Sveitarstjórn Skagabyggðar í Austur-Húnavatnssýslu hefur samþykkt að hefja samtal um sameiningu sveitarfélagsins við Húnabyggð. Áður hafði frekar verið búist við því að Skagabyggð myndi sameinast Skagaströnd, enda liggur sveitarfélagið bæði norðan og sunnan við hana.
Staðarmiðillinn Húnahornið greinir frá þessu.
Segir þar að starfshópur um sameiningarvalkosti Skagabyggðar hafi skilað niðurstöðu og Húnabyggð orðið ofan á. Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur einnig samþykkt að hefja samtal.
Kosið var í júní árið 2021 um sameiningu allra sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu. Hún var samþykkt í Blönduósbæ og Húnavatnshreppi en felld í Skagabyggð og Skagaströnd. Var andstaðan mest á Skagaströnd.
Seinna samþykktu íbúar tveggja fyrrnefndu sveitarfélaganna að sameinast í Húnabyggð. Um haustið var gerð könnun á vilja íbúa Skagabyggðar og Skagastrandar að sameinast. Stuðningurinn var yfir 90 prósent á Skagaströnd, þar sem búa um 500 manns, en rétt rúmlega helmingur í Skagabyggð, þar sem búa innan við 100.
Mikil gerjun er í sameiningarmálum þessi misserin. Nýverið samþykktu íbúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps sameiningu. Á Vestfjörðum hefur Árneshreppur einnig óskað eftir sameiningarviðræðum og bæði Strandabyggð og Ísafjarðarbær brugðist jákvætt við erindinu.
Á Vesturlandi hafa Borgarbyggð og Skorradalshreppur ákveðið að hefja samtal um sameiningu. Sveitarstjórn Dalabyggðar skoðar einnig kosti, austur til Húnaþings vestra eða vestur til Stykkishólmsbæjar eða jafnvel norður til Stranda.
Í Eyjafirði hafa fulltrúar Svalbarðsstrandarhrepps látið gera valkostagreiningu og kannað hug íbúa. Vilja flestir hefja viðræður við Eyjafjarðarsveit um sameiningu.
Á Reykjanesi voru hafnar þreifingar af hálfu sveitarfélagsins Voga um sameiningu, einkum við Grindavíkurbæ. Af skiljanlegum ástæðum er það ekki líklegt í bráð.