrögð þeirra nánar:

Samtök frumkvöðla og hugvitsmanna vilja hafa evruna áfram. Nýsköpunarfyrirtæki hafa fengið aukinn aðgang að evrópskum frumkvöðlastyrkjum og erlend nýsköpunarfyrirtæki hafa streymt til landsins, enda var krónan helsta hindrun nýsköpunar á Íslandi samkvæmt könnun sem var framkvæmd meðal frumkvöðla.

Bændur vilja ekki sjá krónuna aftur, enda voru okurvextir af völdum hennar að sliga bændastéttina þar til evran var tekin upp. Landbúnaðurinn fékk mjög góðan samning vegna norðlægrar legu landsins.

Árlegir 15 milljarða árlegir styrkir frá ESB hafa komið sér vel fyrir bændasamfélagið sem hefur stóraukið landrækt, auk hefðbundinnar framleiðslu. Útflutningur landbúnaðarafurða hefur stóraukist í kjölfar tollfrelsis þeirra í ESB.

Launþegasamtökin vilja hafa evruna enda hafa lífskjör launþega stórbatnað eftir að krónunni var kastað og þjóðarsátt á vinnumarkaði náðist. Þessi samtök kunna að meta kosti lágra vaxta og stöðugleikans sem er kominn á í landinu. Þau áttuðu sig á því að sú pólitíska ákvörðun að vera hér með íslenska krónu var ákvörðun um óréttlæti og misrétti.

Allir launþegar á landinu fá nú laun sín útborguð í alþjóðlegum gjaldmiðli sem er hægt að nota eða skipta í öllum heiminum.

Neytendasamtökin og neytendur nutu tollfrjáls innflutnings á öllum landbúnaðarafurðum Evrópulanda strax eftir aðildina. Í kjölfarið lækkaði matvöruverð um allt að 15% sem jók kaupmátt verulega. Neytendur fagna einnig stórlækkaðri vaxtabyrði sinni í kjölfar upptöku evru fyrir um fjórum árum.

Landsbyggðin og samtök sveitarfélaga sjá mikinn hag í ESB aðild enda hefur verið ráðist í miklar umbætur í samgöngumálum. Brýr og vegir landsins uppfylla nú allar öryggiskröfur Evrópusambandsins sem fjármagnaði þessar framkvæmdir að miklu leyti.

Samtök sjávarútvegsins og fiskeldið vilja hafa evruna áfram sem gjaldmiðil. Þessi atvinnugrein fékk alla tolla af fullunnum afurðum sínum afnumda sem jók fullvinnslu í neytendaumbúðir og þar með jókst verðmætasköpun innanlands verulega. Vegna reglu ESB um hlutfallslegan stöðugleika fá engar aðrar þjóðir aðgang að fiskimiðum okkar.

Stórútgerðirnar  eru orðnar vanar því að nota erlendan gjaldmiðil og hafa fyrir löngu flúið krónuna.  Flestar útgerðir eru með skip og vinnslustöðvar fjármagnaðar í erlendum lánum og laun sjómanna eru í raun í evrum með tengingu við afurðaverð. Þeir eru með olíukaup verðlögð í erlendri mynt..

Bæði smásalan og heildsalan hafa mikinn hag af evrunni. Með því að nota alþjóðlegan gjaldmiðil hafa innflutningsfyrirtækin getað lækkað vöruverð til neytenda um 5-10% enda þurfa þau ekki lengur að reikna kostnað vegna gengisáhættu inn í verð vörunnar eins og þeir gerðu þegar krónan var notuð. Millifærslukostnaður á gjaldeyrisviðskipti með evrur er nú óþarfur en hann nam tugum milljarða á ári á tímum krónunnar.

Samtök fjármálafyrirtækja eru hlynnt evrunni og sjá mikil tækifæri með aðild Íslands að ESB. Eftir að erlend samkeppni í bankastarfsemi og tryggingum jókst í kjölfar upptöku evru hafa þessi fyrirtæki hagrætt til að mæta samkeppninni og eru nú mun samkeppnishæfari en áður. Sum þeirra hafa þegar hafið samstarf við erlend fyrirtæki til að bæta reksturinn og flytja út þekkingu og þjónustu sína.

Samtök atvinnulífsins „eru í forystu um samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru, fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra“ eins og stendur á heimasíðu þeirra. Samtökin eru því hlynnt áframhaldandi aðild að ESB og vilja að sjálfsögðu hafa evruna áfram.

ESB aðildin hefur skapað ótal ný tækifæri fyrir fyrirtækin í landinu sem hafa stóraukið samstarf sitt við evrópsk fyrirtæki. Öll fyrirtæki landsins nota nú evrur í rekstri sínum, ekki bara útvalin 248 fyrirtæki sem skiptu úr krónum á árunum fyrir upptöku evru. Aðskilnaðarstefnan í gjaldmiðilsmálum er því liðin undir lok.

Ferðaþjónustan vill hafa evruna áfram enda hefur hún loksins getað gert áreiðanlegar áætlanir um kostnað og tekjur fram í tímann með stöðugum gjaldmiðli. Samkeppnishæfni landsins sem ferðamannalands hefur batnað til muna enda þurfa evrópskir ferðamenn ekki lengur að borga hátt skiptigjald gjaldeyris eins og áður.

Menntasamfélagið og heilbrigðisstarfsmenn eru ánægðir með ESB aðildina enda hefur samstarf mennta- og heilbrigðisstofnana við evrópskar systurstofnanir aukist verulega.

Samtök námsmanna vilja hafa evruna áfram sem tryggir ódýrari námslán en áður og námsmenn hafa nú mun betri aðgang að evrópskum skólum.

Stóriðjan fagnar evrunni enda hefur hún ekki notað krónu í sínum rekstri í allt að 60 ár.

En fyrst allir er á móti nýkrónunni, af hverju erum við þá með gömlu krónuna í dag?

Ein af megináherslum Viðreisnar er að Ísland sæki um aðild að ESB og taki upp evru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?