Í tilkynningu frá Nova kemur fram að vegna þeirrar erfiðu stöðu sem uppi er í Grindavík fái allir viðskiptavinir Nova í Grindavík ótakmarkað net í farsíma þeim að kostnaðarlausu og kostnaður vegna nettenginga til heimila og fyrirtækja í Grindavík falli einnig niður. Tilgangurinn með þessu sé að koma til móts við alla þá sem hafi þurft að yfirgefa heimili sín í kjölfar jarðskjálfta og hugsanlegu eldgosi á svæðinu. Viðskiptavinir Nova á svæðinu þurfi því ekki að hafa áhyggjur af kostnaði við net og farsíma á meðan á þessu stendur.
Eftirfarandi er haft eftir Margréti Tryggvadóttur, skemmtana- og forstjóra Nova í tilkynningunni:
„Hugur okkar eins og allra landsmanna er hjá Grindvíkingum og viljum við létta undir á þessum óvissutímum. Undanfarnar vikur höfum við hjá Nova unnið í samstarfi við Neyðarlínu, Almannavarnir og önnur fjarskiptafélög að undirbúningi við að tryggja örugg fjarskipti við Grindavík. Eins og margir búum við okkur undir það versta en vonum það besta.“