fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Eyjan

Vilhjálmur vill þjóðarsátt: Allir skuldbindi sig til að hækka ekki verð um meira en 2,5% á næsta ári

Eyjan
Föstudaginn 17. nóvember 2023 13:24

Vilhjálmur Birgisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, verslun og þjónusta og í raun allir skuli skuldbinda sig til að hækka ekki gjaldskrár sínar og önnur verð um meira en 2,5% á árinu 2024.

Þetta kemur fram í pistli sem Vilhjálmur birti á Facebook-síðu sinni í dag. Kallar hann eftir einhvers konar þjóðarsátt vegna komandi kjarasamninga, en aðeins átta vikur eru þar til samningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út. Segir hann að framundan sé ein mesta áskorun sem veraklýðshreyfingin hefur staðið frammi fyrir frá bankahruninu 2008.

Nefnir hann 8 prósenta verðbólgu og stýrivexti upp á 9,25% sem hann segir hafa valdið miklum búsifjum hjá heimilum, neytendum, launafólki, bændum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Mikið mæðir á heimilum landsins

„Allir vita að stökkbreytt húsnæðislán hafa valdið því að vaxtabyrði heimila hefur hækkað jafnvel um hundruð þúsunda á mánuði og hinum megin við hornið er snjóhengja af óverðtryggðum húsnæðislánum sem eru að koma til vaxtaendurskoðunar á næstu mánuðum. Þessu til viðbótar hefur leiguverð og matarverð ásamt öðrum nauðsynlegum kostnaðarliðum heimilanna hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum svo eitthvað sé nefnt.“

Vilhjálmur segir að fjármálakerfið hafi varpað öllum sínum vanda á herðar neytenda og heimila og segir hann að verkalýðshreyfingin sé sammála um að þetta ástand geti ekki gengið lengur upp.

„Enda skiptir „engu“ máli hversu háar launahækkanir við náum að semja um ef allt er hirt af launafólki í formi okurvaxta og himinhárra þjónustugjalda fjármálakerfisins ásamt því að allir aðrir kostnaðarliðir heimilisbókhaldsins hækka gríðarlega.“

Sturlun sem verður ekki látin átölulaus lengur

Bendir Vilhjálmur á að stéttarfélögin innan ASÍ séu sammála um mikilvægi þess að fara sameinuð inn í þetta risastóra verkefni sem komandi kjarasamningar eru.

„Það má kalla þetta verkefni sem lýtur að komandi kjarasamningum hvað sem er, þess vegna „þjóðarsátt“ því hreyfingin er sammála um að þessi sturlun sem hér ríkir þar sem stór hluti ráðstöfunartekna heimilanna fari ætíð í gin fjármálakerfisins verði ekki lengur látin átölulaus.“

Vilhjálmur segir að í slíkum þjóðarsáttarsamningi, sem myndi byggjast upp á formi lífskjarasamnings, þyrfti gríðarlega margt að koma til svo að verkalýðshreyfingin gæti tekið þátt. Það muni þó ekki standa á verkalýðshreyfingunni að vera með ef aðrir tækju þátt. „Og á ég þá við allir,“ segir hann.

Þörf á ítarlegri rótargreiningu

Vilhjálmur segir að fara þyrfti í rótargreiningu á íslensku samfélagi og leita meðal annars skýringa á því hvers vegna vextir hér eru jafn háir og raun ber vitni. Þá verði því svarað hvers vegna Ísland sé svo til eina þjóðin sem býður upp á verðtryggð húsnæðislán.

„Já, rótargreining þar sem spurningum verði svarðar eins og hví skiptir fjármálastöðugleiki fjármálakerfisins öllu máli á meðan fjármálastöðugleika heimilanna er fórnað á blóðugu altari fjármálakerfisins slag í slag.“

Vilhjálmur segir að verkalýðshreyfingin hafi nefnt við Samtök atvinnulífsins að hún sé tilbúin í langtímasamning á grundvelli þess að tekið verði á þessum gríðarlegu kostnaðarhækkunum á öllum sviðum samfélagsins.

„Einnig að ráðist verði hér í kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem lúta að því að neytendum standi til boða sambærileg vaxtakjör og bjóðast á Norðurlöndunum. Samhliða því að tilfærslukerfin verði lagfærð með því markmiði að létta undir hjá lág- og millitekjufólki.“

Ekki allir í sama báti í dag

Vilhjálmur leggur áherslu á að allir þurfi að vera í sama báti þegar kemur að því að leiðrétta þessa stöðu sem hér ríkir.

„Ef við erum öll saman í þessum báti þá spyr ég af hverju eru öll sveitarfélög að kynna gjaldskrárhækkanir sem eru þetta frá 5,5% upp í allt að 10% ásamt því að einstaka liðir eins og skólamáltíðir eru að hækka um 20% eins og hér á Akranesi.

Kallast þetta að vera í sama báti? Nei, að sjálfsögðu ekki og sem dæmi þá mun þessi hækkun hér á Akranesi kosta fjölskyldu sem er með 2 börn í grunnskóla og eitt á leikskóla uppundir 10 þúsund krónur í hækkun á mánuði. Til að vera með 10.000 í ráðstöfunartekjur þarftu launahækkun sem nemur 14 þúsund krónum en takið eftir þá eiga allar aðrar kostnaðarhækkanir eftir að koma til viðbótar.“

Nauðsynlegt að allir séu með

Vilhjálmur segir ljóst að ef sveitarfélögin og allir aðrir ætli sér ekki að vera með þá sé ljóst að ekkert verði af slíkri þjóðarsátt.

„Enda ætlar launafólk sér ekki að vera eitt um borð í þessum báti sem ýtt yrði úr höfn og búið væri að opna fyrir botnlokann og launafólk yrði bjargarlaust í sökkvandi báti. Ef Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld meina eitthvað með því að við séum öll um borð í sama báti og eigum að róa í sömu átt þá skulu þau sýna það í verki.“

Í þessu samhengi segir hann að allir aðilar, allt frá ríki til aðila í verslun og þjónustu, þurfi að skuldbinda sig til að hækka ekki gjaldskrár sínar á næsta ári um meira en 2,5%.

„Síðan skiptir mestu máli að ráðast að þessu fjármálakerfi sem er allt að drepa hér á landi með okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum. Nú er boltinn hjá Samtökum atvinnulífsins, stjórnvöldum og sveitarfélögum ef þið viljið „þjóðarsátt“ þar sem allir taka þátt þá er ég sannfærður um að ekki mun standa á verkalýðshreyfingunni! Hins vegar mun verkalýðshreyfingin ekki taka þátt ef aðrir ætla sér að spila sig stikkfrí!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“