Kaupmáttur meðallauna á Íslandi hefur sveiflast fjórum sinnum meira á Íslandi síðustu 20 ár en að meðaltali innan OECD. „Þetta er hin íslenska sveifla sem stjórnvöld tala jafnan um að sé góð. Sú skýring speglar að ríkisstjórnin hlustar ekki lengur á fólkið í landinu. Almenningur er orðinn langþreyttur á þessu ástandi. Ekkert lát er hins vegar á sveiflunum og verðbólga á alþjóðlegan mælikvarða jókst um helming milli áranna 2022 og 2023 sem er einsdæmi. Stýrivextir eru rúmlega tvöfaldir á við meðaltal í öðrum háþróuðum ríkjum OECD,“ skrifar Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar í aðsendri grein á Eyjunni í dag.
Hún segir millistéttina hér á landi ekkert skjól hafa hjá ríkisstjórninni. Meðalvextir óverðtryggðra lána eru nú yfir 10 prósent og Þorbjörg Sigríður víkur að því að BHM hefur bent á að önnur hver króna sem hagkerfið skapar sé greidd í skatta eða í lífeyrissjóði. „Þessi byrði, sem borin er af launafólki og fyrirtækjum, er með því mesta í alþjóðlegum samanburði. Þar hefur jafnframt þýðingu að 70% álagðra skatta og gjalda eru borin af þriðjungi þjóðarinnar. Í þessum hópi er meginþorri háskólamenntaðra. Nú heyrast hugmyndir stjórnmálaflokka um að þessi hópur taki á sig enn þyngri skattbyrði við að fjármagna heilbrigðiskerfi og velferð í landinu. Það reikningsdæmi gengur ekki upp til lengri tíma ef fólk á að sjá ávinning í háskólamenntun og í því að búa á Íslandi eftir háskólanám. Skattastefna stjórnvalda er mikilvægt svar í því sambandi.“
Hún segir lykilinn nú vera ábyrga hagstjórn með velferð almennings í fyrirrúmi. Hætta verði stjórnlausum útgjaldavexti ríkisins. „Skynsöm velferðarstefna snýst um að forgangsraða fjárfestingum í þágu almannahagsmuna. Kerfin eiga að vera til staðar fyrir fólkið en ekki öfugt, að fólkið sé til staðar fyrir kerfið. Við afgreiðslu fjárlaga í fyrra lagði Viðreisn fram fjármagnaðar tillögur um að verja millistéttina í gegnum vaxta- og húsnæðisbótakerfið og með greiðslum barnabóta. Það munum við aftur gera í ár. Við lögðum ein fram hagræðingartillögur sem beindust að því að fara betur með fjármuni í stjórnsýslunni og skuldir ríkisins yrðu greiddar niður um 20 milljarða á árinu. Við lögðum til tekjuöflun með hækkun veiðigjalda og kolefnisgjalda. Allar tillögur Viðreisnar spegluðu þá hugmyndafræði að sýna ábyrgð í efnahagsmálum og trúverðugar tillögur í velferðarmálum. Við neitum að fara þá leið að stórauka skattheimtu á almenning. Almenningur er einfaldlega þegar að borga nóg og fær of lítið til baka fyrir peninginn sinn.“
Grein Þorbjargar Sigríðar í heild má lesa hér.