fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Óhófsandi og skattasýki

Eyjan
Sunnudaginn 19. nóvember 2023 17:30

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Haralds sögu gráfeldar í Heimskringlu segir Snorri frá því að á dögum Gunnhildarsona á ofanverðri tíundu öld hefði árferði spillst í landi

„því að konungar voru margir og hafði hver þeirra hirð um sig. Þurftu þeir mikils við um kostnað og voru þeir hinir fégjörnustu en ekki héldu þeir mjög lög þau, er Hákon konungur hafði sett nema það er þeim þótti fellt.“

Þetta er endurtekið stef í fornsögum — lýst er andstyggð á óhófslífi konunga, skattpíningu og virðingarleysi fyrir lögum og rétti.

„Tímabundin skattheimta“

Adam Smith komst svo að orði í Auðlegð þjóðanna að enga list lærði ein ríkisstjórn fljótar af annarri en þá að næla sér í fé úr vösum almennings (e. „draining money from the pockets of the people“). Og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lætur sér ekki úr greipum ganga tækifæri til nýrrar skattlagningar. Nú skulu fjármunir sóttir í vasa húseigenda í nafni jarðhræringa á Suðurnesjum en skatturinn ef nefndur því fróma nafni „forvarnargjald“. Nýi skatturinn er hugsaður til að standa straum af kostnaði við framkvæmdir við að vernda orkumannvirki og fleiri samfélagslega mikilvæg mannvirki á Suðurnesjum vegna hættu á eyðileggingu af völdum náttúruhamfara.

Margir hafa hent gaman að því forsætisráðherra skyldi kalla skattinn „tímabundinn“ og rifjað upp að í jarðeldunum á Heimaey fyrir réttri hálfri öld hefði ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar fengið samþykkta hækkun söluskatts um tvö prósentustig „tímabundið“ til að standa undir kostnaði við endurreisn í Vestmannaeyjabæ. Sá skattur var aldrei afnuminn. Orðskviðurinn „ekkert er jafnvaranlegt og tímabundin skattheimta“ hrekkur af vörum margra þessi dægrin sem vonlegt er.

Engin þörf á skattinum

Ekki hefur tekist að sýna fram á að nokkur þörf sé á hinum nýja skatti. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsson, þingmaður Viðreisnar, benti til að mynda á í umræðum á Alþingi í liðinni viku að í „almennum varasjóði“ sem gert væri ráð fyrir í fjárlögum lægju 35 milljarðar króna en ríkisstjórnin ætlaði að ráðast í framkvæmdir við varnargarða og fleira því tengt fyrir tvo milljarða. Þorbjörg mælti:

„Það fer að mínum dómi gegn markmiðum laga um opinber fjármál að ætla að sækja fjármunina með þessari skattheimtu sem ríkisstjórnin er hér að leggja til því að það er einfaldlega ekki þörf á því.“

Þá kom fram í frétt Ólafs Arnarsonar blaðamanns hér á vefnum í vikunni sem leið að kostnaður við varnargarða við orkumannvirki á Suðurnesjum væri áþekkur þeim sem fylgdi fjölgun ráðuneyta í byrjun kjörtímabilsins. Sá samjöfnuður er æði vandræðalegur fyrir ríkisstjórnina.

Skjaldborg um breskan vogunarsjóð

Fyrirhugaðar framkvæmdir við varnargarða á Suðurnesjum eru tilefni margs konar vangaveltna. Hvernig er til dæmis hægt að staðsetja varnargarða ef sáralítið er vitað um hugsanleg upptök jarðelda í framtíðinni? Þá velti Týr Viðskiptablaðsins því upp á dögunum hvers vegna í ósköpunum húseigendur á Íslandi ættu að greiða „enn einn nýjan skatt til að verja eigu félags sem sérhæfir sig í nýtingu jarðhita, með allri þeirri hagnaðarvon og tapsáhættu sem því fylgir“ og benti á að helmingshlutur í HS Orku væri í eigu bresks vogunarsjóðs, Ancala Partners:

„Mikið hljóta þeir þarna í London að hlægja sig máttlausa yfir heimsku okkar Íslendinga. Að ætla að minnka áhættu þeirra verulega með því að byggja varnargarð og láta einhvern annan borga fyrir hann.“

Nýi skattur ráðherrans vekur upp fleiri spurningar, en hvers vegna eiga húseigendur einir að greiða fyrir varnargarð í kringum fyrirtæki? Og svo bætist við, líkt og Þorbjörg Sigríður benti á, að skattlagningin er óþörf — ríkisstjórnin bara stenst ekki mátið að leggja á nýja skatta.

Stjórnlaus útgjöld

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir hefur fyrir löngu þrotið örendið en ráðherrarnir hanga samt sem áður á stólunum, enda sóknin í völd og vegtyllur allri pólitík yfirsterkari. Meginástæða þess að stjórnin er ekki löngu farin frá liggur einfaldlega í því að skatttekjur hafa aukist gríðarlega síðustu misseri, og ráðherrarnir fá að eyða fjármunum að vild í gælumál hvers og eins. Og þrátt fyrir allan tekjuaukann er ríkissjóður rekinn með miklum halla ár eftir ár undir „traustri fjármálastjórn“ Sjálfstæðisflokksins.

Vandi ríkissjóðs, sem og borgarsjóðs, liggur ekki í lágum tekjum heldur stjórnlausum útgjöldum. Ríki og borg hefur brostið vilja til að hafa hemil á eyðslunni og af því hlotist þrálát skuldasöfnun. Þannig hefur beinlínis verið unnið gegn stöðugleika og ríkissjóður og borgarsjóður mun verr í stakk búnir til að mæta óvæntum útgjöldum en ella.

Ráðdeild og sparnaður eiga ekki upp á pallborðið í pólitík okkar samtíma og það vekur ugg að helsta gagnrýni stjórnarandstöðunnar á fjárlög nú sem undangengin ár er einkum sú að ekki sé nógu miklu fé varið til hins eða þessa málaflokksins. Æskilegt væri að fram kæmu stjórnmálamenn sem legðu áherslu á sparnað og ráðdeild í opinberum rekstri. Segir mér hugur að slík sjónarmið eigi sér mikinn hljómgrunn meðal almennings sem fengið hefur sig fullsaddan af sífellt aukinni skattpíningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?