Samtök atvinnulífsins og Samtök Iðnaðarins taka undir með Vilhjálmi Birgissyni, sem fyrir helgi setti fram hugmyndir um nýja þjóðarsátt þar sem „ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslun og þjónusta og í raun allir skuli skuldbinda sig til að hækka ekki gjaldskrár sínar og önnur verð um meira en 2,5% á árinu 2024.“
Vilhjálmur setti þetta fram á Facebook síðu sinni á föstudag. Hann segir komandi kjarasamninga, en samningar á almennum vinnumarkaði renna út eftir átta vikur, séu ein mesta áskorun sem verkalýðshreyfingin hefur staðið frammi fyrir frá bankahruninu 2008.
Hann segir það óþolandi ástand að hér sé 8 prósenta verðbólga og 9,25 prósenta stýrivextir Seðlabankans.
Sjá einnig: Vilhjálmur vill þjóðarsátt: Allir skuldbindi sig til að hækka ekki verð um meira en 2,5% á næsta ári
Eyjan leitaði til Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, og Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, eftir viðbrögðum við þessum hugmyndum Vilhjálms.
Sigurður Hannesson segir SI telja mikilvægt að nýta fjölbreyttar leiðir til að ná efnahagslegum stöðugleika. Hátt vaxtastig og há verðbólga komi niður á bæði heimilum og fyrirtækjum og því aðkallandi að hvoru tveggja lækki. Samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins þurfi til að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum þannig að skapist grundvöllur fyrir lægri vöxtum.
„Þjóðarsátt hefur verið reynd með góðum árangri og því eru allar hugmyndir í þá veru til góða. Vegna samkeppnissjónarmiða getum við ekki tekið afstöðu til þessarar tilteknu hugmyndar,“ segir Sigurður.
Sigríður Margrét Oddsdóttir segir mikilvægustu verkefnin á næstu mánuðum vera þríþætt. „Í fyrsta lagi þurfum við í sameiningu að takast á við náttúruöflin á Reykjanesi. Við þurfum að taka utan um þá sem verða fyrir tjóni, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtækin eða heilu samfélögin. Við munum vinna okkur út úr erfiðleikunum og standa sterkari á eftir. Við höfum gert það áður og við gerum það aftur.
Í öðru lagi þurfum við þjóðarátak í uppbyggingu húsnæðis. Þar er atvinnulífið og byggingariðnaðurinn klár í slaginn, við vitum líka að verkalýðshreyfingin er tilbúin og stjórnvöld hafa sett húsnæðismálin kyrfilega á dagskrá.“
Til þess að ná efnahagslegum stöðugleika og til þess að verja lífskjör segir Sigríður Margrét að í þriðja lagi sé mikilvægt að við náum nýrri þjóðarsátt. „Það er ákall frá þjóðinni um lengri kjarasamninga, meiri fyrirsjáanleika og skynsamlegar kjarabætur sem atvinnulífið stendur undir. Að standa þannig að málum að meira verði eftir í vasa heimilanna en það yrði með launahækkunum umfram innistæðu sem gera ekkert annað en að fóðra verðbólguna. Til þess að slíkt takist þá er rétt hjá Vilhjálmi að allir þurfa að axla ábyrgð, aðilar vinnumarkaðarins, stjórnvöld, sveitarfélög og fyrirtæki.“
Greinilegur samhljómur er milli SI og SA varðandi mikilvægi þess að gera átak í uppbyggingu húsnæðis. „Samtök iðnaðarins hafa lengi talað fyrir því að jafnvægi verði náð á íbúðamarkaði sem hefur að undanförnu einkennst af skorti. Jafnvægi á íbúðamarkaði næst ef jafnvægi er á byggingamarkaði, þ.e. ef nægilega margar íbúðir eru byggðar. Of lítið hefur verið byggt undanfarin ár og útlit er fyrir að of lítið verði byggt á næstu árum. Því er jafnvægi ekki í sjónmáli nema ráðist verði í mikla uppbyggingu,“ segir Sigurður. Hann bendir á að aðilar vinnumarkaðarins hafi hvatt mjög til þess að ráðist verði í umbætur á húsnæðis- og byggingamarkaði í þágu jafnvægis, lægri verðbólgu og lægri vaxta. „Spjótin beinast að sveitarfélögunum en skortur hefur verið á lóðum og skipulagi. Verkefnið verður ekki leyst nema ríki, sveitarfélög og byggingariðnaðurinn taki höndum saman. Verkefnið um nægan fjölda íbúða hefur stækkað enn frekar með náttúruhamförunum í Grindavík. Um það verður ekki deilt að íbúðauppbygging er velferðarmál því allir þurfa þak yfir höfuðið en íbúðauppbygging er ekki síður efnahagsmál. Afleiðingar af skorti á íbúðum hafa komið fram í hækkun íbúðaverðs, verðbólgu og háum vöxtum sem vegur að heimilum og fyrirtækjum í landinu.“
Sigríður Margrét og Sigurður segjast bæði hafa fundið fyrir vilja hjá ríkisstjórninni til að leysa þennan vanda og Sigurður segist gera ráð fyrir því að sveitarfélögin láti sitt ekki eftir liggja og „sýni vilja í verki með framboði á lóðum og skipulagsbreytingum. Byggingariðnaðurinn er reiðubúinn að byggja þann fjölda íbúða sem þörf er fyrir og upp á vantar. Það sást vel hversu fljótt byggingariðnaðurinn getur brugðist þegar reisa átti varnargarða við Grindavík. Þar voru bæði mannskapur og tækjabúnaður tilbúin að hefjast handa um leið og löggjöf þar að lútandi var samþykkt á Alþingi. Nú er unnið þar dag og nótt við að reisa garðana og það sama þarf að gerast þegar fyrir liggur hvar á að setja niður nýjar íbúðir.“
Sigríður Margrét tekur undir með Vilhjálmi Birgissyni og segir: „Verðbólga sem er um 8 prósent og stýrivextir sem eru 9,25 prósent eru einfaldlega ólíðandi.“