Birtinga- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur ráðið Benedikt Rafn Rafnsson í starf birtingastjóra. Helstu verkefni Benedikts eru að veita stefnumótandi ráðgjöf og stýra birtingum á innlendum miðlum auk þess að hámarka árangur með samþættingu við erlenda miðla, eins og kemur fram í fréttatilkynningu.
„Ég er spenntur að takast á við nýjar áskoranir og taka þátt í að innleiða nýja nálgun á birtingaráðgjöf fyrir okkar viðskiptavini. Datera hefur skarað fram úr í þjónustu og ráðgjöf á stafrænum miðlum og nú er markmiðið að komast á sama stað með innlendar birtingar. Hámarks árangur af fjárfestingu í birtingum næst með þekkingu, skipulagi og góðri samvinnu.“
Benedikt hefur víðtæka reynslu af markaðs- og birtingastörfum, bæði hér innanlands og erlendis. Hann hefur lengst af frá 2008 starfað við birtingaráðgjöf hjá Jónsson & Lemacks og Aton JL. Árin 2014-2016 starfaði Benedikt sem ráðgjafi hjá birtinga- og rannsóknarsamsteypunni OMD í Noregi, eftir nám í Brand and Communication management við CBS í Kaupmannahöfn.
„Það er mikill fengur að fá Benedikt til að koma með nýja nálgun í birtingaráðgjöf fyrir okkar viðskiptavini og til að stýra öfluga birtingateymi Datera. Vöxturinn hefur verið mikill á síðustu árum og viðskiptavinum fjölgað hratt. Við leggjum áherslu á að ná árangri með okkar viðskiptavinum og veita framúrskarandi þjónustu og þessi ráðning er liður í þeirri vegferð,“ segir Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Datera.