Sanngjarnt og eðlilegt væri að við 70 ára aldur lækki skattar og skyldur fólks við samfélagið um 20 prósent á ári þannig að við 75 ára aldur njóti þeir skattleysis. Þessi hugmynd kemur fram í aðsendri grein frá Ole Anton Bieltvedt á Eyjunni.
Ole Anton segir að eftir 50 ára vinnu- og skattaframlag sé skuld fólks við samfélagið greidd. Hann tekur fram að hann vilji ekki að fjármagnstekjur verði skattfrjálsar, heldur einungis launa- og lífeyristekjur.
Hann rifjar upp að í gegnum aldirnar hefur margvísleg réttindabarátta farið fram þar sem ýmsir hópar þjóðfélagsins sem minna hafa mátt sín hafi reynt að sækja aukinn rétt til valda og fjármuna.
„Lengi voru völd og réttur í höndum karlmanna, oft þeirra eldri, einkum ef þeir réðu fyrir miklum fjármunum og/eða komu af ættum, sem höfðu í gegnum ár og aldir tryggt sína stöðu og forréttindi í þjóðfélaginu,“ skrifar Ole.
Á seinni hluta nítjándu aldar hafi svo kvenskörungar í vaxandi mæli farið af stað með kröfugerð, fyrst um rétt til að greiða atkvæði um hverjir skyldu fara með völdin og stjórna og í kjölfarið eða samhliða um það að geta boðið sig fram til setu á þingi.
Hann kemur inn á baráttu hinsegin fólks, rétt kvenna til þungunarrofs, baráttu fyrir rétti til menntunar, launa og lífskjara, velferðar og öryggis, sjúkraþjónustu og einnig METOO baráttu kvenna.
„Í harðri samkeppni um velferð og völd í þjóðfélaginu gildir oft einfalt lögmál: Þeir sterku verða ofan á og þeir veiku, þeir sem minna mega sín, verða undir,“ skrifar Ole.
Hann segist á undanförnum árum hafa horft upp á það hvernig eldri borgarar hafi hvað eftir annað setið eftir þegar þeim fjármunum sem þjóðfélagið hefur til skiptanna er útdeilt.
„Ef menn fara um stræti og torg þorpa og bæja, eða um sveitir landsins vítt og breitt, blasa við innviðir – margvísleg verk manna og mannvirki; vegir, brýr, hafnir, flugvellir, virkjanir, gróðursvæði og skógar, skólar, sjúkrahús og byggingar hvers konar – sem yngri kynslóðirnar, ráðandi kynslóðir, nota sér og nýta til síns lífs- og allra athafna.
Að verulegu leyti eru það eldri borgararnir, kannske 66 ára og eldri, sem lögðu alla þessa innviði af mörkum, gerðu yngri kynslóðunum fært að njóta lífsins í þeim mæli, sem þeir gera, með löngu og miklu vinnuframlagi, útsjónarsemi og úrræðum, svo og sínum skattgreiðslum,“ skrifar hann.
Hann telur því að þeir sem eru 70 til 75 ára skuli fá frið fyrir fjárhagslegri kröfugerð og framlagi til samfélagsins.
„Með tilliti til þess réttar, sem eldri borgarar hafa áunnið sér og eiga skilið, vil ég leggja fyrir þá hugmynd og tillögu að með og frá 70 ára aldri lækki allir skattar og skyldur til þjóðfélagsins um 20% á ári, þannig að þegar 75 ára aldri er náð verði skattaskyldur við þjóðfélagið komnar niður á núll. Fyrir alla. Menn greiði þó áfram fjármagnstekjuskatt af vöxtum, arði af verðbréfum, leigu o.s.frv.“
Ole Anton segir skattlagningu er viðkvæmt en nauðsynlegt mál. Stíga verði varlega og yfirvegað til jarðar. „Ein tegund skattlagningar er þó fyrir mér ekki jafn viðkvæmt mál og aðrar; erfðafjárskatturinn. Þar er sá, sem verðmætin átti, farinn í annan heim. Hans hagsmunir á þessari blessuðu jörð að engu orðnir. Erfingjar, stundum vandalitlir eða vandalausir, eiga fyrir mér lítinn siðferðislegan rétt til erfðafjárins. Ekki hafa þeir búið fjármunina til eða lagt mikið til við myndun þeirra. Oftast alla vega ekki.“
Hann segist hafa fengið útreikninga frá Hagfræðistofnun Íslands sem sýni að hófleg hækkun erfðafjárskatts mæti þessari tekjuskerðingu opinberra aðila.
Grein Ole Antons í heild má lesa hér.