fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Einstök verðbólga, einstakir vextir, einstakir skattar

Eyjan
Þriðjudaginn 7. nóvember 2023 09:55

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvert sem komið er talar fólk um heimilisbókhaldið og ævintýralega háa vexti. Tugþúsundir finna fyrir hærri afborgunum af húsnæðislánum og enn aðrir sjá hvernig höfuðstóll húsnæðisláns hækkar þrátt fyrir að borgað sé af láni mánaðarlega. Bjargirnar eru sagðar að flytja fólk yfir í séríslensk verðtryggð lán þar sem verðbólga leggst ofan á höfuðstól láns og eignir skertar. Það blasir því við að fram undan eru kjarasamningar við erfiðar aðstæður. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar er mikilvægara en oft áður. Í þessu sambandi verður að viðurkenna meinsemdina sem einkennir íslenskt samfélag; óstöðugleika hagkerfisins.

Fjórum sinnum meiri sveifla

Í sterkri umsögn BHM um fjárlagafrumvarp fyrir 2024 er varpað ljósi á áhugaverðar staðreyndir um íslenska hagkerfið. Kaupmáttur meðallauna hefur sveiflast fjórum sinnum meira sl. 20 ár á Íslandi en innan OECD landanna. Þetta er hin íslenska sveifla sem stjórnvöld tala jafnan um að sé góð. Sú skýring speglar að ríkisstjórnin hlustar ekki lengur á fólkið í landinu. Almenningur er orðinn langþreyttur á þessu ástandi. Ekkert lát er hins vegar á sveiflunum og verðbólga á alþjóðlegan mælikvarða jókst um helming milli áranna 2022 og 2023 sem er einsdæmi. Stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við meðaltal í öðrum háþróuðum ríkjum OECD. Auðvitað gerir þessi íslenski veruleiki gerð kjarasamninga flóknari hér á landi.

Einstakir vextir

Óstöðugleikinn á rætur að rekja til stöðu lítils einhæfs hagkerfis og ekki er hægt að líta fram hjá þeim kostnaði sem íslenska krónan hefur í för með sér. Vextir hér á landi eru stöðugt hærri en í nágrannalöndum okkar. Meira að segja þegar best lét voru vextir tvöfalt hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Yngra fólk verður sérstaklega illa úti, fólk sem nýlega keypti fasteign og er á því æviskeiði að útgjöld heimilis vegna barna og námslána eru mikil. Þetta fólk á hins vegar ekkert skjól hjá ríkisstjórn í landi þar sem meðalvextir á óverðtryggðum húsnæðislánum eru yfir 10%. Það er einfaldlega skilið eftir.

Millistéttin er skilin eftir

Stóra myndin um Ísland er að jöfnuður tekna er meiri á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum. Lífskjör hafa verið góð í alþjóðlegum samanburði. Nú blasir við stöðnun um lífskjör ekki síst hjá millistéttinni og við blasir að skilja á hana eftir með reikninginn fyrir óstöðugleikann. Þetta er fólk sem nú þegar greiðir háa skatta og finnur rækilega fyrir vaxtahækkunum .Þetta þarf ekki að vera svona. Af hálfu BHM hefur verið bent á að um önnur hver króna sem hagkerfið skapar er greidd í skatta eða í lífeyrissjóði. Þessi byrði, sem borin er af launafólki og fyrirtækjum, er með því mesta í alþjóðlegum samanburði. Þar hefur jafnframt þýðingu að 70% álagðra skatta og gjalda eru borin af þriðjungi þjóðarinnar. Í þessum hópi er meginþorri háskólamenntaðra. Nú heyrast hugmyndir stjórnmálaflokka um að þessi hópur taki á sig enn þyngri skattbyrði við að fjármagna heilbrigðiskerfi og velferð í landinu. Það reikningsdæmi gengur ekki upp til lengri tíma ef fólk á að sjá ávinning í háskólamenntun og í því að búa á Íslandi eftir háskólanám. Skattastefna stjórnvalda er mikilvægt svar í því sambandi.

Velferð almennings og ábyrgur rekstur er grunntónninn

Viðreisn leggur til að í því ástandi sem núna ríkir sýni stjórnvöld ábyrgð í hagstjórninni. Að ríkisstjórnin hætti stjórnlausum útgjaldavexti. Viðreisn leggur líka til að stjórnvöld beiti vaxtabótum, barnabótum og húsnæðisbótum með ábyrgum hætti. Þar skiptir máli að vaxtabætur og barnabætur verði líka greiddar hærra upp tekjustigann en verið hefur. Hér getur verið um tímabundið úrræði að ræða sérstaklega í ljósi þess að millistéttin horfir nú aftur á langt tímabil kaupmáttarstöðnunar. Opinberir sjóðir eru hins vegar ekki botnlausir og þess vegna skiptir máli að opinber fjármál verði sjálfbær, bæði nú og til lengri tíma litið. Ábyrg hagstjórn snýst um að fara vel með fjármuni almennings og sýna hófsemi í skattlagningu.

Skynsöm velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingum í þágu almannahagsmuna. Kerfin eiga að vera til staðar fyrir fólkið en ekki öfugt, að fólkið sé til staðar fyrir kerfið. Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra lagði Viðreisn fram fjármagnaðar tillögur um að verja millistéttina í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið og með greiðslum barnabóta. Það munum við aftur gera í ár. Við lögðum ein fram hagræðingartillögur sem beindust að því að fara betur með fjármuni í stjórnsýslunni og skuldir ríkisins yrðu greiddar niður um 20 milljarða á árinu. Við lögðum til tekjuöflun með hækkun veiðigjalda og kolefnisgjalda. Allar tillögur Viðreisnar spegluðu þá hugmyndafræði að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og trúverðugar tillögur í velferðarmálum. Við neitum að fara þá leið að stórauka skattheimtu á almenning. Almenningur er einfaldlega þegar að borga nóg og fær of lítið til baka fyrir peninginn sinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?