fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Verðbólgumælingar

Eyjan
Mánudaginn 27. nóvember 2023 17:24

Ari Kr. Sæmundsen, fyrrverandi framkvæmdastjóri.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ímynda mér að eitt af því fyrsta sem maðurinn hafi viljað bregða máli á sé fjarlægð milli tveggja staða. Hægt hefði verið að telja vegalengd í skrefum, en enginn nennir að telja skref á langri leið, auk þess sem menn eru mis skreflangir. Væri þá ekki ráð að tengja ferðalagið við tíma? Hvað tekur langan tíma að fara frá A til B. Engar voru klukkurnar í upphafi og því upplagt að miða við þann tíma sem var sýnilegur öllum, dag. Dagleið varð mælieining ferðalagsins. Hér voru þó ýmsar breytur, sem gátu torveldað mælinguna: lengd daga (ef miðað er við að dagur sé frá sólarupprás til sólarlags), ferðamátinn (voru menn gangandi eða ríðandi), líkamlegt ásigkomulag ferðalangsins (var hann ungur og hraustur, eða gamall og gekk við staf) og svo mætti lengi telja. Það þurfti því að koma upp samræmdu kerfi til að mæla vegalengd og mannkynið kom sér saman um metrann. Að vísu eru nokkrar þjóðir, einkum enskumælandi, sem enn kjósa að bregða annarri mælistiku á vegalengd, en það er fyrir löngu búið að reikna út hvað mílur, jardar og tommur eru margir kílómetrar, metrar og sentimetrar, svo dæmi séu tekin. Mannkynið hefur líka komið sér upp stöðluðu kerfi til að mæla rúmmál og þyngd. Þetta skilja allir.

Þannig hafa þjóðir heims komið sér saman um staðlað kerfi um nánast hvað sem er, sem bregða þarf máli á. En einhverra hluta vegna virðast verðbólgumælingar af allt öðrum meiði, mismunandi milli landa og jafnvel ósamkomulag innan landa um hvernig best er að standa að þessum mælingum.

Á Íslandi grundvallast verðbólgumælingar á vísitölu neysluverðs sem Hagstofan mælir samviskusamlega frá mánuði til mánaðar. Hvað er vísitala neysluverðs og hvernig er hún samsett? Á vef Hagstofunnar stendur: „Vísitala neysluverðs er algengasti mælikvarðinn á verðbólgu. Vísitalan mælir í hverjum mánuði verðbreytingar á tilteknu safni vöru og þjónustu sem myndar grunn vísitölunnar. Í grunninum, eða „vörukörfunni“ eins og oft er talað um, eru áætluð ársútgjöld meðalheimilis til kaupa á vöru og þjónustu. Hún mælir hvorki magnbreytingu neyslunnar né breytingu á neysluhegðun, enda er henni ekki ætlað að gera það. Vísitalan er reiknuð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.“ Undirstrikanir er mínar og ég spyr: Hvaða aðrir mælikvarðar eru notaðir til mæla verðbólgu? Hvað eru alþjóðlegu staðlarnir margir? Er húsnæðisliðurinn, sem vegur svo þungt í íslensku neysluverðsvísitölunni (um 30% að mér skilst), hluti þessara alþjóðlegu staðla? Vísitalan „mælir hvorki magnbreytingu neyslunnar né breytingu á neysluhegðun“, en er það ekki lykilatriði? Ef verð á ákveðinni vöru og þjónustu hækkar, en enginn er að kaupa hana, skiptir það þá ekki máli? Það er jú enginn að neyta þessarar vöru eða þjónustu. Hún getur þá tæplega myndað grunn? Ef einhver vara í grunninum hækkar um 10%, en aðeins eitt eintak selt, er hún samt tekin með í grunninn? Hver eru skekkjumörk áætlunarinnar og þar með verðbólgumælingarinnar? Ef vextir eru hækkaðir (húsnæðisliðurinn), og opinber gjöld á vörur og þjónustu, sem vísitalan mælir, eru hækkuð, hækkar þá ekki vísitalan? Eru þá stýrivextir og gjaldahækkanir verðbólguhvetjandi? Spyr sá sem ekki veit.

Hjá Seðlabankanum starfa tæplega 300 manns með íslensku krónuna í gjörgæslu. Ekki veitir af því hún hefur átt við langvinn veikindi að stríða og er aftur orðin sárlasin. Þess á milli bíða þeir spenntir eftir útreikningum Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs. Verðbólga reiknast nú 7,9% og þegar þetta er ritað hefur peningastefnunefnd bankans ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%, þeim hæstu í Vestur-Evrópu, að sögn m.a. vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Legg til að Seðlabankinn fái lánaðan einn náttúruvársérfræðing frá Veðurstofunni til að leggja peningastefnunefnd lið. Þeir eru a.m.k. 15 og Veðurstofan því vel aflögufær. Flokkast ekki snjóhengjur undir náttúruvá?

Nú dynja á okkur auglýsingar um mikla afslætti vegna Dags einhleypra, Svarts föstudags og Stafræns mánudags. Þetta eru að vísu mikið til afslættir á sömu vöruflokkum, sem ég veit ekki hvað vega þungt í neysluverðsvísitölunni. Að auki eru þetta bandarísk fyrirbæri aðlöguð að íslenskum veruleika og hrúgast inn á sama tíma. Hvernig væri að íslenskir verslunareigendur brydduðu upp á einhverjum nýjungum? Útsölur hér og tilboð þar, allt árið. Það gæti nú aldeilis haft hressileg áhrif á svokallaða „vörukörfu“. Hagstofan yrði sennilega að bæta við sig mannskap við útreikningana, en þar vinna nú aðeins um 150 manns. Skora á Samtök verslunar og þjónustu að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd undir slagorðinu: „Verðbólga, hvað?“ Það er nefnilega til eitthvert fyrirbæri sem kallast verðbólguvæntingar sem segir víst til um hve mikilli verðbólgu fyrirtæki og almenningur búast við. Og verðbólguvæntingar liggja til grundvallar verðbólguspám, ef ég skil þetta rétt. Hvernig væri að við sameinuðumst um að básúna út í samfélagið að við væntum þess öll saman að verðbólgan verði komin í 2,5% um mitt næst ár? Gefum skít í allar verðbólguspár.

Maður fær stundum á tilfinninguna að verðbólga á Íslandi sé mæld í dagleiðum, ekki metrum. Eitt er víst. Íslenska neysluverðsvísitalan verður seint að staðli og geymd ásamt metranum í bankahólfi í París.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar