fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Njáll leggur til að Íslendinga sem féllu í seinni heimsstyrjöldinni verði minnst

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 9. nóvember 2023 16:30

Njáll Trausti Friðbertsson. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi og er hún á dagskrá þingfundar í dag. Þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn, Samfylkingunni, Vinstri-grænum og Flokki fólksins eru meðflutningsmenn að tillögunni. Tillagan snýst um heiðra minningu þeirra Íslendinga sem létu lífið í síðari heimsstyrjöldinni.

Þetta er í fimmta sinn sem tillagan er lögð fram á Alþingi. Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að setja annars vegar fram áætlun um að heiðra á varanlegan hátt minningu þeirra Íslendinga sem fórust í seinni heimsstyrjöldinni og hins vegar áætlun um undirbúning minningarathafnar sem fram fari árið 2025. Ríkisstjórnin hafi samráð við sérfræðinga við gerð áætlananna sem verði bornar undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en í apríl 2024.

Í greinargerð sem fylgi tillögunni segir m.a. að þrátt fyrir herleysi Íslands hafi Íslendingar ekki farið varhluta af því mannfalli sem átök seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu í för með sér. Siglingar hafi verið landinu lífsnauðsyn því að flytja þurfti afurðir landsins út og birgja landið að hvers kyns nauðsynjum á stríðsárunum. Þá hafi verðmæti og mikilvægi útflutnings sjávarafurða aukist gríðarlega. Jafnframt hafi herseta Breta og síðar Bandaríkjamanna leitt til þess að íslensk skip voru að einhverju leyti í þjónustu þeirra og skipt miklu máli í baráttunni fyrir frelsi Evrópu og heimsins alls. Mikilvægi íslenska skipaflotans hafi þó ekki síst falist í útflutningi á íslenskum afurðum landsins. Siglingar á hafsvæðinu í kringum Ísland hafi því verið tíðar og megi rekja megnið af mannfalli Íslendinga á stríðsárunum til árekstra og árása á íslenska skipaflotann þar þótt allnokkur íslensk skip hafi farist langt frá Íslandsströndum.

Íslendingar og bandamenn allir standi í þakkarskuld við þá sem hafi lagt líf sitt að veði í þessum siglingum fullkomlega meðvitaðir um áhættuna. Fórnir þeirra sem hafi farist hafi verið miklar og sé löngu tímabært að heiðra minningu þeirra. Flutningsmenn telji viðeigandi að Alþingi samþykki að heiðra varanlega minningu þeirra sem fórust og að sérstök minningarathöfn verði haldin árið 2025 þegar þess verði minnst að 80 ár verði frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Á þriðja hundrað Íslendinga hafi fallið

Í tillögunni segir enn fremur að fyrir liggi heimildir um þann fjölda Íslendinga sem lést á stríðsárunum þótt heildartalan ráðist nokkuð af því hvað sé álitið flokkast undir fall af völdum stríðsátaka. Í sumum tilvikum skorti upplýsingar um ástæður þess að skip fórust. Þó liggi fyrir tilgátur sérfræðinga sem hafi rannsakað þessa sögu og skráð heimildir. Megi þar nefna Þór Whitehead og Gunnar M. Magnúss sem tók saman verkið Virkið í norðri III sem var endurútgefið með breytingum og viðbótum árið 1984 af Helga Haukssyni. Þar sé yfirlit yfir alla Íslendinga sem létust af völdum stríðs. Af þessum heimildum megi álykta að í það minnsta 153 Íslendingar hafi látist vegna árása á skip sem þeir voru á eða árekstra skipanna við tundurdufl.

Þetta hafi verið 0,13% af íbúafjölda hér á landi miðað við manntal í lok árs 1940 (121.474). Þessu til viðbótar hafi farist 58 á tveimur skipum, Sviða og Max Pemberton, sem líkur standi til að hafi tengst árekstrum við tundurdufl. Einnig sé gert ráð fyrir þeim sem féllu á Íslandi á stríðsárunum fyrir hendi bandarískra hermanna. Heildarfjöldi Íslendinga sem féll af völdum stríðsátaka hafi því verið um 211 eða 0,17% af íbúafjölda landsins í lok árs 1940. Það sé áhugavert að skoða þessar tölur í samanburði við hlutfallslegt mannfall annarra þjóða. Lauslegar tölur til samanburðar sýni að sem hlutfall af heildarfjölda íbúa sé þetta sambærilegt mannfalli Dana og mun meira en mannfall Svía. Bandaríkin hafi misst um 0,2% af heildarfólksfjölda sínum í stríðinu, Kanada 0,4%, Bretland 0,7% og Frakkland 1,5%.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt