fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Við höfum brugðist landbúnaðinum

Eyjan
Laugardaginn 18. nóvember 2023 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Engri atvinnugrein hefur ráðandi stjórnarfar á Íslandi brugðist jafn hrapallega á síðustu áratugum og landbúnaðinum. Hann hefur verið skilinn eftir úti á berangri. Og sjálfsagt er hægt að taka dýpra í árinni og segja að hann hafi mátt éta það sem úti frýs.

Í öllu falli hefur hann setið eftir innan Evrópulanda.

Og óneitanlega verður landsmönnum, sem horfa núna upp á mestu kreppuna sem riðið hefur yfir íslenskan landbúnað í manna minnum, starsýnt á þá tvo stjórnmálaflokka sem hafa ráðið lögum og lofum hér á landi svo að segja allan lýðveldistímann. Hafa þessi miklu valdaflokkar, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa sannarlega verið á þessum tíma, í raun og sann haft engan áhuga á sjálfstæði og framsókn þessarar mikilvægu atvinnugreinar?

Það er von að spurt sé.

Íslenskur landbúnaður er nefnilega á heljarþröm vegna hækkunar vaxta og verðs á aðföngum sem bitnar ekki síst á nýliðun og nýsköpun í greininni. Sauðfjárbændum hefur fækkað um fimmtung á síðasta áratug og mjólkurframleiðendum um fimmtán af hundraði. Fyrir vikið blasir nú viðvarandi nautakjötsskortur við og yfir tuttugu þúsundum færri lömbum var slátrað í haust en á árinu þar á undan.

Það lifir varla nokkur maður af landbúnaði á Íslandi.“

Þessar tölur tala sínu máli, en sýnu alvarlegastar eru þau þær sem lúta að launakjörum bænda, hringinn í kringum landið. Samkvæmt útreikningum á hagdeild Bændasamtakanna ættu laun bænda að vera í námunda við eina milljón á mánuði til að standa straum af fjárfestingum, fóðri og vinnuframlagi, en raunveruleikinn er aftur á móti sá að margir bændur sitja uppi með tveggja milljóna króna árslaun.

Staðan er því þessi. Það lifir varla nokkur maður af landbúnaði á Íslandi.

Og þetta er niðurstaða stjórnmálastefnu sem hefur einfaldlega gleymt elstu atvinnugreininni í landinu.  Staðreyndin er nefnilega sú að stuðningur við íslenskan landbúnað hefur dregist stórlega saman, langtum meira en þekkist innan Noregs og ESB.

Norðmenn huga miklu betur að sínum landbúnaði en Íslendingar, meðal annars með beinum markaðsaðgerðum, ríkulegum fjárfestingastyrkjum, víðtækum undanþágum frá samkeppnislögum og sköttum. Í Noregi teljast styrkir til tiltekinna landsvæða ekki einu sinni til tekna. Þeir eru skattfrjálsir.

Ein meginstoða í regluverki ESB varðar stuðning við landbúnað til að tryggja matvælaöryggi, hefðir og nýsköpun. Og þar er norðurhjarinn tekinn út fyrir sviga og studdur sérstaklega, vegna menningararfleifðar, atvinnuöryggis, jafnréttis og byggðafestu. Það er vegna þess að 40 prósent af löndum ESB er ræktarland, en rétt ríflega fimm prósent hér á landi, svo dæmi sé tekið. Af sömu ástæðu er finnskum og sænskum bændum hampað sérstaklega innan ESB.

En það hefur enginn áhugi verið á því að fara aðra leiðir í landbúnaði en þá íslensku í allan þennan tíma. Enginn. Enda hefur allt sem að utan kemur þótt í besta falli hættulegt.

Eftir sem áður blasir við að landsmenn vilja treysta framsækinn landbúnað í sessi. Þeir eru í liði með bændum. Og hafa alltaf verið. En stjórnmálin augljóslega ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
11.11.2024

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón