fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Ráðherrar segja viðræður standa yfir við fjármálastofnanir vegna vanda Grindvíkinga

Eyjan
Mánudaginn 20. nóvember 2023 16:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsvert hefur verið rætt um þann fjárhagslega vanda sem steðjar að mörgum Grindvíkingum eftir rýmingu bæjarins. Flestar fjármálastofnanir hafa fryst húsnæðislán þeirra tímabundið en þau munu þrátt fyrir það halda áfram að safna vöxtum og verðbótum. Grindvíkingar hafa bent á að þetta muni reynast þeim ansi erfitt og ill viðráðanlegt í ljósi tekjutaps og þeirrar óvissu sem uppi er um hvenær þeir geta snúið til baka og á meðan þurfi þeir að finna sér leiguhúsnæði í öðrum sveitarfélögum á afar erfiðum og dýrum húsnæðismarkaði.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag spurðu þingmenn stjórnarandstöðunnar bæði Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og Guðmund Inga Guðbrandsson, félagsmálaráðherra um hvort að ríkisstjórnin ætlaði að taka á þessari stöðu. Upplýstu ráðherrarnir um að nú stæðu yfir viðræður við fjármálastofnanir um að leysa betur úr þessum fjárhagslega vanda Grindvíkinga.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði Lilju hvort hún ætlaði sér að treysta alfarið á samfélagslega ábyrgð fjármálastofnana:

„Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu? Ætlar hann að grípa til einhverra aðgerða eða ætlar hann að láta sér nægja að biðla til samfélagslegrar ábyrgðarkenndar bankastofnana og vona það besta?“

Lilja sagðist í svari sínu telja að fjármálastofnanir væru ekki að sýna af sér samfélagslega ábyrgð með því að rukka Grindvíkinga um vexti og verðbætur. Hún sagði viðræður standa yfir og að aðgerða væri að vænta:

„Stjórnvöld eru núna í samtali við fjármálastofnanir og ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum sjá aðgerðir í þessari viku sem munu benda til þess og vera þess háttar að fjármálastofnanir munu sýna fulla samfélagslega ábyrgð. Nú er það svo að fjármála- og efnahagsráðherra fer með þessi mál í ríkisstjórninni. Hins vegar fer ég með neytendamálin og sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér. Ég útiloka ekki að það verði bara býsna hressilegt.“

Þórhildur Sunna vildi fá nánari skýringar á því hvers konar aðgerðir væru í undirbúningi en Lilja svaraði ekki beint hvaða aðgerðir stjórnvöld væru með í undirbúningi og væru að ræða um við fjármálastofnanir til að bregðast frekar við þessum vanda Grindvíkinga gagnvart húsnæðislánum þeirra.

Vill sjá banka gefa eftir

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, fannst Lilja litlu svara og spurði Guðmund Inga Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, út í þessar viðræður við fjármálastofnanir og markmiðin með þeim:

„En hverju ætlar ríkisstjórnin að ná fram? Það er spurning mín til hæstvirts félagsmálaráðherra. Hverju vill ríkisstjórnin ná fram í viðræðum sínum við bankana, eða beri þær ekki árangur þá á eigin vegum í framhaldinu?“

Guðmundur Ingi sagðist ríkisstjórnina vilja að bankar kæmu af meiri krafti inn í það verkefni að styðja við Grindvíkinga sem ættu ekki að þurfa að greiða af húsnæði sínu í Grindavík á meðan þeir greiddu húsaleigu annars staðar. Samstaða ætti að ríkja um að styðja af krafti við Grindvíkinga:

„Þetta er því sameiginlegt verkefni og ég myndi vilja sjá bankana gefa eftir vaxtagreiðslur og verðbætur, eitthvað í þá áttina.“

Sigmundi fannst svör Guðmundar rýr og óljós og vildi fá skýrari svör um hvað ríkisstjórnin ætlaði sér í viðræðum sínum við fjármálastofnanir um að koma meira til móts við Grindvíkinga.

Svaraði ráðherrann því til að verið væri að athuga með frekari stuðning við Grindvíkinga í húsnæðismálum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur

Óttar Guðmundsson skrifar: Happdrættisvinningur