Talsverð úlfúð virðist ríkja vegna nýs skatts sem lagður verður á landsmenn til að fjármagna byggingu varnargarðs sem verður reistur utan um HS Orku í Svartsengi og Bláa lónið.
Alþingi samþykkti í gærkvöldi frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesi. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 2,5 milljarðar króna og verður þetta fjármagnað með gjaldi sem leggst á allar húseignir næstu þrjú árin og nemur 0,008% af brunabótamati.
Svo dæmi séu nefnd myndi gjaldið nema 4.800 kr. á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 60 milljónir króna og 8.000 krónur á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 100 milljónir króna.
Ekki er gert ráð fyrir að þau fyrirtæki sem starfa innan fyrirhugaðs varnargarðs taki þátt í kostnaði við byggingu hans, eins og Eyjan greindi frá í gærkvöldi og kom fram í svari Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Eyjunnar.
Á samfélagsmiðlum hafa margir velt fyrir sér hvers vegna fyrirtæki sem græða milljarða séu ekki látin taka þátt í kostnaðinum.
„Af hverju eru einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið, sem hafa grætt milljarða á undanförnum árum, ekki látin borga amk. hluta af kostnaðinum við varnargarðana? Þess í stað er lagður nýr skattur á þorra almennings til að borga kostnaðinn,“ spurði til dæmis sagnfræðingurinn Guðjón Friðriksson á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.
Fjölmargir hafa skrifað athugasemd við færslu hans og tekið undir með honum. „Góð og þörf spurning,“ sagði einn á meðan annar bætti við: „Það þarf að krefjast svara og rökstuðnings fyrir þessari gölnu ákvörðun – að ekki sé gerður fyrirvari um endurgreiðslu þessara fyrirtækja,“ sagði annar.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, benti í gær á að HS Orka hefði skilað rúmum 18 milljörðum króna í hagnað frá árinu 2017.
„Ég ítreka að að sjálfsögðu verðum við að byggja varnargarða í kringum þjóðhagslega mikilvæga innviði og ríkið þarf og verður að koma að þeirri fjármögnun en að ætla sér síðan að láta heimilin greiða fyrir það á sama tíma og HS orka hefur skilað milljörðum í hagnað ár eftir ár finnst mér undarlegt,“ sagði hann.