Rétt tuttugu ár eru frá því að íslenskir stjórnarherrar tóku það upp hjá sjálfum sér að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða án þess að spyrja þing eða þjóð. Með þeirri ákvörðun voru landsmenn í fyrsta skipti orðnir beinir aðilar að stríði, hvort sem þeim líkaði betur eða verr. Og Ísland var án nokkurrar umræðu orðin að hernaðarþjóð. Með öðrum orðum; forystumenn ríkisstjórnarinnar, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, stilltu þjóðinni si sona upp þeim megin víglínunnar þar sem mestu herveldi heims undir forystu George W. Bush og Tony Blair fóru harðast fram í stríðsbrölti sínu án þess að hafa Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á bak við sig.
Og án allrar umræðu.
En í nafni þjóðarinnar.
Íraksstríðið átti að taka fljótt af, slíkir þóttu hernaðaryfirburðir Bandaríkjamanna og Breta gegn fámennum og illa búnum liðsafla Íraka. Ákvörðun lýðræðisaflanna um innrás, jafnvel þótt hún byggi á helberum lygum um gereyðingarvopn í eigu Saddams Hussein, yrði því ákvörðun sigurvegaranna í sögulegu ljósi, altso þeirra sem breyttu rétt.
Óværunni í Miðausturlöndum yrði einfaldlega eytt. Í einskiptisaðgerð. Þvílík þvæla sem það nú var.
Og sagan endurtekur sig. Hún á það til að bíta í skottið á sér.
Sá er þó munurinn á að forystumenn ríkisstjórnarinnar í fyrra tilvikinu töluðu saman um sína ákvörðun. Því er ekki að heilsa í seinna tilvikinu. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki fyrr hrökklast úr fjármálaráðuneytinu en hann ákveður það upp á eigin spýtur hvoru megin víglínunnar fyrir botni Miðjarðarhafs Ísland eigi að vera.
Og telur sig ekki þurfa að taka upp símtólið til að ræða það við forsætisráðherra – og hvað þá þing eða þjóð.
„Og til að bíta höfuðið af skömminni verður það fyrsta verk nýs utanríkisráðherra á erlendri grundu að gera þjóð sína að viðundri í alþjóðapólitík.“
Nógu umdeilt var það á sínum tíma þegar Davíð og Halldór tóku einir ákvörðunina um Íraksstríðið sem þá var umdeildasta heitstrengingin í utanríkismálum Íslands um áratugaskeið. Alþingi logaði. Davíð og Halldór voru svo að segja dregnir fyrir herrétt af stjórnarandstöðunni á þeim upphafsárum aldarinnar, enda þóttu þeir ábyrgðir fyrir mestu blóðsúthellingum síðari ára og miskunnarlausum voðaverkum á hendur saklausu fólki, konum og börnum.
Orrahríðin á Alþingi varð með þeim illskeyttustu og orðljótustu í manna minnum.
Þingið var í áfalli. Og þjóðin líka.
Sú er sumsé breytingin að tuttugu árum seinna tekur einn maður ákvörðunina. Og eftir situr nötrandi og niðurlægður forsætisráðherra sem neyðist til að fá þingflokk sinn til að andæfa ákvörðun samráðherra síns.
Heyr á endemi.
Og til að bíta höfuðið af skömminni verður það fyrsta verk nýs utanríkisráðherra á erlendri grundu að gera þjóð sína að viðundri í alþjóðapólitík.
„Sagðirðu árás,“ spurði hann í Osló. En þessi verða eftirmæli hans. Á bjagaðri ensku. Og ekki nema á fjórða þúsund börn sem liggja í valnum!