fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Að breyta sjálfum sér

Eyjan
Föstudaginn 17. nóvember 2023 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fæstir komast í gegnum lífið áfallalaust, þjáningin er hluti af mannlegri tilveru, ljós og skuggar. Áföll geta orðið að einskonar forritunarvillum í viðbragðskerfi okkar og valda jafnvel hegðunarmynstrum seinna á lífsleiðinni sem eru illskýranleg.

Ég fór að rekast á ýmislegt í mínu fari á fullorðinsárum sem var hreint ekki lógískt og jafnvel öldungis fáránlegt. Þá er ég ekki að tala um það sem kalla mætti skapgerðarbresti sem ég er vissulega prýdd heldur er ég að tala um það að haga mér undir vissum erfiðum kringumstæðum eins og þrjóskur reiður krakki, harðfullorðin manneskjan. Að rangtúlka gjörðir annara mér í óhag þegar fólk vildi mér ekkert annað en vel. Að stökkva upp á nef mér og jafnvel teygja mig í boxhanskana þó engin væri ógnin.

Það er ekkert gaman að horfast í augu við það að vera gallagripur en þegar maður áttar sig á að maður sé hugsanlega rangstæður og uppfullur af kerfisvillum þá fer það að verða hugsanlegt að taka fetið í átt að betri líðan og freista þess að endurstilla forritið. Maður verður þreyttur á þessum illskiljanlegu kenjum í sjálfum sér.

Við sitjum uppi með okkur sjálf og ef við gefum okkur að því, þá má merkja að meinlegar villur af þessu tagi láta á sér kræla aftur og aftur og sýna sig sérstaklega þegar maður heldur að manni hafi loks farið eitthvað fram.

Veröldin er stöðugt að kenna manni auðmýkt. Jarðskorpa Íslands er einmitt með okkur í slíkri erfiðri kennslustund núna. Við erum öll eilífðarnemendur og best að sættast við þennan skólabekk. Öll tilvistin er eins og gangur hafsins, það flæðir að og frá. Við stjórnum litlu ef að er gáð og tilraunir okkar til þess arna oft óburðugar. Ég á í það minnsta langt í land með stýra mínum andlegu sjávarföllum.

Ég þykist samt hafa skilið að það er eingöngu á mína ábyrgð að reyna að skilja eigin líðan og þar með hegðun mína. Það getur engin önnur manneskja lagað Steinunni Ólínu en mér er skylt að reyna það, mín vegna. Tilvist raunverulegra og ímyndaðra andstæðinga hefur ekkert að gera með mína heill. Þeir eru glataðir viðgerðarmenn og eiga víst eins og allir nóg með sig.

Þetta heitir víst að taka ábyrgð á eigin líðan og gjörðum. Það er hægara sagt en gert en óhjákvæmilegt vilji maður ekki lifa í frjálsu falli í heimi, sem er í villusamhenginu áðurnefnda, að því er virðist, manni óvinveittur.

Þeir sem hafa þjáðst fyrir einhverjar sakir upplifa gjarnan einsemd, getuleysi, valdaleysi, niðurlægingu og jafnvel skömm. Skömm yfir því að hafa verið smækkaðir eða dæmdir til einsemdar á einhvern hátt og jafnvel skömm yfir því að hafa ekki getað varið sig og stundum aðra, þótt aðstæður til sjálfsvarna hafi verið engar.

Svo bætist við sem er enn verra að hafa jafnvel ekki varið sig þegar maður gat og hefði með réttu ekki átt að láta bjóða sér eitt eða annað. Að horfast í augu við mölvaða sjálfsmynd sem hafði sig ekki til varnar og hatast jafnvel við sjálfan sig fyrir vikið. Hugsa aftur í tímann, hvað var ég að pæla? Hvers vegna lét ég bjóða mér þetta? Sjálfshatur speglast stundum í hatri til annarra því það er auðveldasta flóttaleiðin en færir manni engan bata. Hatrið fæðir bara af sér meira hatur og vanlíðan. Og hatrið er klárlega rangan á óttanum. Miskunnarleysi manns sjálfs gagnvart sjálfinu er verst og hin erfiðasta höfnun. Það er kalt í því helvíti.

Það geta verið rammar tilfinningar sem búa um sig í líkamanum sem rúmar auðvitað andann líka og um þetta hafa verið skrifaðar vinsælar bækur. Áfallameistarar heimsins keppast við að leiða okkur í þann skilning að áfall, það er atburðurinn eða þjáning sú, sem við höfum lifað af, sé ekki stóra málið heldur skemmdirnar eða sárin sem áfallið veldur okkur til langs tíma, bæði andleg og líkamleg. Og að sáttin við sig sjálfan, með því ljósi og þeim skuggum sem allir bera, sé meginatriði. Og þar með skilja að við manneskjurnar erum öll ljós og skuggar.

Að fá skilning annara og viðurkenningu á því að þú hafir þjáðst eða verið ranglæti beittur dugar samt ekki til. Að heilt samfélag standi með þolendum af öllu tagi dugar heldur ekki til. Nægir ekki til að leiðrétta sársauka þann og kerfisvillurnar sem geta setið eftir í manni sökum áfalla. Ef leiðakerfið innra er brotið og laskað og ekkert er að gert, verða vegirnir áfram illfærir og árekstrar og utanvegaakstur óhjákvæmilegur jafnvel um ókomna tíð.

Það er ekki nóg að skilja með höfðinu allt það sem gerðist og geta sagt frá því í smáatriðum. Fólk getur kjaftað sig frá öllu og þannig fjarlægt sig frá því sem erfitt er, því með sæmilegan heila geturðu sálgreint sjálfan þig og aðra nálægt þér. Þú getur jafnvel skilið stöðu þeirra sem eru hluti af þinni sögu og gerðu eitthvað meðvitað eða ómeðvitað á þinn hlut. Sumir ljá hræðilegum hlutum meira að segja sögulegan blæ í sjálfsvörn. Það slær á en lagar ekki skemmdirnar sem áfallið olli.

Að leggjast í lamandi hyldýpi sjálfsvorkunnarinnar og svamla þar um einn og stundum með öðrum sem líkt hafa reynt. Þar er gott að vera um stund og fá áheyrn annara, sem skilja, sem hafa reynt. Að mæta skilningi og samkennd er gott, það þekki ég, en læknar samt ekkert. Það tekur enginn sársaukann frá þér. Þú hefur kannski stundaröryggi og skjól en samtryggingin tryggir aðeins skammgóðan vermi, sárið er þarna enn með sín villuboð og heimurinn er þarna eftir sem áður, með sitt ljós og sína skugga og ekkert sérlega geðslegur alltaf.

Samfélag getur gert sitt til að styðja þá sem líða en bara svo mikið. Með beinni fyrstu hjálp fyrir þá sem verða fyrir áföllum en eftirleikurinn er því miður einmanaleg barátta hvers og eins. Og þann þjáningarveg gengur hver og einn aldrei fyllilega öðruvísi en einsamall þó styðjast megi við, úr myrkrinu við leiðbeiningar velmeinandi.

Samfélag getur ekki með slaufunum, söguförðun, þöggun, eða málhreinsunum varið fólk gegn því að vera minnt á það að lífið hefur ekki verið einn samfelldur dansleikur. Slíkur heimur, þar sem allir eru í skjóli frá því að vera minntir á að heimurinn er bæði ljós og skuggar, er og verður aldrei til.

Í slíkum heimi mættu engin börn vera að leik til að verja barnlausa sorgarviðbrögðum. Pör mættu ekki leiðast á almannafæri til að minna ekki ekkla og ekkjur á ástvinamissi. Foreldrar alls ekki knúsa börn sín á almannafæri til að vekja ekki upp sárar æskuminningar vanræktra. Bílar alls ekki aka á götum til að verja þá sem hafa misst ástvini í bílslysum og svo framvegis.

Þjáningarvegurinn er, þrátt fyrir að vera engin skemmtiganga, lærdómsríkur og fararinnar virði. Því það verður að vera hægt að vera til eftir áföll! Og ekki lifa bara einhverri þjáningarfullri hálftilveru heldur reyna að ná sæmilegri sátt við sig og heiminn.

Ég spyr mig stundum þegar villurnar banka og gamalkunnugt viðbragð gerir vart við sig? Hvað er hér á ferðinni? Hvers vegna bregst ég svona við? Er eitthvað að óttast? Er sá ótti raunverulegur, hér og nú, eða eru þetta leifar af einhverju eldgömlu drasli sem lúrir í mér og truflar mig? Kannski bara viðbragðssár sem eiga ekkert upp á dekk í núverandi aðstæðum? Er þetta sem ég finn, eðlilegt í þessum aðstæðum, því líkamlega tilfinningin sem fylgir er sannarlega raunveruleg eða er þetta bara afurð lélegs heilaspuna sem á rætur sínar að rekja til forritunarvillna sem leynast innra með mér? Í mínu tilfelli er það oftar en ekki svo.

Stundum næ ég að bregðast við villunum í tæka tíð og þakka þeim innlitið en afþakka aðkomu þeirra, en alls ekki alltaf. Ég er á skólabekk. Að læra að þekkja innra vegakerfið er áhugavert. Við erum öll ljós og skuggar og þegar við mætum eigin skuggum og skuggum annarra, þá er vert að muna, að líka þar, býr ljós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim