fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Er menntun orðin aukaatriði í skólakerfinu?

Eyjan
Sunnudaginn 26. nóvember 2023 17:30

„Hugarreikningur, í Rachinsky-skólanum“ (r. „Устный счёт. В народной школе С. А. Рачинского“). Verk rússneska málarans Nikolay Bogdanov-Belsky frá árinu 1895.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eðlilega hefur komist rót á daglegt líf Grindvíkinga eftir að þeim var fyrirskipað að yfirgefa heimili sín. Fæstir geta sótt vinnu með eðlilegum hætti og nokkuð hefur verið fjallað í fréttum um leiðir til að finna skólastarfi bæjarins samastað, enda eiga nemendurnir lögboðinn rétt á menntun, sem þarf að tryggja. Umræður um þessi mál í fjölmiðlum undanfarna daga vekja aftur á móti upp áleitnar spurningar um hlutverk skóla. Mig langar að nefna nokkur dæmi.

Kennari úr Grindavík sem Morgunblaðið ræddi við sagði skólastarfið núna hugsað „meira sem samveru, en ekki beint að rífa upp bækurnar og vera með einhverja pressu á einhvern lærdóm“. Þau (kennarana þá væntanlega) langaði „að hafa þetta meira svona að við værum með leikföng og hefðum huggulega stemningu fram að jólum“. Umræddur kennari kvaðst ekkert endileg búast við því að öll börnin mæti alla daga þar sem skólastarfið væri „nokkuð frjálst“. Þá lét starfsmaður á skrifstofu umrædds bæjarfélags svo um mælt í vikunni sem leið að engin eiginleg skólaskylda væri fyrir börn úr Grindavík „við þessar aðstæður“ en „lögð verði áhersla á samveru, leik- og vettvangsferðir samhliða þáttum sem styrki farsæld og vellíðan barnanna“.

Við hinar dýru og illskiljanlegu breytingar á Stjórnarráðinu í upphafi kjörtímabilsins var menntamálaráðuneytið lagt niður og málefni grunn- og framhaldsskóla færð undir það sem heitir mennta- og barnamálaráðuneytið — en málefni háskóla sett í sérstakt ráðuneyti. Margir skólamenn sem ég hef rætt við telja misráðið að menntamál séu ekki hugsuð heildstætt í einu ráðuneyti og nú er líka komið á daginn að æ oftar er rætt um skóla sem félagsmálastofnanir. Af umræðunni að dæma mætti jafnvel halda að skólar hafi hreinlega alls ekki það hlutverk að mennta fólk. Þetta gangi bara út á að skólabörnin „hafi huggulega stemningu“ eins og kennarinn úr Grindavík orðaði það, allt snúist um „farsæld og vellíðan“ og það má náttúrlega alls ekki „pressa á einhvern lærdóm“.

Dekur við leti og getuleysi

Þar sem ég var að leita að bók í bókaskápnum hjá mér um daginn rakst ég á endurminningar Guðna Guðmundssonar, rektors Menntaskólans í Reykjavík, sem Ómar Valdimarsson blaðamaður skráði og út komu árið 1992. Ég endurnýjaði kynnin við bókina um Guðna sem var einn þekktasti skólamaður síðustu aldar. Hann lá ekki á skoðunum sínum, auk þess að vera hnyttinn í tilsvörum, og því ekki að undra að blaðamenn leituðu gjarnan álits hans í umræðum um menntamál. Í bókinni segir Guðni það liggja ljóst fyrir að í íslenskum skólum, sérstaklega grunnskólum, beinist kraftarnir umfram allt að því að sjá lökustu nemendum og miðlungsnemendum fyrir þeirri fræðslu sem þeir eru móttækilegir fyrir

„eða öllu heldur þeirri fræðslu sem kennararnir telja þeim nægjanlega. Hinum betur gefnu er varla sinnt, hvað þá að þeir fái hvatningu til átaka eða reynt sé að laða fram í þeim þann sjálfsagða metnað að læra meira í dag en í gær. Í misskilinni góðmennsku kerfisins gleymast þeir hreinlega, hljóta jafnvel svipaða meðferð og óhreinu börnin hennar Evu. Það virðist nefnilega vera að verða álíka mikið feimnismál á Íslandi að krakki sé betur gefinn en hann Jón í næsta húsi og að eiga ríflega til hnífs og skeiðar.“

Fyrir vikið væri varla nokkuð kennt í grunnskóla nema sjálfsagðir hlutir og þær greinar sem eitthvað reyndu á nemendur hreinlega látnar lönd og leið. Úr því að allir gætu ekki lært þær væru þær einskis nýtar. Guðni spurði í þessu sambandi hvar menn héldu að mannkynið væri

„statt á þróunarbrautinni ef slík afstaða hefði ríkt frá upphafi? Ef það er ekki markmið skóla að koma öllum til mesta mögulega þroska, þá sýnist mér dekrið við letina og getuleysið komið á það stig að rétt væri að leggja skóla niður.“

Skólar mega ekki að vera dagvistarstofnanir

Guðni rektor flutti ræðu á ráðstefnu Bandalags háskólamanna árið 1983 þar sem hann lét svo um mælt að hið bráðasta yrði að snúa af þeirri braut

„að líta á skóla almennt sem einhvers konar dagvistir þar sem meginmálið sé að halda börnum af götunni og gæta þess að enginn fái ör á sálina af því að hann geti ekki lært eins margt og mikið og sessunauturinn, og lausnin á þeim vanda talin felast í því að krefjast aldrei meira en þess sem lakasti námsmaðurinn getur innbyrt.“

Þetta er að mínu viti kjarni máls. Gera þarf stórauknar námskröfur í skólum enda sýna reglulegar rannsóknarniðurstöður að hérlendir grunnskólanemar standa öðrum norrænum námsmönnum langt að baki þegar þekking er mæld. Engum nemanda er greiði gerður með því að setja markið svo lágt að hann fái ekki fullnægju af náminu og beri „enga virðingu fyrir sjálfum sér eða skólanum vegna þess að hann sjái í gegnum blekkinguna,“ svo ég noti orðalag Guðna rektors. Og ekki er vonlegt að unga fólkið í Grindavík finni tilgang í að mæta til skóla þar sem engar kröfur eru gerðar til þess, því þetta á bara að vera „hugguleg stemning“ fram að jólum. Fátt myndi einmitt gagnast grindvískum námsmönnum betur hér og nú en að fá þá menntun sem þeir eiga rétt á.

Breyta þarf snarlega þeim hugsunarhætti að skólar séu félagsmálastofnanir og hlúa þess í stað miklu betur að framúrskarandi nemendum, því örsamfélag eins og það íslenska þarf hlutfallslega mun fleiri afburðarmenn en milljónaþjóðirnar. Fátt mun ráða meiru um framtíðarheill þjóðfélagsins en einmitt þetta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!