Morgunblaðið segir frá því í dag að bankarnir skoði nú aðgerðir og voru fulltrúar fjármálastofnana og stjórnvalda á fundum um helgina vegna málsins.
Í svari Íslandsbanka segir meðal annars:
„Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum og bankarnir hafa fullan hug á að koma til móts við bæjarbúa með sanngjörnum hætti. Óvissan er ennþá mikil eins og fram hefur komið og mikilvægt að vanda til verka. Niðurfelling á vöxtum og verðbótum er meðal þess sem verið er að skoða.“
Svipaða sögu er að segja af Arion banka og Landsbankanum.
Í frétt Morgunblaðsins segir að jákvæður andi hafi verið á fundunum en ljóst sé að flókið sé að móta fullbúinn aðgerðapakka þar sem hamfarirnar eru enn yfirstandandi. Óvíst sé hvert tjónið er og hvar það endar.
Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði á Alþingi í gær að hún ætti von á að sjá aðgerðir í þessari viku um samfélagslega ábyrgð bankanna.
„Nú er það svo að fjármála- og efnahagsráðherra fer með þessi mál í ríkisstjórninni. Hins vegar fer ég með neytendamálin og sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér. Ég útiloka ekki að það verði bara býsna hressilegt.“