„Það er frumskylda ríkisstjórnar að standa vörð um þjóðaröryggi og öflugar almannavarnir. Landhelgisgæsla Íslands er stolt okkar sem sjálfstæðrar þjóðar. Nú er svo komið að Landhelgisgæslan þarf að „selja þyrlu, flugvél eða skip“ til að eiga fyrir rekstri. Vegna vanfjármögnunar og vanrækslu á sviði öryggismála,“
segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar.
Segir Kristrún að til að viðhalda óbreyttri starfsemi vanti einn milljarð króna í fjárlög ársins 2024. En samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar þyrfti að styrkja rekstrargrunninn um tvö milljarða króna til að standa undir þeirri þjónustu sem Gæslunni er ætlað að veita um land allt.
„Þá yrði til að mynda mögulegt að starfrækja björgunar- og sjúkraþyrlu á Norðausturlandi – og fjölga um leið áhöfnum til að stytta viðbragðstíma á Vestur- og Suðurlandi. Þannig mætti styrkja til muna sjúkraflutninga í landinu sem og viðbragðsgetu í björgun,“ segir Kristrún sem stendur í dag fyrir sérstakri umræðu á Alþingi í dag um stöðu Landhelgisgæslunnar og þýðingu hennar fyrir þjóðaröryggi og almannavarnir í landinu.
„Þessi staða er til skammar fyrir ríkisstjórnina – ekki síst Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur farið með ráðuneyti fjármála og dómsmála óslitið undanfarinn áratug.“