fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg verði rekin með afgangi á næsta ári

Eyjan
Þriðjudaginn 7. nóvember 2023 12:38

Mynd af vef Reykjavíkurborgar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2024 geri ráð fyrir batnandi afkomu A- og B-hluta og að rekstrarniðurstaða A-hluta verði jákvæð. Hagræðingaraðgerðir hafi skilað betri árangri en áætlanir gerðu ráð fyrir á yfirstandandi ári.  

 

Segir í tilkynningunni að rekstrarumhverfi Reykjavíkurborgar síðastliðin ár hafi einkennst af sviptingum á vinnumarkaði, mikilli eftirspurn eftir þjónustu og þrálátri verðbólgu.  

 

Haustið 2022 hafi verið samþykktar aðgerðir í borgarráði til að takast á við halla og áhrif annarra erfiðra skilyrða í ytra umhverfi borgarinnar. Fjárfestingaráform hafi verið lækkuð frá fyrri áætlunum, settar fram samræmdar ráðningarreglur og lögð fram aðgerðaáætlun sem byggð sé á fjármálastefnu borgarinnar.  

 

Enn fremur segir í tilkynningunni að rekstrarniðurstaða A-hluta síðustu ár hafi litast af óstöðugleika í efnahagsumhverfinu og vanfjármögnun ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks. Útkomuspá yfirstandandi árs, geri ráð fyrir 10,8 milljarða króna jákvæðum viðsnúningi frá árinu 2022 og að niðurstaðan verði halli sem nemur 4,8 milljörðum króna. Árið 2024 sé gert ráð fyrir tæplega 600 milljóna króna afgangi af rekstri A-hluta sem fari síðan batnandi á næsstu árum.

Í tilkynningunni segir einnig að batnandi rekstrarafkomu megi meðal annars rekja til árangurs af aðgerðaáætlun borgarinnar til að mæta hallarekstri. Í áætlun næsta árs sé gætt aðhalds þótt áfram verði passað upp á fulla fjármögnun framlínuþjónustu. Dregið sé saman í fjárfestingaáætlun A-hluta borgarinnar en áhersla lögð á viðhald mannvirkja og uppbyggingu innviða.

Til að tryggja sjálfbærni til framtíðar sé hins vegar mikilvægt að gengið sé frá samningum milli ríkis og sveitarfélaga um fulla fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks.

Fjárhagsáætlun ársins 2024 sem lögð er fyrir borgarstjórn í dag geri ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta verði jákvæð um 7,6 milljarða króna.  Á árunum 2025-2028 sé gert ráð fyrir batnandi afkomu A- og B- hluta. Gert sé ráð fyrir að í lok árs 2024 nemi eignir samtals 969 milljörðum og aukist um 58,4 milljarða á árinu. Þá sé gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall nemi 46,8% og hækki um 0,7%. Fjárhags- og fimm ára áætlun geri ráð fyrir að þriggja ára jafnvægisviðmið sveitarstjórnarlaga verði jákvætt allt áætlunartímabilið. Þá geri áætlunin ráð fyrir að skuldaviðmið verði yfir viðmiði árin 2024 til 2026, en haldi frá og með árinu 2027.

Segir fráleitt að kenna kostnaði við málefni fatlaðs fólks um slæma afkomu

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram ýmsar bókanir og breytingatillögur vegna fjárhagsáætlunarinnar þar sem hún segir meðal annars að fjárhagsstaða borgarinnar sé enn óásættanleg þrátt fyrir væntanlegan rekstrarbata og að fráleitt sé að skella skuldinni á kostnað vegna málefna fatlaðs fólks:

„A hlutinn er að mestu fjármagnaður með skatttekjum íbúa borgarinnar. Yfirlit um A og B hluta gefur fyrst og fremst yfirlit um heildarumfang í rekstri og efnahag borgarinnar vegna þess hve einstakar rekstrareiningarnar eru ótengdar.

Rekstur A-hluta Reykjavíkurborgar hefur verið erfiður á undanförnum árum. Árlega hefur hluti rekstrarútgjalda borgarsjóðs verið fjármagnaður með lántökum. Fjárfestingar og afborganir lána hafa verið fjármagnaðar með lántökum. Fráleitt er að kenna kostnaði við verkefni sem tengjast málefnum fatlaðs fólks um slæma rekstrarstöðu borgarinnar að miklu leyti eins og gert hefur verið.

Útlit er fyrir að rekstur A-hluta borgarsjóðs  sé í hægum bata og því ber vissulega að fagna. Langt er þó í land með að fjárhagsstaða borgarinnar sé ásættanleg. Athygli vekur t.d. að veltufjárhlutfall fer í fyrsta sinn um árabil undir 1.0 á komandi ári lækkar. Það bendir til að erfiðara verði að greiða reikninga á réttum tíma á komandi árum.  

Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á að gripið verði til óhjákvæmilegra hagræðingaraðgerða sem skipta máli í rekstri borgarinnar. Hagræðingarkrafa um 1.0 % ætti að flokkast undir eðlilegt árlegt aðhald en ekki sértækar aðgerðir til að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“