Fasteignasalan Miklaborg verður með sérstakan hlutdeildarlánadag að Lágmúla 4 á morgun laugardag kl. 13-15 þar sem sérfræðingar stofunnar munu kynna fyrir fólki hlutdeildarlán og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að geta fjármagnað húsnæðiskaup með slíkum lánum.
Hlutdeildarlán eru úrræði fyrir tekju- og eignaminni fyrstu kaupendur. Lántakandi leggur fram eigið fé sem þarf að vera að lágmarki 5% umfram skuldir. LÍN skuldir eru þó ekki taldar með og greiðslur frá LÍN eru ekki taldar til tekna. Sé eigið fé umfram 6,5% kemur það sem umfram er til lækkunar á hlutdeildarláninu.
Lánin eru vaxta- og afborgunarlaus. Þau eru veitt til 10 ára en lántakandi getur einhliða framlengt um 5 ár í senn, þó að hámarki til 25 ára. Lánin greiðast til baka við sölu fasteignar í hlutfalli af söluverði.
Fyrstu kaupendur eða aðilar sem hafa ekki átt íbúð í 5 ár geta sótt um hlutdeildarlán. Umsækjendur þurfa að standast greiðslumat hjá viðskiptabönkum eða lífeyrissjóðum og má greiðslubyrði ekki fara upp fyrir 40% af ráðstöfunartekjum skv. reglum Seðlabanka Íslands. Kaupendur geta sótt um hlutdeildarlán þegar þeir hafa fundið rétta eign eða sótt um lánsvilyrði sem gildir þá í þrjá mánuði frá því að það er gefið út. Ákveðin skilyrði eru sett varðandi lágmarksstærð og hámarksverð íbúða.