fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Öfundina má yfirvinna

Eyjan
Sunnudaginn 19. nóvember 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið getur öfundin verið sterkt afl í mannssálinni. Ég ætlaði hreinlega ekki að trúa því þegar ég heyrði þær fréttir að einhverjir væru teknir að agnúast út í Grindvíkinga og öfundast yfir þeirri hjálp og stuðningi sem þeim er veitt í þeim ömurlegu aðstæðum sem blasa við þeim. Þetta er svo sem ekkert nýtt. Vestmanneyingar máttu þola það sama á sínum tíma og jafnvel var til í dæminu að einhverjir tryðu því að þeir hefðu grætt á gosinu.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig svona hugsanagangur kviknar. Er virkilega til fólk sem er svo ófært um að setja sig í spor annarra að það skilji ekki að peningar geta aldrei bætt þér missi heimilis þíns. Og jafnvel þótt í staðinn kæmi upphæð sem raunverulega mætti fjárhagslega tapinu þá hefur viðkomandi samt tapað púðanum sem amma saumaði út, myndunum af börnunum sínum, dyrakarminum þar sem hæð barnanna var mæld meðan þau uxu upp og útsýninu sem hann dáðist að á hverjum morgni áður en hann fór í vinnuna. Þetta eru verðmæti.

Peningar eða hlunnindi önnur hafa lengi verið ein leið til að bæta fólki tjón. Við sýnum samúð með því að færa nágrannanum mat, blóm eða kerti þegar honum líður illa. Við styðjum heimili sem misst hafa fyrirvinnu, móður eða föður, með því að létta af eftirlifendum fjárhagsáhyggjum. Fólk sem hefur slasast fær stuðning til að ná sér í formi styrkja og gjafa frá einstaklingum jafnt sem opinberum aðilum. Fáir ef nokkrir sjá nokkuð athugavert við það og fagna því jafnvel að svo vel sé haldið utan um fólk í samfélagi okkar. Hvers vegna ætti það að breytast þegar um heilt bæjarfélag er að ræða? Er öfundin fljótari að kvikna þegar svo margir eru í neyð? Það er ekki auðvelt að svara þessum spurningum og sjálfsagt ekkert einhlítt svar við þeim. Hins vegar ætti hver og einn að líta í eigin barm og velta fyrir sér hvernig honum myndi líða ef hann lenti í þeirri stöðu að þurfa að flýja heimili sitt.

Nú þegar flestir landsmenn eru farnir að undirbúa jól, taka fram jólastjörnur og ljós, kveikja á kertum og jafnvel baka smákökur eru Grindvíkingar á hrakhólum. Sumir eru inni á ættingjum í litlu rými, aðrir í sumarbústöðum með helstu nauðsynjar og ekkert umfram það, enn aðrir í tómum íbúðum biðlandi til annarra um húsgögn sem þeir eru hættir að nota. Hvernig er hægt að öfunda nokkurn af þessu?

Fyrir utan þessi óþægindi er fólk hrætt. Það veit enn ekki hvort eða hvar hraun mun koma upp á Reykjanesskaganum, hvort húsin þeirra eru óhult eða ekki og hvort bærinn þeirra verður nokkurn tíma byggilegur aftur. Óvissan er hræðileg. Ótal margir sem gengið hafa í gegnum hremmingar segja einmitt það; óvissan er verst. En það síðasta sem manneskja í slíkum aðstæðum þarf á að halda er fá yfir sig nöldur og nagg smásálar rekinnar áfram af öfund. Og öfundina má yfirvinna, hún er niðurrifsafl. Örlátur maður öfundar ekki aðra. Hann gleðst yfir velgengni vina sinna og finnur til stolts þegar hann finnur að hann lifir í samfélagi manna sem láta sig varða velferð annarra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar